Leita til EFTA-dómstóls vegna fjarskiptalaga

mbl.is/Ómar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur, að eigin frumkvæði, ákveðið að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um túlkun á skilgreiningarákvæðum fjarskiptalaga nr. 81/2003.

Er um að ræða ágreining um hvort að sú smáskilaboða-þjónusta sem Fjarskipti hf., þ.e. Vodafone, veittu á „Mínum síðum“ félagsins teljist vera fjarskiptaþjónusta sem veitt er á almennu fjarskiptaneti þess, sbr. 3. gr. fjarskiptalaga, en ákvæðið byggir á rammatilskipun Evrópusambandsins á sviði fjarskipta, nr. 2002/21/EB.

Sagt er frá þessu á heimasíðu Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS).

Málið sem um ræðir á rætur sínar að rekja til öryggisatviks á þjónustusíðu Fjarskipta hf. í lok nóvember 2013 þar sem brotist var inn á „Mínar síður“ og þaðan stolið gögnum sem síðar voru birt á internetinu. PFS hóf rannsókn á málinu í desember 2013. Fjarskipti hf. töldu aftur á móti að stofnunin hefði ekki valdsvið til að rannsaka málið þar sem þjónustan sem félagið veitti félli ekki undir gildisvið fjarskiptalaga.

PFS tók því sérstaka ákvörðun þar um og taldi að hugbúnaður á vefsvæði félagsins væri hluti af fjarskiptaneti þess, að sú þjónusta sem félagið veitti á vefsvæðinu væri fjarskiptaþjónusta og því teldist fjarskiptanetið almennt í skilningi fjarskiptalaga. Valdsvið stofnunarinnar væri því skýrt. Sú ákvörðun var staðfest af úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála.

Fjarskipti hf. stefndu PFS fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur og kröfðust ógildingar á úrskurði úrskurðarnefndar. Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að dómurinn telji skynsamlegan vafa leika á því hvernig túlka beri framangreind hugtök. Í því skyni að stuðla að einleitri túlkun á framkvæmd EES-samnings telji dómurinn því nauðsynlegt að óska ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Hvorki PFS né Fjarskipti hf. mótmæltu né kröfðust þess að ráðgefandi álits væri leitað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert