„Við eigum að stofna nýja hreyfingu“

Magnús Orri Schram segir Samfylkinguna ekki ná til ungs fólks.
Magnús Orri Schram segir Samfylkinguna ekki ná til ungs fólks.

Magnús Orri Schram, sem er nú í framboði til formanns Samfylkingarinnar, segir flokkinn þurfa að taka verulegum breytingum á næstu vikum til þess að geta gegnt hlutverki sínu „sem valkostur jafnaðarfólks“ í kosningunum í haust í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Magnús bendir á að flokkurinn sé með átta til tíu prósenta fylgi sem er að mestu meðal elstu kjósendanna.

„Okkur gengur afar erfiðlega að ná til yngra fólks,“ skrifar Magnús.  „Áherslur okkar um sanngjarnt skattkerfi, öflugt heilbrigðis- og menntakerfi, auðlindir í almannaþágu og samkeppnishæft atvinnulíf eiga í dag brýnt erindi en virðast ekki ná til kjósenda. Þessi staða gerir okkur erfitt fyrir að laða til okkar nýtt fólk með nýjar hugmyndir.“

Segir Magnús að það sé kominn tími á grundvallabreytingu og þróun í takt við tímann og segir hann flokkinn þurfa að vera tilbúinn til þess að byrja upp á nýtt.

„Við eigum að skapa nýjan sameiginlegan vettvang fyrir flokksfólk og fólk sem er sammála okkur í pólitík en er utan flokka eða í öðrum stjórnmálaflokkum. Fólk sem hefur frjálslyndi, félagshyggju, femínisma og jöfnuð að leiðarljósi. Fólk sem vill ekki vera hluti af fortíðinni en hefur brýnt erindi við samtímann. Hreyfing með nýja talsmenn með nýjar hugmyndir,“ skrifar Magnús og bætir við að verði hann kjörinn formaður Samfylkingarinnar hyggst hann leiða flokkinn í þá átt.

„Við eigum að stofna nýja hreyfingu sem stefnir saman fólki frá miðju til vinstri. Hreyfingu sem rúmar fjölbreyttar raddir og mörg sjónarmið. Ég vil að við stefnum að því að stofna nýja nútímalega stjórnmálahreyfingu. Sem formaður Samfylkingarinnar mun ég hefja samtal við aðra stjórnmálaflokka og fólk utan flokka, um mótun nýrrar hreyfingar með áherslu á auðlindir í almannaþágu, umhverfisvernd, nýja stjórnarskrá, jöfn tækifæri, öflugt velferðarkerfi og samkeppni í heilbrigðu atvinnulífi. Staðan í stjórnmálum krefst þess að við séum hugrökk, köstum burt klyfjum fortíðar og séum tilbúin til að stíga saman næsta skref í sögu jafnaðarfólks á Íslandi.“

Samfylkingin er með 7,4% fylgi í nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins sem var birt í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert