„Samfylkingin er í úlfakreppu og líklegast í órafjarlægð frá því sem flokksmenn telja ásættanlegt. Flokkurinn var stofnsettur til þess að sameina vinstrimenn og ná verulegu fylgi en það er orðið ansi langt síðan hann var í þeirri stöðu,“ segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði. Hann segist ekki vera viss um að formannskjör eitt og sér geti bjargað stöðu flokksins, þar sem vandinn sé djúpstæðari en svo.
Landsfundur flokksins fer fram í júní n.k. en fjórir frambjóðendur sækjast eftir embætti formanns Samfylkingarinnar; Helgi Hjörvar, þingmaður til þrettán ára, Magnús Orri Schram, sem sat á þingi fyrir Samfylkinguna á síðasta kjörtímabili en starfar nú sem ráðgjafi hjá Capacent, Oddný Harðardóttir, þingmaður og fyrrum fjármálaráðherra og Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi. Þá sækist Sema Erla Serdar, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, eftir embætti varaformanns.
„Flokkurinn hlaut afhroð í síðustu kosningum og staðan hefur bara versnað síðan,“ segir Eiríkur og bætir við að flokkurinn þurfi á nýju upphafi að halda. „Slíkt hefur stundum gengið vel eins og til dæmis var með Reykjavíkurlistann á sínum tíma, jafnvel eins og varð með Alþýðubandalagið á sínum tíma og eins og varð með Samfylkinguna sjálfa á ákveðnu tímabili. Saga vinstri hreyfinga er saga klofnings og sameininga. Stundum hefur gengið upp að sameina áður sundrað fólk í nýtt fyrirbæri sem þó hvíli á sama hugmyndafræðilega grunni, þannig að úr hefur orðið eitthvað stærra en það sem fyrir var, þótt tímabundið virðist vera í hvert sinn.“
Magnús Orri Schram virðist vera á þeirri línu í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag, en þar segir hann flokkinn þurfa að taka verulegum breytingum á næstu vikum til þess að geta gegnt hlutverki sínu „sem valkostur jafnaðarfólks“ í kosningunum í haust. Magnús bendir á að flokkurinn sé með átta til tíu prósenta fylgi sem er að mestu meðal elstu kjósendanna. Þá talar hann fyrir því í greininni að ný hreyfing verði stofnuð, sem stefnir saman fólki frá miðju til vinstri. Í samtali við mbl.is fyrr í dag sagðist Magnús þó ekki vilja leggja flokkinn niður, heldur byrja upp á nýtt.
Eiríkur segir vanda sósíaldemókratíunnar á Íslandi og víðar djúpstæðan, og skammtímalausnir dugi skammt. „Sósíaldemókratar glötuðu grundvallarfylgi sínu um alla Evrópu, þar á meðal á Íslandi, þegar þeir færðust frá því að vera fyrst og fremst málsvarar almennings og fóru að hafa áhuga á fágaðri blæbrigðum stjórnmálanna. Þegar þeir fóru einkum að velta fyrir sér málefnum á borð við umhverfisvernd, lýðræðisþróun, femínisma og málefnum sem kunna að vera mikilvæg en eru ekki í eðli sýnu alþýðubarátta misstu þeir kjarnafylgi sitt yfir til annarra popúlískari afla sums staðar. Á meðan menn ná ekki tökum á þessum grunni sínum þá sést ekki hvaða smáskammtalækningar duga,“ segir Eiríkur og heldur áfram:
„Þessi hugmynd og hugmyndafræði um að flokkarnir vinstra megin hryggjar vinni saman snýst ekki um að það fyrirbæri heiti Samfylkingin, það getur heitið hvað sem er. En þetta er spurning um hvar jafnaðarmenn í breiðum skilningi eru til húsa hverju sinni. Hreyfingin er í rauninni að sumu leyti óháð flokkunum hverju sinni.“
Eiríkur bendir á að staðan fyrir kosningar sé töluvert snúin. Katrín Júlíusdóttir, varaformaður og þingmaður Suðvesturkjördæmis, hefur tilkynnt að hún ætli að hætta á þingi í lok kjörtímabilsins. Í sama kjördæmi situr Árni Páll formaður. Fari svo að Magnús Orri, sem er sá þriðji á lista í kjördæminu, verði kosinn formaður verður að teljast líklegt að annað þeirra hætti fyrir lok kjörtímabilsins svo formaðurinn sitji á þingi.
Þá segir Eiríkur afar ólíklegt að tvær konur yrðu kosnar í embætti formanns og varaformanns, vegna kynjajafnréttisstefnu flokksins. „Þetta er flokkur sem gengst hvað lengst í formlegu kynjajafnrétti þegar kemur að stöðum og þess háttar og það er algjörlega innbyggt í þennan stjórnmálaflokk að rétta slíkt af, enda er þetta sá flokkur sem Kvennalistinn fór inn í. Núverandi staða er sú að formaður og varaformaður koma úr sama kjördæminu og það getur gengið en það gengur verr að formaður og varaformaður séu af sama kyni,“ segir Eiríkur.