Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, var léttur í bragði þegar hann tók á móti Sigurði Inga Jóhanssyni forsætisráðherra og starfsbræðrum hans í Hvíta húsinu í dag. Móttaka með fréttamönnum átti að fara fram utandyra í Rósagarðinum en var flutt inn sökum veðurs. Obama sagði að Norðurlandabúar væru nú vanir að glíma við vonskuveður.
„Þið ættuð að fá að vita það, að við höfum ekki séð sólina hér í Washington í um það bil þrjár vikur. Eitthvað sem þið upplifið mánuðum saman. Þrátt fyrir þá staðreynd, þá viljum við að þið vitið að við erum verulega ánægð með að hafa ykkur hér,“ sagði Obama við upphaf ræðu sinnar.
Hann sagði að það væri heiður að taka á móti fimm Norðurlandaþjóðum, þ.e. Danmörku, Finnlandi, Noregi, Íslandi og Svíþjóð. Þetta væru vinaþjóðir Bandaríkjanna og bandamenn.
Í framhaldinu bauð Obama öllum ráðherrunum velkomna á þeirra eigin tungumáli, sem vakti mikla lukku. „Ég er ekki viss um að þetta hafi verið borið fram fullkomlega, en ég held að rétti andinn hafi skilað sér.“
Obama gantaðist með það að í Svíþjóð bjóði upp á símanúmer þar sem hægt er að ræða við Svía og fræðast um sænska menningu. „Ísland býður ykkur upp á senda spurningar á #askgudmundur. Ég geri ráð fyrir að margir á Íslandi heiti Guðmundur og að þeir muni svara,“ sagði forsetinn og uppskar hlátur.
Þá sagði forsetinn að Norðurlandaþjóðirnar væru einstakar þjóðir og einstakir vinir. Bandaríkin og Norðurlöndin deili sömu gildum og hagsmunum. „Við trúum að þjóðfélagsþegnar okkar eigi að fá að búa við frelsi og öryggi. Frelsi gegn hryðjuverkum, og í Evrópu, þar sem smáríki eru ekki kúguð af stærri ríkjum. Við trúum á frjálsan markað og viðskipti sem skapa atvinnu og tryggja réttindi starfsmanna og umhverfisins. Og sterkt öryggisnet sem tryggir grunnöryggi í lífinu.“
Hann sagði að jöfnuður á Norðurlöndunum væri með því mesta sem mælist í heiminum. Það væri ein af ástæðunum að baki þess að íbúar Norðurlandanna væru á meðal þeirra ánægðustu í heimi - þrátt fyrir lítinn skammt af sólskini. Ríkin berðust fyrir umburðarlyndi, mannréttindum, lýðræði og virðingu fyrir trúfrelsi og málfrelsi.
„Norðurlöndin eru, á þeirra heimssvæði og í heiminum, fyrirmynd þegar kemur að samstarfi og ítrekað leggja þau meira af mörkum en þau virðast geta gert til að mæta þeim áskorunum sem við glímum við í dag. Bandamenn okkar á Norðurlöndum eru ekki stórríki, en það erum næstum því engin mál, sem við glímum við, hvort sem um er að ræða öryggismál, efnahagsmál eða mannúðarmál, þar sem Norðurlandaríkin eru ekki hluti af okkar traustustu, áhrifaríkustu og mikilvægustu bandamönnum okkar.“
Obama bætti við að Bandaríkin ættu það til að líta á bestu vini sína sem sjálfsagða. „Það er hins vegar mikilvægt að við gerum það ekki,“ og bætti við að Norðurlöndin hefðu leikið mikilvæg hlutverk í því að móta og viðhalda alþjóðlegu skipulagi sem byggi á lögum og reglum, væri sanngjarnt og réttlátt.
Heimurinn væri betri ef Bandaríkin ættu fleiri samstarfsmenn sem væru eins og Norðurlöndin. Obama sagðist stundum hafa leitt hugann að því að láta ríkin einfaldlega ráða för til að taka til hendinni í heiminum.
Hann minntist einnig á landafundi Leifs Eiríkssonar fyrir 1.000 árum og tengsl Bandaríkjamanna við Norðurlönd og arf þeirra.
Obama viðurkenndi að það væri stundum erfitt að skilja tungumál Norðurlandabúa - það minnti einna helst á tungumál sumra persóna í sjónvarpsþáttunum Game of Thrones.