Dæmdir fyrir skartgriparán

Gullsmiðjan í Hafnarfirði
Gullsmiðjan í Hafnarfirði mbl.is/Styrmir Kári

Þrír karlmenn á þrítugs- og fertugsaldri voru í síðustu viku dæmdir í fangelsi vegna vopnaðs ráns í Gullsmiðjunni í Hafnarfirði. Einn þeirra var þar að auki dæmdur fyrir að hafa skotið að sérsveitarmönnum með öflugri gasbyssu þegar handtaka átti hann. Þá var hann einnig dæmdur fyrir rán í sömu verslun ásamt öðrum manni um mánuði áður.

Þeir dæmdu eru Axel Karl Gíslason sem fékk þyngsta dóminn, eða fjögur ár og sex mánuði, Ásgeir Heiðar Stefánsson sem fékk tveggja ára og sex mánaða fangelsi og Mikael Már Pálsson sem þarf að sæta fangelsi í 15 mánuði.

Fréttaknippi mbl.is: Rán í Gullsmiðjunni

Málið kom upp í október þegar tveir grímuklæddir menn ógnuðu starfsmanni versl­un­ar­inn­ar með bar­efl­um og hníf­um og höfðu síðan á brott með sér tölu­verð verðmæti. Þar af stór­an hluta af skart­grip­um sem ætlaðir voru í sölu fyr­ir jól­in. Um var að ræða þá Axel og Ásgeir.

Axel ógnaði starfs­mann­in­um með exi og skaut enn­frem­ur að lög­regl­unni á flótt­an­um. Í dóminum kemur fram að sannað þyki að tveimur skotum hafi verið hleypt af byssunni, en samkvæmt mati sérfræðings gat skot úr byssunni valdið varanlegum áverka á heilbrigðum mannslíkama og sérstaklega á hálsi og á höfði.

Mánuði fyrir þessi brot fór Axel og rændi sömu skartgripabú í félagi við óþekktan einstakling. Brutust þeir þá inn að morgni laugardags og höfðu á bratt með sér skartgripi fyrir um 1,1 milljón. Þótti sannað í málinu að Axel hefði verið á ferð, en hann var handtekinn degi seinna á heimili systur sinnar þar sem glerbrot fundust í fatnaði hans og skartgripaöskjur og verðmiðar frá sömu verslun. Þá var grímu að finna í rusli heimilisins.

Mikael Már er ekki talinn hafa skipulagt ránið eða verið aðalmaður í því. Í ákærunni er hann aftur á móti ásakaður um að hafa veitt ránsfengnum viðtöku og greitt fyrir hann með reiðufé og fíkniefnum. Dómurinn kemst aftur á móti að þeirri niðurstöðu að Mikael hafi orðið við beiðni Axels og Ásgeirs um að hitta þá við Grindavíkurafleggjarann og skutla þeim þaðan til Keflavíkur. Það gerði hann þrátt fyrir að vita að þeir hefðu framið refsiverða háttsemi og í því fólst brot hans.

Allir eiga mennirnir að baki langan brotaferil. Axel hefur sjö sinnum hlotið dóm og Ásgeir hefur alls 10 sinnum verið dæmdur fyrir auðgunarbrot. Var hann á skilorði þegar ránið var framið. Mikael Már á að baki samfelldan sakaferil allt frá árinu 2002 fyrir ýmis brot gegn almennum hegningarlögum, sjö dóma,  þar af í þrjú skipti fyrir rán.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert