„Þetta er mjög erfitt“

Irina segir börnin orðin þreytt á ferðalögum.
Irina segir börnin orðin þreytt á ferðalögum. Ljósmynd/Úr einkasafni

Seibel-fjölskyldan er nú komin til bæjarins Breil sur Roya í suðausturhluta Frakklands en nú er tæpur mánuður síðan þeim var vísað frá Íslandi eftir að hafa búið þar í átta mánuði. Fyrst um sinn voru þau í úthverfi Parísar en svo voru þau flutt af yfirvöldum tæpa þúsund kílómetra til Nice. Þaðan voru þau send til Breil sur Roya á föstudaginn.

Fjölskyldan samanstendur af þeim Ir­ina og Vla­dimir Sei­bel og börnum þeirra, Mil­inu sem er níu ára, og tví­bur­unum Sam­ir og Kemal sem eru sex ára en mbl.is og Sunnu­dags­blað Morg­un­blaðsins hafa fjallað um mál þeirra síðustu misseri. Fjöl­skyld­an hrakt­ist frá heimkynnum sínum í Úsbekist­an vegna trú­arof­sókna og hafði búið hér á landi í átta mánuði þegar þeim var vísað úr landi.

Þau hafa nú sótt um hæli í Frakklandi og skiluðu inn öllum gögnum 18. maí. Að sögn Irina er það eina í stöðunni núna að bíða. Síðan fjölskyldan kom til Frakklands í síðasta mánuði hafa þau verið mikið á ferðinni og að sögn Irinu eru börnin orðin þreytt. „Þau eru alltaf að spyrja hvert við séum að fara og hvenær við förum aftur til Íslands, þetta er mjög erfitt,“ segir Irina í samtali við mbl.is.

Hún segir fjölskylduna þrá að komast aftur til Íslands þar sem þau voru byrjuð að byggja upp líf. „Það er ekkert sem við viljum heitar. Við erum ung, við viljum vinna og lifa í friði,“ segir Irina og bætir við að hún eigi erfitt með að sjá fyrir sér fjölskylduna hafa það gott í Frakklandi.

Vinir fjölskyldunnar á Íslandi hafa hafið söfnun til styrktar fjölskyldunni og segist Irina þeim gríðarlega þakklát. Með þeim peningum hafa þau getað greitt fyrir gistingu en enga fjárhagslega aðstoð er að fá frá frönskum yfirvöldum. „Ég veit ekki hvað við hefðum gert væri það ekki fyrir vini okkar á Íslandi.“

Þeir sem vilja styrkja fjöl­skyld­una geta lagt inn á eft­ir­far­andi reikn­ing:

159-05-60366
Kt. 191085-3619

Irina og Vladimir þegar þau bjuggu í Njarðvík.
Irina og Vladimir þegar þau bjuggu í Njarðvík. Ljósmynd úr einkasafni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert