„Fíkniefnadeild lögreglunnar var einstaklega ósvífin í Eyjum, það verður bara að segjast,“ segir Björgvin Mýrdal, ritari Snarrótarinnar - Samtaka um borgaraleg réttindi, sem hefur stefnt íslenska ríkinu vegna handtöku og líkamsleitar fikniefnadeildar lögreglunnar á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í fyrra. „Þannig að við ætlum að fara með þetta alla leið. Það gengur ekki að hafa lögreglu sem vinnur svona.“
Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Í stefnu málsins kemur fram að lögreglan skráði í dagbók sína aðild Björgvins að Snarrótinni við handtöku hans, en þýðing á skráningu stjórnmálasamtaka og frjálsra félagaþátttöku hans sé óljós.
Snarrótin er félag áhugamanna um opið samfélag, mannréttindi, upplýsingafrelsi og nýjar leiðir í fíknivörnum. Einn liður í starfi samtakanna hefur verið útgáfa og dreifing leiðbeiningarefnis um réttindi einstaklinga í valdbeitingu lögreglu.
Á Þjóðhátíð í fyrra komu lögreglumenn að Björgvini og kröfðust þess að fá að framkvæma líkamsleit á honum. Hann varð ekki við þeirri kröfu, þar sem hann taldi að ekki væru lagaskilyrði fyrir slíku og enginn dómsúrskurður fyrir hendi.
Hann segir ástæðu handtökunnar hafa verið persónugreiningu lögreglunnar. „Þeir voru bara að ganga um allan bæinn og ganga á fólk sem þeim fannst líklegt til að vera með eitthvað á sér.“ Björgvin segir lögregluna þekkja nafn sitt og hún virðist líta á Snarrótina sem einhverskonar óvin. „Ég var með alla vasa fulla af réttindaspjöldum frá Snarrótinni sem við vorum að dreifa til áhugasamra, þannig að mér fannst upplagt að gefa lögreglunni eitt spjald á mann.“
Lögregla handtók því næst Björgvin og framkvæmdi líkamsleit. Ekkert saknæmt fannst á honum og var honum sleppt að leit lokinni. Samkvæmt stefnu var handtakan rökstudd með því að fíkniefnahundur hafi „merkt“ hann, þ.e. fundið lykt af ólöglegum fíkniefnum og segir Björgvin þá skýringu lögreglunnar vera ranga.
„Lögreglan hefur í raun engan rétt til að leita á þér þannig að þú getur hafnað svona líkamsleit og í því felst ekkert sjálfkrafa rökstuddur grunur um afbrot.“ Fólk þekki hins vegar illa rétt sinn og það nýti lögreglan sér. „Þetta er bara það sem þeir hafa verið að stunda og segja þá að hundurinn sé að merkja mann þó það sé meira og minna kjaftæði.“ Björgvin segir fíkniefnadeildina vera einstaklega slæma hvað þetta varði.
„Ég er mjög ósáttur með það að vera handtekinn og að það sé ekkert hlustað á það sem maður segir. Það er leitað á mér fyrir framan fullt af fólki. Ég var að koma í fyrsta skipti til Vestmannaeyja á Þjóðhátíð, aðallega af því að 18 ára dóttir mín var þarna.“ Lögreglan beri því við að aðgerðir hennar séu fyrir börnin, en hvað þá um vini og vinkonur dóttur hans? „Þegar fólki sér lögregluna vera að leita á einhverjum manni þá er hann umsvifalaust stimplaður sem glæpamaður.“
Málið verður sótt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í haust og fer Björgvin fram á eina milljón króna í skaðabætur, enda hafi valdbeiting lögreglu verið gerð honum að ósekju og hún hafi verið ólögmæt.