Talið er að kostnaður þjóðfélagsins vegna heimilisofbeldis gegn konum geti numið milljörðum króna árlega þegar allt er talið. Rannsókn stendur yfir og rétt að taka fram að upphæðin liggur ekki fyrir, en sé miðað við umfangið í þeim löndum sem Íslendingar bera sig gjarnan saman við, gæti verið um ótrúlegar upphæðir að ræða.
Drífa Jónasdóttir afbrotafræðingur vinnur að rannsókninni þar sem markmiðið er að komast að raun um hvert sé umfang, eðli og kostnaður sem hlýst af þegar karlmenn beita konur heimilisofbeldi. Rannsóknin er jafnframt doktorsverkefni hennar við Læknadeild Háskóla Íslands.
Kostnaðurinn er af ýmsum toga, þar sem birtingarmynd heimilisofbeldis er margvísleg. Aðilar sem gætu þurft að bregðast við eru til að mynda lögregla, dómstólar, sjúkraflutningamenn, læknar og annað starfsfólk sjúkrahúsa, sálfræðingar, félagsráðgjafar, barnaverndarfulltrúar, starfsfólk velferðarsviðs og starfskonur Kvennaathvarfsins. Sé annar konar kostnaður skoðaður má nefna að þolendur heimilisofbeldis eru líklegri en þær konur sem ekki hafa reynslu af slíku, að búa við fleiri heilsufarsvandamál, vera með sjálfsvígshugsanir, glíma við kvíða og þunglyndi. Mikilvægt er að rannsaka heimilisofbeldi nánar og allir þeir sem ég hef leitað til í því skyni að fá upplýsingar hafa tekið mér mjög vel.“
Rannsóknin beinist að konum á Íslandi og heimilisofbeldi gegn þeim árin 2013 og 2014. Drífa leitar fanga hjá Landspítalanum (LSH), hjá lögreglu og í velferðarkerfinu. Upplýsingar eru mjög misjafnlega aðgengilegar og flókið verk að afla þeirra, en hún vonast til að hluti frumniðurstaðna geti legið fyrir í haust. „Ég er langt komin með að safna gögnum á Landspítalanum og hef þegar lesið þúsundir skýrslna,“ segir hún. Þessi vinna er tímafrek vegna þess að ofbeldismál á heimilum eru ekki flokkuð sérstaklega í heilbrigðiskerfinu eða í velferðarkerfinu. Ekki er til greining, eða kóði fyrir heimilisofbeldi og þar af leiðandi ekki hægt að kalla fram gögn úr kerfunum.
Auðveldara er að vinna úr gögnum lögreglunnar því þar eru öll mál flokkuð. „Ég hef óskað eftir ópersónugreinanlegum gögnum frá lögreglunni og það verður í sjálfu sér ekki mikil vinna að greina þau.“
Miðað við gögn sem Drífa hefur skoðað má ætla að fimm konur á Íslandi séu beittar heimilisofbeldi á hverjum einasta degi og að á bilinu 180-400 ófrískar konur verði fyrir heimilisofbeldi hérlendis á ári – ótrúlegt en satt.
Drífa segir að mikið hafi breyst í þessum efnum hér heima eftir að verklagi var breytt á Suðurnesjum árið 2013, en nú hefur Suðurnesjamódelið, Að halda glugganum opnum eins og það er kallað, verið tekið upp á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið er að bæta rannsóknir í heimilisofbeldismálum með markvissari fyrstu viðbrögðum lögreglu, fækka ítrekunarbrotum, aðstoða þolendur og gerendur markvisst, nýta betur úrræði um nálgunarbann og brottvísun af heimili og að ná fleiri málum í gegnum refsivörslukerfið.
Samkvæmt nýjum verklagsreglum lögreglu um meðferð og skráningu heimilisofbeldismála eru til dæmis verksummerki ljósmynduð, þolanda gerð grein fyrir rétti sínum, skýrsla er tekin og sömuleiðis er óskað eftir fulltrúa barnaverndar eða félagsþjónustu ef börn eru á heimilinu þegar ofbeldið á sér stað – sem er í um 40% tilfella.
Eitt af markmiðum rannsóknarinnar er að vitundarvakning verði um heimilisofbeldi. Drífa segir ofbeldið falið og á ákveðinn hátt allt annars eðlis en mörg önnur mál. Eitt af því sem hana hafi langað að rannsaka sé t.d. hvað sé ólíkt með komum á slysa- og bráðamótttöku LSH, þegar ástæðan er heimilisofbeldi, miðað við aðrar komur.
Gögn benda til þess að þeir sömu hafi beitt ofbeldi hvað eftir annað en Drífa segir ekki eins auðvelt að „komast upp með“ að beita heimilisofbeldi þegar svona vel sé tekið á málum strax og eftirfylgnin orðin jafn mikil og raun beri vitni.
„Það var auðvitað kostnaðarsamt fyrir lögregluna að fara ítrekað í útköll á sama heimili og ef til vill handtaka sömu mennina aftur og aftur. Breytt vinnulag hefur skilið góðum árangri, ítrekunarbrotum fækkar og fleiri mál fara áfram í kerfinu.“
Hún segist hafa verið spurð hvers vegna hún rannsaki bara ofbeldi karla gegn konum. „Hvað með karla sem þolendur, börn, innflytjendur, samkynhneigða? Ég hef fengið ýmsar spurningar en ákvað að afmarka rannsóknina og hafa ekki of víðfema.“
Drífa segir að sumum þyki kaldranalegt að rannsaka ofbeldið í því samhengi sem hún geri. „Ofbeldið kostar samfélagið bara svo mikið að það er raunverulegt efnahagsmál. Þegar það kostar þjóðfélagið milljarða að menn beiti heimilisofbeldi, er það ekki þeirra einkamál.“
Fyrsta hugmynd Drífu að verkefninu var allt önnur en er úr varð.
„Fyrst ætlaði ég í raun bara að komast að því hver kostnaðurinn var með því að áætla og taka saman tölur úr hinum ýmsu kerfum þjóðfélagsins. Það var dálítil krúttpæling að skrifa skýrslu um kostnaðinn en ég ákvað síðar að gera alvöru rannsókn.“