„Ég veit ekki hvers vegna hann tók hana frá mér“

Julia vonast til að saga móður hennar geti haft áhrif.
Julia vonast til að saga móður hennar geti haft áhrif. mbl.is/ Júlíus

Að kvöldi 12. apríl rædd­ust Nadezda Edda Tara­sova og dótt­ir henn­ar Ju­lia við í síma eins og svo oft. Mæðgurn­ar voru afar nán­ar þó önn­ur byggi á Akra­nesi og hin í Rússlandi, og Nadezda hafði ein­mitt verið að skoða að kaupa flug­miða til að heim­sækja dótt­ur sína, móður og barna­barn. Sam­talið um mögu­legt frí við Svarta­hafið var því gleðilegt, fullt af hlýju eins og öll þeirra sam­skipti.

„Hún var kannski móðir mín en hún var líka hjarta­hlýj­asta mann­eskja í heimi,“ seg­ir Ju­lia. „Hún var alltaf bros­andi, alltaf í góðu skapi.“

Ju­lia lýs­ir næsta sím­tali sem henni barst frá Íslandi sem því versta sem hún hef­ur fengið. Móðir henn­ar hafði fund­ist lát­in í rúmi sínu. Ljóst þykir að eig­inmaður henn­ar, Guðmund­ur Val­ur Óskars­son, hafi skotið hana til bana og síðan tekið eigið líf í stofu heim­il­is þeirra.

„Ég öskraði bara,“ seg­ir Ju­lia. „Ná­grann­ar mín­ir komu hlaup­andi því ég öskraði svo mikið og ég öskraði þar til lækn­ir gaf mér eitt­hvað, ég man ekki hvað gerðist næst. Það sama gerðist þegar ég kom hingað. Ég trúi þessu ekki enn.“

Við Ju­lia sitj­um í göml­um sófa á efri hæð Rúss­nesku rétt­trúnaðar­kirkj­unn­ar við Öldu­götu með bunka af ljós­mynd­um frá móður henn­ar á milli okk­ar. Hún tal­ar afar lágri röddu, hvísl­ar næst­um, og er ör­lítið vot um aug­un en kemst aðeins í sýni­legt upp­nám einu sinni á meðan á viðtal­inu stend­ur, þegar talið berst að sjö ára syni henn­ar sem kallað hafði Guðmund Val afa sinn allt sitt líf. Hún gríp­ur and­ann og lít­ur í burtu en þó var­ir henn­ar titri eitt augna­blik leyf­ir hún ekki til­finn­ing­un­um að bera sig of­urliði. Ekki núna.

Hún set­ur til­gang viðtals­ins mjög skýrt fram. Hún sér ekki ástæðu til að fara ofan í smá­atriði morðsins eða hella úr skál­um reiði sinn­ar. Hún vill segja frá móður sinni sem hún elskaði svo heitt, minn­ast henn­ar op­in­ber­lega í þeirri veiku von að sag­an geti bjargað öðrum kon­um frá sömu ör­lög­um.

Mynd af Nadezdu Eddu frá því á tíunda áratugnum.
Mynd af Nadezdu Eddu frá því á tí­unda ára­tugn­um. Ljós­mynd/ Ju­lia Tara­sova

Hafði beðið um skilnað

Nadezda skildi við föður Ju­liu árið 1995, þegar Ju­lia var 13 ára göm­ul. Hún kynnt­ist Guðmundi í gegn­um sam­eig­in­lega vin­konu stuttu eft­ir alda­mót­in og ekki leið á löngu áður en hún flutti til Íslands og gift­ist hon­um.  

Ju­lia heim­sótti Nadezdu oft til Íslands og var sjálf bú­sett hér um nokk­urt skeið. Amma henn­ar, móðir Nadezdu, bjó einnig á Íslandi um tíma og Edw­ard, son­ur Ju­liu hef­ur ís­lensk­an rík­is­borg­ara­rétt. Ju­lia seg­ir rík tengsl sín við landið hafa verið óumflýj­an­leg. Þær mæðgur hafi sí­fellt verið að skipu­leggja leiðir til að hitt­ast og hvernig þær gætu búið aft­ur sam­an í framtíðinni.

„Við mamma vor­um mjög nán­ar. Þegar ég var barn öf­unduðu vin­ir mín­ir mig alltaf vegna sam­bands míns við mömmu, hún var meira eins og vin­ur minn eða syst­ir. Hafið á milli okk­ar var ekk­ert. Við vor­um í stöðugum sam­skipt­um um allt; elda­mennsku, skól­ann hjá syni mín­um, allt.“

Sím­talið þann 12. apríl var þess vegna ekki óvenju­legt þó til­hugs­un­in um fjöl­skyldu­frí og end­ur­fundi væri spenn­andi. Nadezda hafði hins­veg­ar átt óvenju­legt sam­tal við eig­in­mann sinn um þrem­ur vik­um fyrr, þar sem hún til­kynnti hon­um að hún hygðist skilja við hann.

Guðmund­ur hafði glímt við veik­indi árum sam­an og sagði Nadezdu að ef hún aðstoðaði við umönn­un hans myndi hann veita henni skilnað. Ju­lia seg­ir móður sína hafa ann­ast eig­in­mann­inn vel en aldrei fengið skilnaðinn sem hún vildi.

Hvort ósk Nadezdu um skilnað hafi verið ástæða þess að Guðmund­ur tók sér skot­vopnið í hönd er ómögu­legt full­yrða um og Ju­lia vill alls ekki geta í eyðurn­ar.

„Ég veit ekki hvort það var ástæðan eða kannski það að hún ætlaði til Rúss­lands. Hann var veik­ur og fólk reyndi að ann­ast hann. Lækn­ir­inn skrifaði upp á eitt­hvað fyr­ir hann og aðstæður hans voru þekkt­ar því hann talaði við presta og fé­lags­ráðgjafa en ég veit ekk­ert hvað hann sagði. Ég veit í raun ekk­ert. Ég hef misst hluta lífs míns sem ég veit ekki hvernig ég á að lifa án. Ég veit ekki hvers vegna hann tók hana frá mér þegar hann vissi hvað ég elskaði hana heitt.“

Nadezda og Guðmundur bjuggu á Akranesi.
Nadezda og Guðmund­ur bjuggu á Akra­nesi. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

„Hún fann til samúðar“

Þetta var ekki í fyrsta skipti sem Nadezda ákvað að skilja við Guðmund. Árið 2008 flutt­ist hún út af heim­il­inu og inn í íbúð á veg­um Rauða kross­ins.

„Þau bjuggu í sitt­hvoru lagi um nokkra hríð en svo dó son­ur hans í slysi. Hann var einmana og bað hana um stuðning og hjálp. Hún vor­kenndi hon­um og flutti aft­ur inn til hans til að hjálpa hon­um. Hann lofaði henni að hann myndi breyt­ast.

Auðvitað upp­lifði ég það sem svo að hann beitti hana and­legu of­beldi. Hún hafði meiri gæsku og góðlyndi en nokk­ur önn­ur ís­lensk kona hefði getað sýnt hon­um. Hún fann til samúðar. Hann lofaði að breyt­ast.“

Ju­lia seg­ist vilja greina frá sögu móður sinn­ar í von um að koma í veg fyr­ir að aðrar kon­ur mæti sömu ör­lög­um.  Hún vilji hvetja fólk til þess að láta sig aðra varða og seg­ir nauðsyn­legt að ná­grann­ar og sam­starfs­menn láti vita þegar þeir upp­lifa að ekki sé allt með felldu.

„Þegar mamma mætti ekki í vinn­una var hringt í hana margoft. Ef ég mæti ekki í vinn­una fæ ég tvö eða þrjú sím­töl en ekki á tíu mín­útna fresti og eng­inn myndi hringja á lög­regl­una eft­ir aðeins einn klukku­tíma. Það sama gild­ir um þig geri ég ráð fyr­ir. Fólk get­ur sofið yfir sig, verið veikt... hlut­ir koma upp á.“

Ju­lia seg­ir lík­legt að sam­starfs­fólk Nadezdu hafi séð hana í upp­námi, hugs­an­lega vitað af erfiðleik­un­um heima fyr­ir og þó hún kenni þeim ekki um get­ur hún ekki annað en velt fyr­ir sér hvort ein­hver hefði getað gripið inn í. Eins velt­ir hún vöng­um yfir morðvopn­inu. Lög­regl­an seg­ir Guðmund hafa verið skráðan fyr­ir tveim­ur skot­vopn­um en hef­ur ekki viljað staðfesta að byss­an sem notuð var til að ráða Nadezdu bana hafi verið skráð.

„Hvernig ætti ég að geta kennt ein­hverj­um um? Ég get það ekki. En ein­hvern veg­inn hlýt­ur að hafa verið hægt að koma í veg fyr­ir þetta. “

Edward sonur Juliu á milli ömmu sinnar og mömmu á …
Edw­ard son­ur Ju­liu á milli ömmu sinn­ar og mömmu á góðri stundu. Ljós­mynd/ Ju­lia Tara­sova

Hafa ekki sama stuðning og ís­lensk­ar kon­ur

Er­lend­ar kon­ur á Íslandi eiga í meiri hættu á að verða fyr­ir heim­il­isof­beldi en ís­lensk­ar kon­ur. Í rann­sókn á veg­um Kvenna­at­hvarfs­ins frá 2009 kom fram að mik­ill mun­ur væri á aðstöðu er­lendra kvenna sem leituðu til at­hvarfs­ins, eft­ir land­fræðileg­um upp­runa.

 Kon­ur frá lönd­um utan EES væru í sum­um til­vik­um háðar maka varðandi dval­ar­leyfi sem gerði þær ber­skjaldaðri fyr­ir heim­il­isof­beldi. Þá stuðli tungu­mála­erfiðleik­ar og lít­il þekk­ing af staðar­hátt­um að ein­angr­un og auðveldi mis­notk­un. Und­ir þetta get­ur Ju­lia tekið að nokkru leiti. Hún er sam­mála því að kon­ur frá öðrum lönd­um búi ekki að sama stuðningi og ís­lensk­ar kon­ur en bend­ir á að móðir henn­ar hafi fengið aðstoð þegar hún leitaði eft­ir henni árið 2008.

„Þegar hún ákvað að fara frá eig­in­manni sín­um voru marg­ar kon­ur sem hjálpuðu henni, ís­lensk­ar kon­ur. Hún talaði góða ís­lensku og var aðlöguð ís­lenskri menn­ingu. Hún elskaði Ísland og á síðustu árum sín­um leit hún frem­ur á sig sem Íslend­ing en Rússa.“

Ju­lia tek­ur fram að jafn­vel þó svo að móðir henn­ar hafi ekki átt fjöl­skyldu hér á landi hafi hún átt vini, ekki aðeins inn­an rúss­neska sam­fé­lags­ins held­ur einnig Íslend­inga. Hún er staðráðin í því að ekki verði litið á móður henn­ar sem nafn­laus­an út­lend­ing, tölu í kerfi eða þá út­frá sam­bandi henn­ar við Guðmund Val held­ur sem elskaða móður, ömmu og vin­konu.

„Það eina sem skipt­ir máli er að mín ynd­is­lega móðir er dáin. Hvernig þeirra sam­bandi var háttað, í hvernig skapi hann var eða af hverju hann gerði þetta skipt­ir engu máli. Ég vil ekk­ert slúður. Það sem skipt­ir máli er að reyna að koma í veg fyr­ir að þetta ger­ist aft­ur.“

Útför Nadezdu fór fram í Akraneskirkju á vegum Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar.
Útför Nadezdu fór fram í Akra­nes­kirkju á veg­um Rúss­nesku rétt­trúnaðar­kirkj­unn­ar. mbl.is/​Krist­inn

Miss­ir sem ekk­ert bæt­ir

Ju­lia seg­ist afar þakk­lát fyr­ir alla þá aðstoð sem hún fékk við jarðarför móður sinn­ar og þá mann­gæsku sem henni hef­ur verið sýnd. Hún tel­ur þar m.a. upp starfs­fólk og söfnuð Rúss­nesku rétt­trúnaðar­kirkj­unn­ar, Rauða kross­inn, sam­starfs­menn Nadezu og skóla­stjóra Grund­ar­skóla, vini henn­ar og íbúa á Akra­nesi.

Hún kveðst afar þakk­lát Akra­ness­kaupstað sem og stétt­ar­fé­lagi móður sinn­ar sem greiddu all­an kostnað við jarðarför­ina í sam­ein­ingu. Þá vill hún koma á fram­færi þakk­læti sínu gagn­vart starfs­fólki sendi­ráðs Íslands í Rússlandi, sem út­vegaði henni vega­bréfs­árit­un með afar litl­um fyr­ir­vara.

„Ég veit að það var sett af stað fjár­söfn­un fyr­ir okk­ur. Frem­ur en alla pen­inga heims­ins, frem­ur en að eign­ast allt Ísland, myndi ég vilja mann­eskj­una sem ég elskaði mest aft­ur til mín. Ég vil ekki hugsa um pen­inga og gæti ekki kom­ist í gegn­um þetta allt án allr­ar þess­ar­ar hjálp­ar.“

Framund­an er að kom­ast að niður­stöðu um erfðamál þeirra hjóna, Nadezdu og Guðmund­ar, en Guðmund­ur átti fjög­ur börn. Ju­lia seg­ir erfitt að átta sig á hvernig hún geti sótt rétt sinn, enda þekki hún illa til lagaum­hverf­is­ins hér á landi.

„Ég ef­ast ekki um að lög­in vernda mig. Ég trúi að Ísland sé sann­gjarnt land og að niðurstaðan verði rétt­lát gagn­vart móður minni. Ég vil bara rétt­læti. Ég vil ekk­ert sem ekki til­heyr­ir mér. Ég veit ekki einu sinni hvernig ég á að sækj­ast eft­ir bót­um því ekk­ert get­ur bætt þenn­an missi.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert