Fulltrúar Íslands skrifuðu undir samkomulag á vegum OECD um aukið gagnsæi í starfsemi alþjóðlegra fyrirtækjasamsteypa í Kína í dag. Alls hafa nú 39 ríki skrifað undir samkomulagið sem fjallar meðal annars um deilingu skattaupplýsinga á milli ríkja þar sem alþjóðleg fyrirtæki starfa.
Í tilkynningu á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins kemur fram að samkomulagið er hluti af 13. aðgerð BEPS-áætlunar OECD. Það kveður á um að alþjóðafyrirtæki skili svonefndum aðal- og staðarskýrslum (master file and local file) beint til viðeigandi skattyfirvalda. Yfirlitsskýrslu (Country-by-Country Report) skal svo afhenda í því ríki sem móðurfélag alþjóðafyrirtækis er heimilisfast og þaðan skal henni deilt sjálfvirkt til annarra ríkja sem fyrirtækið starfar í á grundvelli upplýsingaskipta- og tvísköttunarsamninga.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið mun í framhaldinu vinna að innleiðingu reglnanna í íslenskan rétt en gert er ráð fyrir að vinnunni ljúki á þessu ári og reglurnar taki gildi í janúar 2017.
Alls hafa 39 ríki gerst aðilar að samkomulaginu en auk Íslands skrifuðu Kanada, Indland, Ísrael, Nýja-Sjáland og Kína undir það í dag.
OECD tilkynnti jafnframt í vikunni að fimm ríki hefðu bæst í hóp 101 ríkis sem skuldbinda sig til þess að innleiða reglur um skilvirkari upplýsingagjöf í skattamálum (CRS-reglur). Á meðal þeirra eru Líbanon og Panama. Hið síðarnefnda skuldbatt sig til innleiðingar reglnanna árið 2014 en hvarf frá þeim áformum fyrr á þessu ári. Nú hefur Panama hins vegar staðfest að það hyggist innleiða reglurnar og fyrstu upplýsingaskiptin muni eiga sér stað á árinu 2018. Önnur ríki sem bæst hafa á listann eru Barein, Nárú og Vanúatú.
Í kjölfar birtingar Panama-skjalanna í apríl vinna G20-ríkin og stjórnvöld víða um heim að átaki til að auka gagnsæi í skattamálum svo komið verði í veg fyrir undanskot skatta og ólögmætt fjármagnsflæði. Til að mynda hafa allnokkur OECD-ríki farið af stað með verkefni um sjálfvirk upplýsingaskipti um raunverulega eigendur svo komið verði í veg fyrir dulið eignarhald.
Á næstkomandi tólf mánuðum telur OECD að mikilvæg þróun verði með innleiðingu reglna um sjálfvirk upplýsingaskipti (CRS) í fjölmörgum ríkjum, nýjum leiðum til að tryggja að upplýsingar um raunverulega eigendur verði innleiddar og loks mótun stefnu gagnvart ríkjum sem enn eru ófús til samstarfs á þessum vettvangi, að því er segir í tilkynningunni.