Hvetja til hreyfingar í Kringlunni

Hvatningabúnaðurinn er á ganginum milli 1. og 2. hæðar
Hvatningabúnaðurinn er á ganginum milli 1. og 2. hæðar mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kringlan verður á iði næstu vikur því þá standa Sjóvá og ÍSÍ fyrir skemmtilegu uppátæki. Nú um helgina verður settur í gang sérstakur „hvatningabúnaður“ á ganginum milli 1. og 2. hæðar; sérhannaður ljósa- og hljóðbúnaður sem hvetur vegfarendur dyggilega áfram á leiðinni milli hæða. Að öðrum stigagöngum ólöstuðum má búast við að þessi sé sá allra skemmtilegasti á landinu og þá borgar sig að taka tröppurnar í staðinn fyrir rúllustiga eða lyftu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Með þessu er vakin athygli á árlegu Sjóvá Kvennahlaupi ÍSÍ sem fer fram 4. júní næstkomandi um leið og minnt er á mikilvægi reglubundinnar hreyfingar.

„Uppátækið hvetur til hreyfingar og minnir á þá staðreynd að það er bæði skemmtilegt og hollt að hreyfa sig,“ er haft eftir Sigríði Ingu Viggósdóttur, sviðstjóra Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ í tilkynningunni. „Í Sjóvá Kvennahlaupi ÍSÍ eru konur hvattar til að fara hver á sínum hraða. Hlaupið var fyrst haldið í Garðabæ 1990, en nú taka um 14.000 konur þátt í því á hverju ári á um það bil 100 stöðum hérlendis og erlendis. Markmiðið er alltaf það sama: að konur sameinist og minni hverja aðra á mikilvægi hreyfingar.“

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Sjóvá, aðalstyrktaraðili hlaupsins, hvetja allar konur til þess að ganga skemmtilegasta stigagang landsins í Kringlunni og taka þátt í Sjóvá Kvennahlaupi ÍSÍ 4. júní 2016. Upplýsingar um hlaupastaði má finna á kvennahlaup.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert