Fullkomlega löglegar ráðstafanir

Forsetahjónin Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussai­eff.
Forsetahjónin Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussai­eff. mbl.is/Eggert

Ekkert frekar mun koma fram um tengsl Dorritar Moussaief, eiginkonu Ólafs Ragnars Grímssonar, við aflandsfélög að hans sögn. Dorrit komi fram í skjölum svissnesks banka vegna ráðstafana sem foreldrar hennar gerðu í erfðamálum sem séu fullkomlega löglegar. Forsetinn segir ofsagt að málið hafi vakið mikla athygli erlendis.

Fjallað var um meint tengsl forsetafrúarinnar við aflandsfélögum í erlendum miðlum eins og The Guardian og Suddeutsche Zeitung í vikunni. Þar var fullyrt að skjöl frá HSBC-bankanum í Sviss sýndu fram á tengsl Dorritar við aflandsfélög og sjóði sem skráðir hafa verið utan Bretlands. Þar á meðal hafi hún verið einn þriggja meðlima Moussaieff-fjölskyldunnar sem voru skráðir eigendur félags á Bresku Jómfrúareyjum. Hún hafi einnig notið góðs af sjóði í eigu fjölskyldunnar.

Í samtali við mbl.is ítrekar Ólafur Ragnar það sem kom fram í yfirlýsingu sem skrifstofa forseta sendi frá sér fyrir hönd Dorritar. Hún hafi ekki átt neinn reikning hjá HSBC-bankanum og þá sé það ekki rétt að hún hafi átt hlut í aflandsfélögum. Ekkert frekar muni koma fram um slík tengsl.

„Það var fullyrt í ýmsum fjölmiðlum að hún ætti reikninga í þessum virta svissneska banka en þá hefur hún aldrei átt og aldrei átt nein viðskipti við þann banka. Hins vegar hafa foreldrar hennar rekið verslun og viðskipti í Sviss í margra áratugi og þess vegna er eðlilegt að þau skipti við þennan banka. En Dorrit hefur aldrei haft neina reikninga í þessum banka,“ segir Ólafur Ragnar.

Ráðstafanir foreldra Dorritar ekki hans mál

Hann fullyrðir að Dorrit tengist heldur ekki aflandsfélaginu Jaywick sem erlendir fjölmiðlar hafa bendlað hana við undanfarna daga.

„Það eina sem snertir hana í þessum efnum eru ráðstafanir út af erfðamálum sem foreldrar hennar gerðu fyrir mörgum árum síðan og taka ekki gildi fyrr en að þeim báðum látnum,“ segir forsetinn.

Spurður að því hvort að Dorrit komi þá ekki til með að hagnast á fé sem geymt er í aflandsfélagi segir Ólafur Ragnar að fyrirkomulagið sé fullkomlega löglegt út frá þeim alþjóðlegu viðskiptum sem foreldrar Dorritar stunda. Hvernig þau hagi sínum erfðamálum sé ekki hans mál.

„Hún fær náttúrulega sinn arf en hvernig hennar foreldrar hafa komið því fyrir er ekki hennar mál eða mitt,“ segir hann.

Ólafur Ragnar segir þau hjónin enga ákvörðun hafa tekið um hvort þau leggi fram gögn um skattamál þeirra eða bregðast frekar við umfjölluninni.

Spurður að því hvort að málið snúist ekki fremur um …
Spurður að því hvort að málið snúist ekki fremur um siðferðisleg álitaefni um hvernig viðskipti fjölskyldu forsetafrúarinnar hafi farið fram fremur en að hún stæði í þeim almennt segist Ólafur Ragnar telja að engin siðferðileg álitaefni hafi komið fram. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svarar ekki um skattalega stöðu Dorritar

Skrifstofa forseta hefur alltaf svarað fyrirspurnum um heimilisfesti Dorritar á þann veg að hún sé með lögheimili á Bretlandi og greiði alla sína skatta þar. Í umfjöllun The Guardian í vikunni var fullyrt að Dorrit hefði hins vegar takmarkaða skattskyldu (e. non-domiciled resident) í Bretlandi. Sú staða felur í sér að einstaklingur sem hefur varanlegt heimili erlendis borgi aðeins skatt í Bretlandi af þeim tekjum sem verða til þar.

Ólafur Ragnar segist ekki vilja svara nákvæmlega hver skattaleg staða Dorritar er þar sem breska skattalöggjöfin sé tiltölulega flókin. Dorrit hafi lögheimili á Bretlandi og það sé skýrt. Hún hafi engar tekjur á Íslandi og tekjur hennar séu skattlagðar í því landi sem þær verða til.

„Fólk og fyrirtæki, eins og fjölskylda Dorritar, sem stundar viðskipti um allan heim, lúta auðvitað alþjóðlegum reglum sem eru um það efni og þeim lögum sem gilda á Bretlandi,“ segir Ólafur Ragnar sem ítrekar að fyrirtæki Dorritar sé eitt það virtasta í heiminum í skartgripasölu og það birti ársreikninga og aðrar upplýsingar í opinberum skjölum á Bretlandi.

Leit ekki á Moussaief-fjölskylduna sem sína eigin

Í viðtali við CNN-fréttastofuna þvertók Ólafur Ragnar fyrir að eitthvað myndi koma í ljós um hann eða fjölskyldu hans hvað varðaði aflandsfélög. Forsetinn segir nú að hann hafi ekki haft neina hugmynd um að með þeirri spurningu væri átt við alla Moussaief-fjölskylduna.

„Þegar ég er spurður um fjölskyldu mína skil ég þá spurningu ætíð að það sé fjölskylda mín hér á Íslandi, dætur mínar, þeirra börn, eiginmenn og Dorrit. Þó ég beri mikla virðingu fyrir foreldrum Dorritar voru þau orðin um sjötugt þegar ég hitti þau fyrst. Ég hef aldrei litið á þau eða önnur ættmenni í Moussaief-fjölskyldunni þannig að ég telji þau með þegar ég er spurður um fjölskyldu mína, enda hef ég haft tiltölulega lítil samskipti við þau nema góð og gild,“ segir Ólafur Ragnar.

Hann viti ekkert um viðskiptahætti Moussaief-fjölskyldunnar eða hvernig hún hefur rekið alþjóðlegt fyrirtæki sitt sem hann segir hafa gert með miklum sóma.

Það er nú ofsagt í íslenskum fjölmiðlum að þetta mál …
Það er nú ofsagt í íslenskum fjölmiðlum að þetta mál hafi vakið mikla athygli erlendis, segir forsetinn. mbl.is/Eggert

Orð Katrínar Jakobsdóttur „algert bull“

Ólafur Ragnar segist ekki hafa séð mikinn vitnisburð um að málið hafi haft áhrif á framboð sitt til forseta. Hann segist skilja vel þá umræðu sem verið hefur á Íslandi, sem sé eðlileg.

„Það er nú ofsagt í íslenskum fjölmiðlum að þetta mál hafi vakið mikla athygli erlendis. Til dæmis hvað Bretland snertir sem ég þekki nú vel til þá kom þessi frétt í The Guardian sem var svona fjórðungur úr síðu. Mér vitanlega hefur ekkert annað blað, sjónvarpsstöð eða útvarpsstöð á Bretlandi fjallað um þetta mál,“ segir forsetinn.

Hvetur forsetinn ábyrga aðila til að gæta orða sinna. Nefnir hann sérstaklega orð Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, í ræðustól Alþingis sem voru á þann veg að fjallað væri um forseta Íslands í Panamaskjölunum.

„Það er bara algert bull. Það er ekki minnst á mig einu orði í Panamaskjölunum til eða frá. Þess vegna skiptir líka miklu máli ef við ætlum að ná utan um þessa umræðu sem er mikilvæg á árangursríkan hátt að menn haldi sig við staðreyndir, sérstaklega ábyrgir alþingismenn,“ segir Ólafur Ragnar.

Virði sjálfstæði maka forseta

Forsetinn segist telja það mikilvægt, ekki aðeins gagnvart sér heldur þeim sem taki við forsetaembættinu í framtíðinni, að við lifum á 21. öldinni þar sem maki forseta getur haft sjálfstæða atvinnu og tilveru. Virða þurfi sjálfstæði maka til þess að sinna sinni atvinnu.

„Mér finnst það vera dálítið gamaldags hugsun að af því að Dorrit varð ástfangin af mér og giftist mér þá eigi hún að yfirgefa þá atvinnu sem hún og fjölskylda hennar hefur stundað í marga áratugi og jafnvel aldir. Það að vera forsetafrú á Íslandi er bara sjálfboðaliðastarf. Það er ekki launað starf eða atvinna,“ segir Ólafur Ragnar.

Spurður að því hvort að málið snúist ekki fremur um siðferðisleg álitaefni um hvernig viðskipti fjölskyldu forsetafrúarinnar hafi farið fram fremur en að hún stæði í þeim almennt segist Ólafur Ragnar telja að engin siðferðileg álitaefni hafi komið fram.

„Það hefur komið alveg skýrt fram að hún hefur ekki átt þessa bankareikninga, hún hefur ekkert átt neitt í þessu félagi. Ég hef ekki séð neinar upplýsingar um að það hafi verið gert neitt siðferðislega rangt í þessum málum,“ segir forsetinn sem telur umfjöllunina ekki hafa nein áhrif á framboð sitt til endurkjörs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka