TEDxReykjavík ráðstefnan verður haldin í sjötta sinn þann 28. maí næstkomandi. Á viðburðinum gefst þátttakendum einstakt tækifæri til að heyra erindi fjölbreytts hóps mælenda.
Þeir munu kynna til sögunnar hugmyndir sínar sem tengjast viðfangsefnum sem eru þeim sérstaklega hugleikin, allt frá sjálfbærni, náttúruvernd og tæknilegri framþróun til samfélagslegra breytinga.
Þema ársins er „áhrif innlendra hugmynda á heimsvísu.“ Kastljósinu verður varpað á það hvernig hugmyndir sem spretta úr okkar nánasta umhverfi hér á Íslandi geta náð flugi og haft áhrif út fyrir landsteinana.
Mælendur á TEDxReykjavík 2016
Tómas Guðbjartsson - hjartaskurðlæknir og prófessor í skurðlækningum með brennandi áhuga á umhverfisvernd, mun ræða um íslenska hálendið og hvernig best má gæta að „hjarta Íslands.“
Jonathan Duffy - grínisti, sviðslista- og kvikmyndagerðarmaður, mun ræða um afdrifaríka flutninga sína frá Ástralíu til Íslands og hvernig besta ár lífs manns er ekki endilega auðveld upplifun.
Vilborg Arna Gissurardóttir - fyrsti Íslendingurinn til að skíða ein síns liðs frá strönd Suðurskautslands til suðurpóls, mun ræða um reynslu sína og þær hindranir sem hún mætti við að uppfylla draum sinn.
Vignir Örn Guðmundsson - framkvæmdastjóri og meðstofnandi Radiant Games, mun ræða um framfarir á sviði gervigreindar og tölvunarfræði og af hverju kóðun er læsi 21. aldarinnar. Hann mun deila hugmynd sinni á bak við væntanlegan tölvuleik sem kynnir börn fyrir heimi tölvuvísinda og forritunar.
Vilhjálmur B. Bragason - rithöfundur og leikskáld, mun fjalla um ímyndunaraflið, tengsl þess við lífsgæði okkar og hvernig hægt sé að bæta lífsgæðin með því að vera meðvituð um þær sögur sem við kjósum að segja sjálfum okkur.
Martyna Daniel - lista- og kvikmyndagerðarkona, og ein af stofnendum Listastofunnar, mun ræða um list og mikilvægi hennar, bæði fyrir einstaklinginn og samfélagið. Hún mun fjalla um hvenær og hvers vegna okkur er kennt að vanmeta virði lista og af hverju það þarf að breytast.
Una Torfadóttir and Margrét Snorradóttir - 16 ára nemendur úr Hagaskóla sem hafa fundið skapandi leiðir til að koma femínískum hugmyndum sínum á framfæri. Þær munu ræða um nauðsyn þess að konur taki pláss og hverju það fær áorkað.
Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir - aðgerðasinni í málefnumtrans- og hinsegin fólks, mun ræða um reynslu sína sem transmanneskja í tvískiptu, tvíkynja samfélagi. Hún skorar á gesti að endurmeta skoðanir sínar á málefninu og hvetur þá til að gerast betri samherjar hinsegin fólks.
Tara Ösp Tjörvadóttir - ljósmyndari og upprennandi kvikmyndagerðarkona mun ræða um mátt samfélagsmiðla til að opna umræðuna um geðheilbrigði, deila eigin reynslu af vandamálum tengdum viðfangsefninu og aðkomu sína aðherferðinni #égerekkitabú.
Miðasala á viðburðinn er hafin á midi.is
Hér má sjá nokkrar umfjallanir mbl.is um TEDxReykjavík:
Ætlar ekki að láta fjarlægja örið