Júlíus segir rangfærslur í Kastljósi

Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi.
Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér finnst Kastljósþátturinn marka ákveðinn lágpunkt í fréttaflutningi. Þátturinn var yfirfullur af rangfærslum. Í símtölum við stjórnendur þáttarins í dag [í gær] leiðrétti ég margt af því sem mér var sagt að þar myndi koma fram, en það var bersýnilega lítill áhugi fyrir því að fá nema eina bjagaða hlið á málinu.“

Þetta segir Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Morgunblaðið og vísar þar til umfjöllunar Kastljóss á RÚV í gærkvöldi. Í þættinum var ítrekað tekið fram að Júlíusi hefði verið boðið að koma í viðtal en hann ekki þegið það.

Í þættinum kom fram að tvö systkini Júlíusar Vífils og systursonur hans segja hann hafa gengist við því degi eftir að Panamaskjölin voru opinberuð að sjóðir foreldra hans væru geymdir í aflandsfélagi í hans eigu. Júlíus er sonur Ingvars Helgasonar, sem stofnaði bílaumboðið Ingvar Helgason hf. sem var eitt stærsta fyrirtæki landsins er Ingvar lést árið 1999.

„Ótakmarkað fimbulfamb“

Í þættinum var rætt við systurson og tvö systkini Júlíusar Vífils. Byggðist umfjöllunin á gögnum úr Panamaskjölunum og sagði frá leit erfingja Ingvars og  Sigríðar Guðmundsdóttur, eiginkonu hans, að varasjóði þeirra sem átti að vera á reikningum erlendis. Var sjóðurinn enn ófundinn er Sigríður lést í fyrra.

Júlíus Vífill sagði af sér sem borgarfulltrúi í apríl í kjölfar umfjöllunar Kastljóss um aflandsreikninga íslenskra stjórnmálamanna. Í þættinum var því ljóstrað upp að Júlíus hefði  stofnað hluta­fé­lagið Silwood Foundati­on í Panama í árs­byrj­un 2014 og áhersla hafi verið lögð á að nafn hans væri ekki í for­grunni fé­lags­ins.

Er Júlíus sagði af sér sagði hann m.a. í ræðu sinni í borgarstjórn að ekki hefði verið um aflandsfélag að ræða, heldur líf­eyr­is- og vörslu­sjóð.

Júlíus Vífill segir í samtali við Morgunblaðið rangt að hann hafi sölsað undir sig sjóði annarra, eins og fram kom Kastljósi í gærkvöldi.

„Viðmælendum var gefinn ótakmarkaður tími til að fimbulfamba án þess að fréttamaður fylgdi því eftir á nokkurn hátt eða óskaði eftir frekari sönnunum þrátt fyrir að ásakanir væru alvarlegar og ærumeiðandi,“ sagði Júlíus í samtali við Morgunblaðið. „Ég ítreka það sem þegar hefur margoft komið fram að það eru gróf ósannindi að ég hafi gengið í eða sölsað undir mig sjóði annarra.“

Þá segir Júlíus Vífill það hafa verið erfitt að sjá því haldið fram að móðir hans heitin hafi verið fjárþurfi í ellinni. „Hún var sem betur fer mjög vel efnum búin og skorti ekkert, en því miður þjáð í mörg ár af Alzheimer. Væntanlega hefðu sömu einstaklingar og tala með þessum hætti farið varlegar með fjármuni hennar ef sú hefði verið raunin í stað þess að draga sér tugi milljóna af bankareikningi hennar.“

Kaus að svara engu

Kastljós tók fram í upphafi og enda þáttarins í gær að ítrekað hefði verið haft samband við Júlíus Vífil við gerð þáttarins. Í símtölum og með tölvupósti hafi verið óskað eftir svörum við nokkrum grundvallarspurningum, svo sem þeim hver hafi verið eigandi Lindos Alliance [sem fjárfesti í Ingvari Helgasyni hf. árið 2001], hvaðan féð hafi komið sem lagt var inn á reikning aflandsfélags Júlíusar Vífils, Silwood, hvort hann hafi viðurkennt fyrir systkinum sínum að þetta væri sjóður foreldra þeirra, eins og þau bera öll að hann hafi gert og „ýmislegt fleira sem skiptir máli í þessari frásögn,“ sagði ritstjóri Kastljóss, Þóra Arnórsdóttir, í þætti gærkvöldsins. Júlíus hafi kosið að svara engu en hafi sent Kastljósi eftirfarandi línur í gær:

„Það litla sem ég hef séð að fram kemur í þessum þætti Kastljóss eru ýmist algjör ósannindi eða ómerkileg illmælgi. Sérstaklega er ótrúlega ófyrirleitið að halda því fram að ég hafi með einhverjum hætti gengið í eða sölsað undir mig sjóði í eigu annarra sem eru gróf ósannindi og mannorðsmeiðandi. Er yfirleitt hægt að bregðast við getgátum og dylgjum sem ekki byggja á neinum gögnum? Úr ágreiningi varðandi skipti á dánarbúi sem nú er í opinberum skiptum verður leyst með öðrum hætti en í Kastljósþætti ríkissjónvarpsins. Ég áskil mér allan rétt til að bregðast síðar við þessum þætti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert