Óttast ekki zika á Íslandi

Zika-veiran dreifist fyrst og fremst með tiltekinni tegund moskítóflugna. Þær …
Zika-veiran dreifist fyrst og fremst með tiltekinni tegund moskítóflugna. Þær má finna á sumum stöðum í Evrópu. AFP

Mjög litlar líkur eru á því að zika-veiran breiðist út á Íslandi, jafnvel þó að hingað komi fólk smitað af veikinni, að sögn Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis hjá embætti landlæknis. Að leggja mat á hvort að mikil eða lítil hætta sé á að veiran dreifi sér um Evrópu er skot út í loftið að hans mati.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) gaf í morgun út áhættumatsskýrslu vegna zika-veirunnar í Evrópu. Í henni kom fram að lítil eða hófleg hætta stafi af henni í álfunni. Mestu líkurnar á að hún nái fótfestu eru sagðar á Madeira-eyjum og norðausturströnd Svartahafs þar sem moskítóstofninn sem ber veiruna með sér þrífst.

Þórólfur telur það hins vegar skot út í loftið að leggja mat á hættuna í Evrópu á þessu stigi. Ekkert nýtt komi fram í skýrslu WHO en hún sýni að menn hafi áfram vaxandi áhyggjur af veikinni.

„Þetta er bara það sama og hefur verið í umræðunni. Það er vitað að þessar ákveðnu moskítóflugur eru á mörgum svæðum í Evrópu, Ameríku og á fleiri stöðum og menn hafa haft áhyggjur af því að veiran muni komast í þessar flugur og þannig dreifast. Menn bíða bara og sjá hvort að það verði,“ segir sóttvarnalæknir.

Ólíklegt að veiran smitist á milli manna

Heilbrigðisyfirvöld hafa fram að þessu ekki hvatt til ferðabanns til landa Suður- og Mið-Ameríku þar sem zika-faraldur hefur geisað. Sóttvarnalæknir hefur hins vegar hvatt þungaðar konur til að íhuga að fresta ferðum til þessara landa þar til eftir fæðingu þar sem að veiran getur leitt til fósturskaða. Þá eru Íslendingar sem ferðast erlendis hvattir til þess að gefa ekki blóð fyrstu fjórar vikurnar eftir heimkomu. 

Engar slíkar viðvaranir verða gefnar út vegna Evrópu fyrr en sýnt verður fram á að veiran sé þangað komin, að sögn Þórólfs. Ef það gerist munu sömu viðmið gilda og um ferðir til Suður- og Mið-Ameríku nú.

„Fyrr en að það er þá er engin ástæða til að vara við ferðum á þessa staði sem hún gæti hugsanlega skotið upp kollinum,“ segir hann.

Innviðir eru til staðar hér á landi til að bregðast við smiti. Þeir sem telja sig geta verið smitaðir af zika geta farið í greiningarpróf og eru sýni þá send erlendis til rannsókna. Veiran smitast hins vegar fyrst og fremst með moskítóflugunum og mjög litlar líkur eru taldar á því að hún smitist á milli manna, þá helst með kynmökum. Því segir Þórólfur yfirvöld hér ekki hafa áhyggjur af því að zika breiðist út á Íslandi, jafnvel þó að hingað komi smitaðir einstaklingar.

„Það væri mjög ólíklegt að fólk færi að dreifa veirunni mikið og að það verði einhver faraldur hér innanlands. Við erum ekki að horfa upp á það,“ segir Þórólfur.

Fyrri frétt mbl.is: Zika-veiran berst til Evrópu

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert