Að kvöldi 12. apríl ræddust Nadezda Edda Tarasova og dóttir hennar Julia við í síma eins og svo oft. Mæðgurnar voru afar nánar þó önnur byggi á Akranesi og hin í Rússlandi, og Nadezda hafði einmitt verið að skoða að kaupa flugmiða til að heimsækja dóttur sína, móður og barnabarn. Samtalið um mögulegt frí við Svartahafið var því gleðilegt, fullt af hlýju eins og öll þeirra samskipti.
„Hún var kannski móðir mín en hún var líka hjartahlýjasta manneskja í heimi,“ segir Julia. „Hún var alltaf brosandi, alltaf í góðu skapi.“
Julia lýsir næsta símtali sem henni barst frá Íslandi sem því versta sem hún hefur fengið. Móðir hennar hafði fundist látin í rúmi sínu. Ljóst þykir að eiginmaður hennar, Guðmundur Valur Óskarsson, hafi skotið hana til bana og síðan tekið eigið líf í stofu heimilis þeirra.
„Ég öskraði bara,“ segir Julia. „Nágrannar mínir komu hlaupandi því ég öskraði svo mikið og ég öskraði þar til læknir gaf mér eitthvað, ég man ekki hvað gerðist næst. Það sama gerðist þegar ég kom hingað. Ég trúi þessu ekki enn.“
Við Julia sitjum í gömlum sófa á efri hæð Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar við Öldugötu með bunka af ljósmyndum frá móður hennar á milli okkar. Hún talar afar lágri röddu, hvíslar næstum, og er örlítið vot um augun en kemst aðeins í sýnilegt uppnám einu sinni á meðan á viðtalinu stendur, þegar talið berst að sjö ára syni hennar sem kallað hafði Guðmund Val afa sinn allt sitt líf. Hún grípur andann og lítur í burtu en þó varir hennar titri eitt augnablik leyfir hún ekki tilfinningunum að bera sig ofurliði. Ekki núna.
Hún setur tilgang viðtalsins mjög skýrt fram. Hún sér ekki ástæðu til að fara ofan í smáatriði morðsins eða hella úr skálum reiði sinnar. Hún vill segja frá móður sinni sem hún elskaði svo heitt, minnast hennar opinberlega í þeirri veiku von að sagan geti bjargað öðrum konum frá sömu örlögum.
Nadezda skildi við föður Juliu árið 1995, þegar Julia var 13 ára gömul. Hún kynntist Guðmundi í gegnum sameiginlega vinkonu stuttu eftir aldamótin og ekki leið á löngu áður en hún flutti til Íslands og giftist honum.
Julia heimsótti Nadezdu oft til Íslands og var sjálf búsett hér um nokkurt skeið. Amma hennar, móðir Nadezdu, bjó einnig á Íslandi um tíma og Edward, sonur Juliu hefur íslenskan ríkisborgararétt. Julia segir rík tengsl sín við landið hafa verið óumflýjanleg. Þær mæðgur hafi sífellt verið að skipuleggja leiðir til að hittast og hvernig þær gætu búið aftur saman í framtíðinni.
„Við mamma vorum mjög nánar. Þegar ég var barn öfunduðu vinir mínir mig alltaf vegna sambands míns við mömmu, hún var meira eins og vinur minn eða systir. Hafið á milli okkar var ekkert. Við vorum í stöðugum samskiptum um allt; eldamennsku, skólann hjá syni mínum, allt.“
Símtalið þann 12. apríl var þess vegna ekki óvenjulegt þó tilhugsunin um fjölskyldufrí og endurfundi væri spennandi. Nadezda hafði hinsvegar átt óvenjulegt samtal við eiginmann sinn um þremur vikum fyrr, þar sem hún tilkynnti honum að hún hygðist skilja við hann.
Guðmundur hafði glímt við veikindi árum saman og sagði Nadezdu að ef hún aðstoðaði við umönnun hans myndi hann veita henni skilnað. Julia segir móður sína hafa annast eiginmanninn vel en aldrei fengið skilnaðinn sem hún vildi.
Hvort ósk Nadezdu um skilnað hafi verið ástæða þess að Guðmundur tók sér skotvopnið í hönd er ómögulegt fullyrða um og Julia vill alls ekki geta í eyðurnar.
„Ég veit ekki hvort það var ástæðan eða kannski það að hún ætlaði til Rússlands. Hann var veikur og fólk reyndi að annast hann. Læknirinn skrifaði upp á eitthvað fyrir hann og aðstæður hans voru þekktar því hann talaði við presta og félagsráðgjafa en ég veit ekkert hvað hann sagði. Ég veit í raun ekkert. Ég hef misst hluta lífs míns sem ég veit ekki hvernig ég á að lifa án. Ég veit ekki hvers vegna hann tók hana frá mér þegar hann vissi hvað ég elskaði hana heitt.“
Þetta var ekki í fyrsta skipti sem Nadezda ákvað að skilja við Guðmund. Árið 2008 fluttist hún út af heimilinu og inn í íbúð á vegum Rauða krossins.
„Þau bjuggu í sitthvoru lagi um nokkra hríð en svo dó sonur hans í slysi. Hann var einmana og bað hana um stuðning og hjálp. Hún vorkenndi honum og flutti aftur inn til hans til að hjálpa honum. Hann lofaði henni að hann myndi breytast.
Auðvitað upplifði ég það sem svo að hann beitti hana andlegu ofbeldi. Hún hafði meiri gæsku og góðlyndi en nokkur önnur íslensk kona hefði getað sýnt honum. Hún fann til samúðar. Hann lofaði að breytast.“
Julia segist vilja greina frá sögu móður sinnar í von um að koma í veg fyrir að aðrar konur mæti sömu örlögum. Hún vilji hvetja fólk til þess að láta sig aðra varða og segir nauðsynlegt að nágrannar og samstarfsmenn láti vita þegar þeir upplifa að ekki sé allt með felldu.
„Þegar mamma mætti ekki í vinnuna var hringt í hana margoft. Ef ég mæti ekki í vinnuna fæ ég tvö eða þrjú símtöl en ekki á tíu mínútna fresti og enginn myndi hringja á lögregluna eftir aðeins einn klukkutíma. Það sama gildir um þig geri ég ráð fyrir. Fólk getur sofið yfir sig, verið veikt... hlutir koma upp á.“
Julia segir líklegt að samstarfsfólk Nadezdu hafi séð hana í uppnámi, hugsanlega vitað af erfiðleikunum heima fyrir og þó hún kenni þeim ekki um getur hún ekki annað en velt fyrir sér hvort einhver hefði getað gripið inn í. Eins veltir hún vöngum yfir morðvopninu. Lögreglan segir Guðmund hafa verið skráðan fyrir tveimur skotvopnum en hefur ekki viljað staðfesta að byssan sem notuð var til að ráða Nadezdu bana hafi verið skráð.
„Hvernig ætti ég að geta kennt einhverjum um? Ég get það ekki. En einhvern veginn hlýtur að hafa verið hægt að koma í veg fyrir þetta. “
Erlendar konur á Íslandi eiga í meiri hættu á að verða fyrir heimilisofbeldi en íslenskar konur. Í rannsókn á vegum Kvennaathvarfsins frá 2009 kom fram að mikill munur væri á aðstöðu erlendra kvenna sem leituðu til athvarfsins, eftir landfræðilegum uppruna.
Konur frá löndum utan EES væru í sumum tilvikum háðar maka varðandi dvalarleyfi sem gerði þær berskjaldaðri fyrir heimilisofbeldi. Þá stuðli tungumálaerfiðleikar og lítil þekking af staðarháttum að einangrun og auðveldi misnotkun. Undir þetta getur Julia tekið að nokkru leiti. Hún er sammála því að konur frá öðrum löndum búi ekki að sama stuðningi og íslenskar konur en bendir á að móðir hennar hafi fengið aðstoð þegar hún leitaði eftir henni árið 2008.
„Þegar hún ákvað að fara frá eiginmanni sínum voru margar konur sem hjálpuðu henni, íslenskar konur. Hún talaði góða íslensku og var aðlöguð íslenskri menningu. Hún elskaði Ísland og á síðustu árum sínum leit hún fremur á sig sem Íslending en Rússa.“
Julia tekur fram að jafnvel þó svo að móðir hennar hafi ekki átt fjölskyldu hér á landi hafi hún átt vini, ekki aðeins innan rússneska samfélagsins heldur einnig Íslendinga. Hún er staðráðin í því að ekki verði litið á móður hennar sem nafnlausan útlending, tölu í kerfi eða þá útfrá sambandi hennar við Guðmund Val heldur sem elskaða móður, ömmu og vinkonu.
„Það eina sem skiptir máli er að mín yndislega móðir er dáin. Hvernig þeirra sambandi var háttað, í hvernig skapi hann var eða af hverju hann gerði þetta skiptir engu máli. Ég vil ekkert slúður. Það sem skiptir máli er að reyna að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur.“
Julia segist afar þakklát fyrir alla þá aðstoð sem hún fékk við jarðarför móður sinnar og þá manngæsku sem henni hefur verið sýnd. Hún telur þar m.a. upp starfsfólk og söfnuð Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar, Rauða krossinn, samstarfsmenn Nadezu og skólastjóra Grundarskóla, vini hennar og íbúa á Akranesi.
Hún kveðst afar þakklát Akranesskaupstað sem og stéttarfélagi móður sinnar sem greiddu allan kostnað við jarðarförina í sameiningu. Þá vill hún koma á framfæri þakklæti sínu gagnvart starfsfólki sendiráðs Íslands í Rússlandi, sem útvegaði henni vegabréfsáritun með afar litlum fyrirvara.
„Ég veit að það var sett af stað fjársöfnun fyrir okkur. Fremur en alla peninga heimsins, fremur en að eignast allt Ísland, myndi ég vilja manneskjuna sem ég elskaði mest aftur til mín. Ég vil ekki hugsa um peninga og gæti ekki komist í gegnum þetta allt án allrar þessarar hjálpar.“
Framundan er að komast að niðurstöðu um erfðamál þeirra hjóna, Nadezdu og Guðmundar, en Guðmundur átti fjögur börn. Julia segir erfitt að átta sig á hvernig hún geti sótt rétt sinn, enda þekki hún illa til lagaumhverfisins hér á landi.
„Ég efast ekki um að lögin vernda mig. Ég trúi að Ísland sé sanngjarnt land og að niðurstaðan verði réttlát gagnvart móður minni. Ég vil bara réttlæti. Ég vil ekkert sem ekki tilheyrir mér. Ég veit ekki einu sinni hvernig ég á að sækjast eftir bótum því ekkert getur bætt þennan missi.“