Skelfileg áhrif á flugkennslu

Flugvél á nýrri flugbraut á Sandskeiði.
Flugvél á nýrri flugbraut á Sandskeiði. mbl.is/ hag / Haraldur Guðjónsson

Valur Stefánsson, formaður Félags flugmanna og flugvélaeigenda, segir að yfirvinnubann Félags íslenskra flugumferðarstjóra hafi haft skelfileg áhrif á flugkennslu í landinu. Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands, tekur undir þetta.  Þeir segja afar slæmt að flugnemar geti ekki notað tækifærið og flogið þegar vel viðrar hér á landi.

„Þetta hefur haft skelfileg áhrif á flugkennsluna. Þegar nemendur komast ekki í loftið til að æfa vegna yfirvinnubannsins hefur það svakaleg áhrif á góðviðrisdögum. Það er nauðsynlegt að nota alla þá glugga sem opnir eru,“ segir Valur en verkfallið mun fresta verklegum prófum nemendanna.

„Ófremdarástand“

Hann segir afar slæmt þegar hvorki nemar né einkaflugmenn komist ekki í loftið þegar þeir vilja. „Við hvetjum menn til að setjast að samningaborðinu. Það er ófremdarástand þegar það er ekki boðaður fundur fyrr en eftir dúk og disk.“

Valur segir gremju ríkja á meðal félagsmanna en þeir eru um 200 talsins. „Menn eru hundfúlir. Það verður að leysa þetta vandmál.“

Yfirvinnubannið var sett á 6. apríl síðastliðinn. Næsti fundur í kjaradeilu Félags íslenskra flugumferðarstjóra og Isavia hefur verið boðaður á föstudaginn í næstu viku. 

Hafa þurft að lenda á Sandskeiði

Yfirvinnubannið hefur haft áhrif á einka- og kennsluflug á Keflavíkur-, Reykjavíkur- og Akureyrarflugvelli og að sögn Vals er það miður hve upplýsingar frá Isavia um takmarkanir á notkun flugvalla berist oft með skömmum fyrirvara. „Menn hafa þurft að lenda á Sandskeiði  á kvöldin og skilja vélina eftir þar yfir nótt. Svo hafa þeir þurft að sækja hana næsta dag,“ segir hann.

Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands.
Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands. Eggert Jóhannesson

Um 500 flugnemar á ári

Að sögn Matthíasar Sveinbjörnssonar, forseta Flugmálafélags Íslands, hafa flugnemar á Íslandi verið í kringum 500 talsins á hverju ári. Hann er ekki með tölu yfir hve yfirvinnubannið hefur áhrif á marga en telur að þeir geti verið nokkur hundruð. „Þetta eru nemendur sem eru komnir mislangt. Sumir eru að byrja, aðrir eru að læra einkaflugmanninn og síðan eru það menn sem eru tilbúnir,“ segir hann en þeir síðastnefndu hafa þá klárað prófin en þurfa að bæta við sig reynslu til að geta talist gjaldgengir á vinnumarkaðnum.

Vantar fleiri flugmenn

„Það voru margir góðir dagar í lok apríl og byrjun maí þegar það viðraði vel til flugs en þá voru menn takmarkaðir af yfirvinnubanni. Núna þegar ekki er hægt að fljúga vegna veðurs skiptir bannið ekki málið en hlutfall þeirra daga sem hafa dottið út er ansi stórt,“ greinir Matthías frá.

Hann segir áhrif bannsins hafa mun meiri áhrif á þessa starfsemi heldur en atvinnuflugið. „Þetta er sérstaklega bagalegt í ljósi þess að það þarf flugmenn núna. Það er verið að þjálfa menn til að geta mannað stöður hjá atvinnufélögum. Það að þetta bitni á þessum hópi einstaklinga er bagalegt og eiginlega alveg ótækt. Það er verið að láta þetta bitna á þeim sem mættu kannski síst við því.“

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert