Ekki einkamál lögreglunnar

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, segist hafa fengið áfall þegar hún frétti af því á fundi ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, fyrir um áratug síðan að mansal tíðkaðist hér á landi. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og hefur almenn vitund um glæpastarfsemi sem þessa aukist verulega.

Þetta var á meðal þess sem fram kom í máli Sigríðar Bjarkar á málþingi um mansal í Iðnó í morgun. Innanríkisráðuneytið og utanríkisráðuneytið standa fyrir málþinginu í samvinnu við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.

Sigríður Björk sagði að nú á dögum lifum við á tímum örra breytinga en þeim fylgdu nýjar áskoranir og ógnanir við öryggi borgaranna tækju á sig nýja svipmynd. Vitundin um mansal væri orðin almenn og þekkingin sömuleiðis betri.

Hún sagðist hafa sótt fund hjá ÖSE fyrir um áratug síðan, þá sem lögreglustjóri á Ísafirði, en þar frétti hún fyrst af mansali hér á landi. „Það var áfall að heyra það að jafnvel á slíkum fámennum stöðum gæti verið vettvangur slíkrar glæpastarfsemi,“ nefndi hún. Jafnvel þótt nálægðin hafi verið mikil á milli fólksins gat það reynst þrautinni þyngri að hjálpa þolendum.

Á þessum tíma, um árið 2006, hafi skort verulega á að fólk væri upplýst um mansal hér á landi. „Margir töldu að þetta tíðkaðist aðeins úti í hinum stóra heimi.“

Aukin fræðsla í forgang

Þegar Sigríður Björk hóf störf hjá lögreglunni á Suðurnesjum 2009 sagðist hún hafa sett í forgang að auka fræðslu um mansal. Þá hefðu viðtökurnar verið mun betri en þremur árum áður. Þessi aukna fræðsla hefði síðan komið til góðs þegar mansalsmál kom upp innan umdæmisins sama ár. Þá hefði reynt á mjög marga þætti, svo sem löggjöfina, starfsmenn lögreglunnar og samstarfsaðila hennar, þekkingu þeirra og kerfið allt. Sigríður Björk sagðist sannfærð um að án fræðslunnar hefði málið aldrei náð fram að ganga.

Síðan þá hefði hins vegar mikið vatn runnið til sjávar og nú væri þekkingin og vitundin á þessum málaflokki meiri en áður, eins og áður sagði. Þrátt fyrir það væri sannarlega margt sem betur mætti fara. Mikilvægt væri að íslensk stjórnvöld hlýddu á ráðleggingar erlendra sérfræðinga. 

Ekki mætti gera lítið úr því sem vel hefði verið gert. Af mörgu væri að taka, svo sem aðgerðaáætlun stjórnvalda gegn mansali, fræðslu um allt land, heimsóknir í vinnustaði, markvissari þekkingaröflun, aukið samtarf og opinber umfjöllun, þannig að eitthvað sé nefnt. „Það er fagnaðarefni en endurspeglar um leið hversu víðtækur vandinn er.“

Ekki einkamálefni lögreglunnar

Þá nefndi Sigríður Björk jafnframt að mansalmál hefðu fengið fastan sess hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á þessu ári, innan rannsóknardeildarinnar. Þetta væri þó ekki einkamálefni lögreglunnar, heldur samstarfsverkefni margra.

Til þess að sigrast á þessu margslungna neti sem byggist á ofbeldi og kúgun þurfi margir að leiða saman hesta sína. Verkefnið væri hvorki einfalt né auðvelt, en Sigríður Björk sagðist, nú tíu árum eftir ÖSE-fundinn, hafa trú á því að saman gætum við náð mun betri árangur í baráttunni gegn mansali.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert