47% tilbúnir að greiða komugjald

47% erlendra ferðamanna sem svöruðu spurningum um komugjald, sögðust vera …
47% erlendra ferðamanna sem svöruðu spurningum um komugjald, sögðust vera tilbúnir að greiða gjald við komuna til Íslands. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Rétt undir helmingur, eða 47% erlendra ferðamanna sem svöruðu spurningum í brottfararsal Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar um komugjald, sögðust vera tilbúnir að greiða gjald við komuna til Íslands. Alls svöruðu 311 ferðamenn og komu þeir frá 14 löndum. Þetta kemur fram í niðurstöðum spurningakönnunar sem Anna Jónsdóttir lagði fyrir ferðamennina, en þær birtir hún í BS verkefni sínu í viðskiptafræði sem hún skilaði á dögunum.

Markmið verkefnisins var tvíþætt, annars vegar að kanna viðhorf hagsmunaaðila sem starfa innan ferðaþjónustunnar á gjaldtöku almennt og afstöðu þeirra til þess að komugjald verði sett á öll flug- og skipafargjöld til landsins. Hins vegar að kanna afstöðu erlendra ferðamanna sem staddir eru hér á landi til þess að komugjald verði lagt ofan á fargjaldið þeirra þegar þeir ferðast til Íslands og hversu hátt það má vera.

Tekin voru viðtöl fimm einstaklinga sem allir tengjast ferðaþjónustunni á einn eða annan hátt auk þess sem spurningalistinn var lagður fyrir farþega í brottfararsal Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.

2% tilbúnir að borga meira en 20 evrur

Meirihluti þeirra ferðamanna sem voru jákvæðir gagnvart gjaldtökunni, eða 66%, sögðu að þeir væru tilbúnir að greiða frá fimm upp í tíu evrur. Rétt rúmlega helmingur af þeim 47% sem voru jákvæðir gagnvart gjaldtöku var samþykkur því að gjaldið yrði frá tíu upp í fimmtán evrur. „Það er því ljóst að meirihlutinn þó naumur sé vill ekki gjaldtöku og þeir sem samþykkir eru gjaldtöku eru flestir einungis tilbúnir að greiða lágmarksgjald,“ segir Anna.

Aðeins 2% þeirra sem voru jákvæðir gagnvart gjaldtöku sögðust vera tilbúnir til að borga meira en 20 evrur. Anna segir þó í samtali við mbl.is að þrátt fyrir það hafi komið fram hjá nokkrum ferðamönnum að þó þeir segðust ekki vera tilbúnir að greiða komugjald, þá myndi slíkt gjald líklega ekki stoppa þá frá því að koma hingað til lands.

Að sögn Önnu komu niðurstöður spurningakönnunarinnar ekki á óvart þar sem skiptar skoðanir eru um gjaldtöku og umræðan um hana hefur verið mikil. Telur hún að það skýrist að einhverju leyti af því hvað neytendur hafa sterkar skoðanir á gjaldtöku. Það hafi því heldur ekki komið á óvart að þeir sem voru jákvæðir gagnvart gjaldtöku væru svo margir sem raun bar vitni. „Mikil vitundarvakning er um allan heim þegar kemur að umhverfismálum og gjaldtaka eins og hér um ræðir tíðkast víða í öðrum löndum.“

Hagsmunaaðilar jákvæðir gagnvart komugjaldi

Samkvæmt viðtölunum voru hagsmunaaðilarnir almennt jákvæðir gagnvart því að komugjald yrði lagt á fargjöld til landsins þó að skiptar skoðanir væru um hvaða leið skyldi farin. „Þeir gera sér grein fyrir þeim ávinningi sem gjaldtaka og uppbygging áningastaða hefur í för með sér,“ segir Anna. „Viðmælendur töluðu um aukningu í áhuga ferðamanna á að koma hingað til lands og voru nokkuð sammála um að gjald á ferðamenn sé nauðsynlegt til uppbyggingar á áningarstöðunum og um leið til verndar náttúrunni.“

Þrír þeirra sögðust vilja blandaða leið þar sem komugjald og sjálfbær ferðaþjónusta af einhverju tagi yrði samþætt. Með sjálfbærri ferðaþjónustu áttu þeir við að gjaldtakan færi fram á áningarstaðnum sjálfum annaðhvort í formi aðgangseyris eða sem gjald gegn veittri þjónustu. Einn viðmælandi vildi einungis að komugjald yrði lagt á farseðla og annar vildi einungis að hver og einn ferðamannastaður væri sjálfbær og væri með sína eigin gjaldtöku. 

91% þátttakenda komu frá Evrópu

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar endurspeglaði ójöfn þátttaka milli landa úrtakið og hefði verið gott ef dreifingin hefði verið jafnari milli landa hjá þeim erlendu ferðamönnum sem svöruðu spurningakönnuninni í Leifsstöð. „Ekki er mögulegt að alhæfa, eða draga ályktanir, um svör frá þeim löndum sem fáir þátttakendur komu frá. Áberandi munur var á milli heimsálfa og því geta niðurstöðurnar endurspeglað viðhorf og skoðanir Evrópubúa sterkar en íbúa annarra heimsálfa þar sem 91% þátttakenda komu frá Evrópu,“ segir í ritgerðinni.

Þá kemur fram að viðhorf viðmælenda endurspegli að miklu leyti stöðu þeirra innan ferðaþjónustunnar þar sem þeir hafi allir einhverra hagsmuna að gæta.

Anna Jónsdóttir lagði spurningalista fyrir ferðamenn um komugjald hingað til …
Anna Jónsdóttir lagði spurningalista fyrir ferðamenn um komugjald hingað til lands fyrir BS verkefni sitt í viðskiptafræði.
Aðeins 2% þeirra sem voru jákvæðir gagnvart gjaldtöku sögðust vera …
Aðeins 2% þeirra sem voru jákvæðir gagnvart gjaldtöku sögðust vera tilbúnir til að borga meira en 20 evrur. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert