Algjört vonleysi og vantraust

Skuggar barna á göngu í Idomeni bera fyrir vegg þar …
Skuggar barna á göngu í Idomeni bera fyrir vegg þar sem yfirvöld eru hvött til að leyfa flóttafólki að fara yfir landamærin. AFP

Í síðustu viku reyndi ungur fjölskyldufaðir að hengja sjálfan sig og börnin sín þrjú við gríska þorpið Idomeni, sem liggur við landamæri Makedóníu. Maðurinn er einn þúsunda flóttamanna sem dveljast á svæðinu, í algerri óvissu um framtíð sína. Sem betur fer brugðust viðstaddir skjótt við og amar því ekkert að fjölskyldunni líkamlega, en þó að aðgerðin sé öfgafull og óhugsandi þekkir annað flóttafólk í Idomeni allt of vel það algjöra vonleysi sem bjó að baki.

Þórunn Ólafsdóttir, sjálfboðaliði í Idomeni, segir flóttafólk á svæðinu hafa upplifað endalausa þrautagöngu frá því það flúði heimili sín, svo margt hafi gerst og svo margir brugðist. Þó svo að nú sé tæknilega séð búið að loka búðunum í Idomeni og yfirvöld reyni að telja fólk á að færa sig yfir í aðrar búðir á vegum hins opinbera sitji margir eftir í pattstöðu sökum vantrausts gagnvart valdhöfum.  

„Það berast sögur af því að fólk sé lokað inni, ekki bara frá Lesbos því ég hef sjálf komið í búðir hér í Makedóníu þar sem fólk er hreinlega í fangelsi. Grikkir hafa sagt að fólk verði ekki lokað inni í Grikklandi, en fólk treystir ekki þeim yfirlýsingum vegna þess konar fordæma.“

„Fólk bara flýr“

Þórunn segir sögur ganga um matarskort í nýju búðunum og að þær séu úti í óbyggðum. Sem stendur starfar þar aðeins opinbert hjálparstarfsfólk en ekki sjálfboðaliðar úr röðum almennings og óljóst er hvort eða hvernig almenningur fær aðgang að þeim. Þó að aðstæður séu slæmar í Idomeni segir Þórunn fólk upplifa að það hafi örlítið vald yfir eigin lífi.

Það geti eldað mat sjálft hafi það aðgang að hráefni og geti gengið um svæðið, keypt inn ef það eigi peninga og þegið það sem fólk komi með í búðirnar. Þetta vald óttast fólkið að missa í nýju búðunum.

„Til þess að ýta fólki af stað hefur þeim skilaboðum verið komið áleiðis að ekkert muni gerast í Idomeni. Það hefur orðið til þess að fólk bara flýr. Það er rosalegt flæði á fjöldanum í Idomeni núna því fólk er orðið hrætt um að svæðið verði rýmt. Þá fer það eða felur sig... það er fullt af fólki í skógunum hérna í kring, sérstaklega fólk sem hefur átt erfitt með að fá upplýsingar og svo ungmenni, sem eru afar viðkvæmur hópur.“

Þórunn segir flóttafólkið gjarnan reyna að fara yfir landamærin, sumir hafi reynt það oft. Margir verði þá fyrir ofbeldi af hálfu makedónska hersins og snúi til baka með margs konar áverka, jafnvel brotna útlimi.

„Svo eru smyglararnir komnir á fullt og það er þeirra hagur að halda fólki í Idomeni. Þegar fólk er fært inn á svæði sem bara hjálparstarfsfólk hefur aðgang að eru þeir ekki að fara að selja því sínar hugmyndir í sama mæli. Þeir eru ofboðslega duglegir við að dreifa orðrómum. Þess vegna veit enginn neitt og enginn treystir neinum og ég skil fólk mjög vel að treysta því ekki að ef það fari í aðrar búðir muni allt reddast. Það er enginn hér til að svara öllum þessum spurningum og því er algjör óvissa á öllum stigum málsins.“

Leysist ekki af sjálfu sér

Þórunn segir að einhverju leyti eðlilegt að fólk verði ónæmara fyrir fréttum af flóttafólki eftir því sem ástandið dragist á langinn, auk þess sem ýmis önnur stór mál standi nú upp úr í samfélagsumræðunni á Íslandi. Hún finni þó enn fyrir miklum áhuga almennings en telji marga finna til máttleysis gagnvart aðstæðum.

„Ég hef ekki orðið vör við mikinn áhuga valdhafa á því að bregðast við. Mér finnst almenningur hafa miklu meiri áhuga en þeir sem í raun gætu breytt einhverju. T.d. fyrir því sem ég og fleiri höfum talað um, að sækja fólk og brjóta ísinn fyrir aðrar þjóðir.“

Þórunn segir ýmsa orðróma ganga um búðirnar, m.a. um að fulltrúar Portúgal hafi verið á ferðinni að kynna möguleikann á því að flytja fjölskyldur til landsins. Sömuleiðis hafi hún heyrt af fjölskyldu sem hafi fengið leyfi til að fara til Spánar.

„Þetta ástand leysist ekkert af sjálfu sér. Það þarf að koma hjálp utan frá af því að Grikkir ráða ekki við þetta. Fólk bíður hér þar til einhver sýnir ábyrgð og tekur fyrsta skrefið. Ísland gæti gert það og á þeim skilaboðum sem ég fæ virðist mér mikill áhugi fyrir því að gera eitthvað. Við getum gert mikið meira en búið er að gera. Það var algjörlega til fyrirmyndar hvernig tekið var á móti þeim fjölskyldum sem komu í vetur en það er ekki nóg. Ástandið er viðvarandi og hverfur ekki og við þurfum að gera miklu betur til að hafa staðið okkar plikt í þessum málum.“

Þórunn Ólafsdóttir er sjálfboðaliði í Grikklandi.
Þórunn Ólafsdóttir er sjálfboðaliði í Grikklandi.
Frá tjaldbúðum í Idomeni.
Frá tjaldbúðum í Idomeni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert