Föst í Boston frá því á mánudag

Tvær vélar frá Icelandair flugu til Parísar í morgun.
Tvær vélar frá Icelandair flugu til Parísar í morgun. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Við erum mörg enn föst hérna úti og höfum verið síðan á mánudaginn,“ segir Guðmundur Jensson í samtali við mbl.is en hann átti bókað flug heim til Íslands frá Boston í Bandaríkjunum á mánudaginn en hefur ekki enn komist frá borginni. Flugvél Icelandair sem Guðmundur átti bókaða ferð með á mánudaginn var snúið við vegna bilunar.

„Við lögðum af stað heim á mánudagskvöldið með þessar flugvél. Hún tók á loft en það voru ægileg læti í henni. Við tókum ennfremur eftir því að hún flaug í lágflugi í um hálftíma þar til flugstjórinn kom í kallkerfið og sagði að um tæknilega bilun væri að ræða, hann ætlaði að reyna að setja niður hjólin og vita hvort hann nái ekki upp aftur vinstra afturhjólinu sem væri fast niðri. Það tókst ekki en hann sagði góðu fréttirnar þær að hjólin væru föst niðri. Síðan lendir vélin og við biðum í um þrjú korter um borð og síðan var okkur hleypt frá borði. Við tókum farangurinn okkar og var ekið á hótel hér og þar. Og allt í góðu,“ segir hann.

Þau hafi síðan fylgst með á netinu og séð að flugið þeirra, flug FI 630, hafi verið fellt niður en í staðinn kæmi flug FI 636 sem átti að fara í gær. Þau hafi því skráð sig úr flugi FI 630 í gærmorgun og síðan innritað sig í nýja flugið í kjölfarið og beðið eftir að geta komist um borð í flugvélina. Hins vegar hafi þau tekið eftir því að vélin sem kom í staðinn var talsvert minni en breiðþotan sem upphaflega hafi átt að notast við á mánudagskvöldið.

Stöðvarstjórarnir gert það sem þeir hafa getað

„Þegar við vorum komin í röðina til að fara um borð kom kona og kallaði að búið væri að fella flug FI 636 niður en þeir sem væru með gamla númerið FI 630 færu um borð. Þannig að við urðum að fara út úr flugstöðinni aftur og hitta stöðvarstjóra Icelandair sem rétt er að taka fram að hafa reynt að gera allt sem í þeirra valdi hefur staðið að gera þetta bærilegra. Upplýsingagjöf frá flugfélaginu sjálfu hefur hins vegar verið sama og engin,“ segir Guðmundur.

Nú sé hins vegar búið að setja þau í enn eitt flugið, FI 634, sem eigi að fara síðar í dag. Guðmundur segir aðspurður að um nokkra tugi farþega sé að ræða af nokkrum þjóðernum. Þar á meðal hafi verið bandarískir útskriftarnemar sem hafi ætlað að vera á Íslandi í fáeina daga og hafi hætt við ferðina vegna málsins. Stöðvarstjórarnir hafi sagt að ástæðan fyrir því að upphaflega flugvélin væri ekki á förum væri sú að beðið væri eftir varahlut að heiman.

„Það er auðvitað hundleiðinlegt að vera að hanga hérna og endalaust að bíða eftir því að komast heim en stöðvarstjórarnir hérna hafa staðið sig með mikilli prýði. Hins vegar hefur Icelandair ekki staðið sig hvað varðar upplýsingagjöf til farþega. Við höfum engar upplýsingar fengið frá þeim, enga tölvupósta eða sms eða neitt slíkt til þess að upplýsa okkur um stöðuna. Við höfum fyrir vikið verið í algerri þoku hérna í þeim efnum,“ segir Guðmundur og bæti við:

„Við erum búin að innrita okkur í flugið í dag en við vitum ekkert hvort það gangi í þetta skipti að komast heim miðað við fyrri reynslu. Við erum í rauninni í algerri óvissu hérna en vonum auðvitað bara það besta,“ segir Guðmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert