Hæstiréttur hefur snúið við niðurstöðu héraðsdóms og fellt úr gildi ákvörðun iðnaðar- og viðskiptaráðherra um að veita Landsneti heimild til að framkvæma eignarnám á jörðum nokkurra landeigenda vegna lagningar Suðurnesjalínu 2. Tveir dómarar skiluðu séráliti og vildu staðfesta ákvörðunina.
Héraðsdómur Reykjavíkur hafði staðfest ákvörðun Ragnheiðar Elínar Árnadóttur í mars í fyrra. Hæstiréttur dæmdi hins vegar landeigendum í vil í fjórum málum sama meiðis gegn Landsneti og íslenska ríkinu í dag.
Reistu landeigendurnir á Vogum á Vatnsleysuströnd kröfur sínar á því að ekki væri fullnægt skilyrði um almenningsþörf og meðalhóf fyrir framkvæmdunum, auk þess sem ráðherra hefði ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni áður en tekin hefði verið ákvörðun um að heimila eignarnám.
Loks hefði Landsnet brotið gegn skyldu sinni til samráðs vegna framkvæmdanna og andmælaréttur hennar ekki verið virtur við meðferð málsins. Í dómi Hæstaréttar kom fram að undirbúningur framkvæmdanna hefði farið eftir formlega lögboðnu ferli. Hefðu til að mynda verið haldnir kynningarfundir, fjallað hefði verið um væntanlegar framkvæmdir hjá sveitarstjórnum og tillögur Landsnets sætt meðferð hjá Skipulagsstofnun og Orkustofnun.
Á hinn bóginn var fallist á með landeigendum að Landsnet hefði ekki rannsakað sem skyldi þann kost að leggja línuna í jörðu en ekki í lofti, eins og eignarnámsbeiðnin hafði kveðið á um. Talið var að landeigendurnir hefðu með rökum ítrekað andmælt þeim gögnum sem Landsnet hefði vísað til um nauðsyn línulagnar í lofti. Jafnframt hefðu þeir lagt fram gögn sem sýna áttu að jarðstrengir væru raunhæfur kostur og rökstutt þörf á að kanna hann til þrautar áður en ráðist væri í stórvægilegar aðgerðir.
Þrátt fyrir þetta hefði Landsnet við undirbúning framkvæmdanna ekki látið fara fram sérstaka athugun á þeim möguleika að leggja jarðstreng, heldur hefði hann einkum vísað til almennra sjónarmiða um kosti og galla slíkra strengja. Þá hefði ráðherra ekki haft forgöngu um að þetta atriði yrði sérstaklega athugað áður en hann tók ákvörðun um að heimila eignarnám.
Því féllst Hæstiréttur á kröfur landeigendanna.
Tveir dómarar Hæstaréttar, þeir Eiríkur Tómasson og Viðar Már Matthíasson, skiluðu séráliti og vildu staðfesta ákvörðun ráðherrans. Töldu þeir að ekki hafi verið sannað annað en að ráðherrann hafi fullnægt rannsóknarskyldu sinni áður en hann tók ákvörðunina.