Níu frambjóðendur til forsetakjörs í sumar skiluðu í dag inn gögnum til yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmum norður og suður. Yfirkjörstjórnirnar munu á næstu dögum fara yfir listana og bera saman við þjóðskrá, en gert er ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki fyrri part næstu viku. Þetta staðfestir Erla S. Árnadóttir, oddviti Reykjavíkurkjördæmis norður, í samtali við mbl.is.
Þau níu sem skiluðu inn gögnum voru Guðni Th. Jóhannesson, Davíð Oddsson, Andri Snær Magnason, Halla Tómasdóttir, Elísabet Jökulsdóttir, Sturla Jónsson, Ástþór Magnússon, Hildur Þórðardóttir og Guðrún Margrét Pálsdóttir.
Erla segir að í raun sé dagurinn í dag ekki neinn lögbundinn frestur til að skila inn listum og því geti frambjóðendur enn haft samband við yfirkjörstjórnina vilji þeir að hún fari yfir einhver gögn.
Reykjavíkurkjördæmin eru hluti af sunnlendingafjórðungi, en yfirkjörstjórn hvers kjördæmis mun gefa út vottorð um fjölda meðmælenda og svo þurfa frambjóðendur að taka þau vottorð saman og leggja inn til ráðuneytisins og þurfa þá tölur um lágmark í hverjum fjórðungi að ganga upp. Lágmarksfjöldi meðmælenda í sunnlendingafjórðungi er 1.215 manns, í Vestfirðingafjórðungi er lágmarkið 62, í Norðlendingafjórðungi er lágmarkið 163 og í Austfirðingafjórðungi er lágmarkið 60 manns.