Greiðslufresturinn framlengdur

Reykjaneshöfn.
Reykjaneshöfn.

Stjórn Reykjaneshafnar og Thorsil hafa samþykkt að færa dagsetningu vegna greiðslu gatnagerðargjalda til 31. júlí 2016. Sú framlenging er í  samræmi við þá vinnuferla sem fylgt hefur verið hingað til í tengslum við samning hafnarinnar og Thorsil, að því er kemur fram í tilkynningu.

Gert er ráð fyrir því í samningnum að greiðslan skuli berast þegar allir fyrirvarar í samningnum eru uppfylltir, s.s. þegar orkusamningar Thorsil verða fyrirvaralausir.

Þar sem enn er fyrirvari í orkusamningum Thorsil við Landsvirkjun um formlegt samþykki frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hafa dagsetningar í lóða- og hafnarsamningi verið framlengdar til samræmis.

 „Þá má nefna vegna fréttaflutnings að greiðslur til Reykjaneshafnar sem greiða á við afléttingu fyrirvara skulu nýtast til að mæta kostnaði vegna frágangs lóðar Thorsil og annars kostnaðar sem tengist undirbúningsframkvæmdum vegna Thorsil. Því er rangt að tengja framlengingu þessa greiðsludags, og greiðslu upp á 140 milljónir króna, við skuldir Reykjaneshafnar sem nema yfir 7 milljörðum króna,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert