Bandaríkjaforseti mun taka vel á móti Sigurði Inga Jóhannssyni forsætisráðherra og norrænum starfsbræðrum hans í Hvíta húsinu í Washington í dag, en þar fer fram leiðtogafundur Bandaríkjanna og Norðurlandanna. Forsetinn mun jafnframt bjóða í viðhafnarkvöldverð þar sem söngkonan Demi Lovato mun skemmta.
Sigurður Ingi verður fulltrúi Íslands á leiðtogafundinum ásamt Lilju Dögg Alfreðsdóttur utanríkisráðherra. Norrænu ráðherrarnir munu hefja daginn á fundi með Obama í Hvíta húsinu og um klukkan 9 að staðartíma (um kl. 13 að íslenskum tíma) verður stuttur fundur með fréttamönnum í Rósagarðinum.
Snæddur verður hádegisverður í bandaríska utanríkisráðuneytinu, en þar munu ráðherrarnir funda með John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Í kvöld verður síðan viðhafnarkvöldverður með Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu og er óhætt að segja að matseðilinn, sem er blanda af bandarískri og norrænni matarhefð, líti girnilega út. En búið er að gefa út hvað verði á boðstólnum í kvöld sem Cristeta Comerford, yfirkokkur Hvíta hússins, hefur útbúið. Þá er búið að baka köku í eftirétt sem lítur út eins og lítill fiskibátur. Matseðilinn má sjá hér.
Obama hefur margsinnis lýst því yfir hversu almennt hann hrífst af stjórnarháttum á Norðurlöndunum. Hann fundaði síðast með norrænum leiðtogum í september árið 2013, en þá var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, fulltrúi Íslands, eins og frægt er orðið.