Segir umræðuna um Mývatn einsleita

Skorað hefur verið á ríkisstjórnina að vernda lífríki Mývatns.
Skorað hefur verið á ríkisstjórnina að vernda lífríki Mývatns. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

Jón Kristjánsson, fiskifræðingur, segir umræðuna um Mývatn hafa verið mjög einsleita. Hann segir undarlegt að ekkert skuli hafa verið rætt um skýrslu sem kom út árið 2000 þar sem fram kom að hvorki væri hægt að kenna Kísiliðjunni né mengun af mannavöldum um sveiflurnar í lífríkinu á afgerandi hátt. Skýringa yrði að leita annars staðar.

„Það er eins og hún [skýrslan] hafi aldrei verið gerð. Ríkisstjórnin biður um þetta. Þetta er eins til tveggja ára vinna hjá þessum mönnum sem fara yfir þessi gögn og ræða við fólk um þeirra skoðanir á málinu. Allir þessir menn eru heimsfrægir í sínu fagi,“ segir Jón en tveir þeirra eru frá Noregi og einn frá Svíþjóð. Einnig kom hollenskur sérfræðingur um setfluninga að gerð skýrslunnar.

„Þetta eru menn sem hafa ekki verið að gera annað en að vinna við svona vandamál og þeir leggja fram ákveðnar rannsóknartillögur.“ Jón segist ekki hafa orðið var við að farið hafi verið eftir þeim.

 „Þeir tala um að það gæti verið að fiskurinn leiki stórt hlutverk. Þetta gæti verið vistfræðitengt og það er það sem ég er að benda á og benti reyndar fyrst á í Mývatnsbókinni,“ segir hann og á við Náttúru Mývatns sem kom út 1991.

Með vefsíðu og blogg um Mývatn

Jón stundaði rannsóknir í Laxá og Mývatni samfellt frá 1974 til 1986, var í sérfræðinganefnd um Mývatnsrannsóknir í mörg ár og var í stýrihópi um rannsóknir erlendu sérfræðinganna 1998 og 1999.

Hann hefur sett upp vefsíðu þar sem hann fjallar um málefni Mývatns. Einnig hefur hann bloggað um málið.

Skorað hefur verið á ríkisstjórnina að grípa til aðgerða til að vernda lífríki Mývatns og Laxár sem sé í bráðri hættu vegna næringarefnaauðgunar. Veiðifélög á svæðinu hafa kallað eftir rannsókn á ástandinu. Því hefur verið velt upp að fjölgun ferðamanna á svæðinu með tilheyrandi skólpnotkun valdi því að vatnið er gruggugra en góðu hófu gegnir.

Rætt hefur verið um að kúluskíturinn í vatninu sé mögulega horfinn. Jón segir hann alltaf vera til staðar þótt hann sé í litlu magni. „Ef ljósið kemst aftur niður á botninn fer hann í gang."

Þarf að fjarlægja smáfiskinn

Jón telur eina mögulega skýringu á ástandinu vera sú að magn bláþörunga stjórnist af samspili fiska, krabbadýra og þörunga.

Hann segir að mestu breytingarnar á Mývatni í seinni tíð séu að vatnið sé alltaf að grynnast. Eitt sinn hafi það verið níu metra djúpt en núna sé dýptin tveir og hálfur metri.  „Það breytir öllum skilyrðum en þessir hlutir eru ekki ræddir. Það er bara einblítt á mengun. Það hefur sýnt sig erlendis að það er gagnlaust að fjarlægja mengun úr vötnum. Það hefur ekkert gerst í kerfinu fyrr en smáfiskurinn sem heldur þessu öllu gangandi er fjarlægður.“

Spurður hvernig sé hægt að leysa málið segir hann einn möguleika vera að koma í veg fyrir offjölgun í hornsílastofnum. „Það væri hræðilegt að menn færu í hundruð milljóna króna framkvæmdir og svo heldur sama ástand bara áfram. Það hefur sýnt sig að ekkert gerist fyrr en það er farið í að fækka þessum smáfiski.“

Jón Kristjánsson, fiskifræðingur.
Jón Kristjánsson, fiskifræðingur. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert