„Flokkurinn á alla möguleika á því að dafna vel fái hann frið fyrir fólki með þetta hugarfar,“ segir Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, á Facebook í dag þar sem hún segist ekki geta orða bundist vegna „karlpeningsins í Samfylkingunni sem keppist við að boða dauða flokksins nema þeir fái að stjórna honum.“
Magnús Orri Schram, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, kallaði eftir því í vikunni að flokkurinn yrði lagður niður og stofnuð ný hreyfing í samstarfi við aðra flokka. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, lýsti því yfir í byrjun vikunnar í Ríkisútvarpinu að ekki væri sjálfgefið að flokkurinn lifði af þær hremmingar sem hann hefði gengið í gegnum.
„Því miður fyrir ykkur, strákar mínir, þá er þetta ekki svona,“ segir Ólína hins vegar. „Samfylkingin er til orðin um jafnaðarhugsjónina. Þörfin fyrir jöfnuð, réttlæti, samstöðu og lýðræði hefur sjaldan ef nokkru sinni verið brýnni en einmitt nú á dögum. En stjórnmálaflokkar eru líka fólkið sem í þeim starfar. Sé starfið innt þannig af hendi að umhyggja fyrir hugsjóninni standi ofar persónulegum metnaði og athygliþörf eru allar líkur á að vel takist til.“
Ólína segir ennfremur að misbrestur hafi orðið á í þessum efnum innan Samfylkingarinnar „þar sem menn keppast nú við að gefa út dánarvottorðið af því að þeir sjá ekki fram á að fá að ráða ferðinni sjálfir. Ég bið flokknum vægðar gegn þessum sjálfsmorðsárásum örvæntingarfullra formannsframbjóðenda. Við sem störfum í flokknum af heilindum og hugsjón eigum þetta ekki skilið.“