Bretar glottu spurðir um þyrluflug

Lög sem samþykkt voru á Alþingi í mars á þessu …
Lög sem samþykkt voru á Alþingi í mars á þessu ári fela í sér rýmri heimildir til rafræns eftirlits með föngum. Á myndinni má sjá Litla-Hraun. mbl.is/Árni Sæberg

Sérfræðinganefnd um fullnustu refsinga sem skipuð var árið 2010 af þáverandi dómsmála- og mannréttindaráðherra vildi stíga varlega til jarðar varðandi rýmkun á rafrænu eftirliti með föngum og ganga skemur en var gert með nýjum lögum um fullnustu refsinga. Fjörutíu og fimm þingmenn greiddu atkvæði með frumvarpinu, enginn á móti. 

Nefndin skilaði niðurstöðum sínum á síðasta kjörtímabili og segir Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði við Háskóla Íslands, sem sat í nefndinni það hafa komið sér á óvart að sjá svo mikla rýmkun á möguleikanum að komast í rafrænt eftirlit í lagafrumvarpi sem samþykkt var í mars sl. þar sem nefndin hafi ekki lagt eins mikla rýmkun til.

Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur.
Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur. mbl.is

Frumvarpið tók til margra þátta við fullnustu refsinga. Spurður hvort löggjafinn hafi ákveðið að ganga lengra en nefndin í öðrum atriðum en við rafrænt eftirlit kveður Helgi í grófum dráttum svo ekki vera. 

Frétt mbl.is: Lausir af kvíabryggju

„Mér sýnist að það sé fyrst og fremst þetta, þetta stóra skref. Svo geta menn sagt sem svo að þetta sé sérsniðið að þessum hvítflibbaglæpamönnum. Það má svo vera að það sé bara tilviljun. En alla vega þá tilviljun sem hentar þeim hópi best. Kemur öðrum brotahópum til góða, en þessum hópi hlutfallslega best,“ segir Helgi. Nefnir hann máli sínu til stuðnings að athafnamenn sem dæmdir voru í kjölfar efnahagshrunsins hafi verið lausir af Kvíabryggju vikum eftir að frumvarpið var samþykkt. „Auðvitað gæti það svo bara verið tilviljun,“ segir hann.

Magnús Guðmunds­son, Ólaf­ur Ólafs­son og Sig­urður Ein­ars­son losnuðu af Kvíabryggju …
Magnús Guðmunds­son, Ólaf­ur Ólafs­son og Sig­urður Ein­ars­son losnuðu af Kvíabryggju í byrjun apríl á þessu ári. Mbl.is/Samsett mynd

„Ég er ekkert að segja að ég sé á móti þessari rýmkun en þetta kom mér frekar mikið á óvart. Ég var í þessari nefnd og þar voru menn miklu varkárari og vildu ekki taka svona stórt skref í einu,“ segir Helgi og veltir fyrir sér hvaðan breytingarnar frá tillögum nefndarinnar séu upprunnar; s.s. innanríkisráðuneytinu, Fangelsismálastofnun eða löggjafanum svo dæmi séu tekin.

Veltir fyrir sér varnaðaráhrifum með rýmri heimildum

Helgi segist staldra við og velta fyrir sér varnaðaráhrifum refsidóma á umræddan hóp með þessari rýmkun á rafrænu eftirliti. „Maður staldrar við þann þátt að þetta dragi úr þeim áhrifum varðandi skilaboð til samfélagsins, um að afbrot borgi sig ekki, og þennan hóp,“ segir Helgi.

Helgi Gunnlaugsson segir breska afbrotafræðinga hafa glott þegar hann spurði …
Helgi Gunnlaugsson segir breska afbrotafræðinga hafa glott þegar hann spurði þá út í heimildir fanga til þyrluflugs í þeirra heimalandi.

Hann segir þó að varnaðaráhrif birtist í þeim álitshnekkjum sem hópurinn varð fyrir eftir dóma Hæstaréttar. „Þessir menn voru virtir og þekktir svo fall þeirra var ansi stórt,“ segir Helgi en bætir við að hann hafi sjaldan séð eins afgerandi dóma Hæstaréttar og með hörðum rökstuðningi en ári síðar séu umræddir menn komnir í afplánun á áfangaheimili.

Breskir afbrotafræðingar glottu við fyrirspurn um þyrluflug

Ólafur Ólafsson, aðaleigandi Samskipa, komst í fréttirnar sl. sunnudag þegar þyrla hans brotlenti suður af Nesjavallavirkjun. Helgi kemur inn á það að brotamenn í afplánun á áfangaheimili séu farnir að fljúga á þyrlu eftir að hafa afplánað ár af dómi sínum. 

„Það er ekkert sem bannar þeim það, en það er ekkert óeðlilegt að velta fyrir sér hvað mönnum sé heimilt að gera á meðan þeir afplána á áfangaheimili,“ segir Helgi. Hann segir þetta eins spurningu um dómgreind og siðferði þeirra sem afplána.

Helgi segist hafa verið með tvo breska afbrotafræðinga hjá sér í gær og hann hafi spurt þá hvort brotamönnum á áfangaheimili sé heimilt að fljúga eigin þyrlu. „Þeir glottu bara,“ segir Helgi en þar í landi gilda strangari reglur um hvað brotamönnum sé heimilt að gera á meðan afplánun stendur á áfangaheimilum. Helgi segir jafnframt strangari reglur gilda um athafnir brotamanna við slíka afplánun í Bandaríkjunum en bætir þó við að hann sé ekkert endilega að leita fyrirmynda til ríkjanna sem hann nefnir.

Vill strangari reglur meðan á afplánun stendur

Að sögn Helga var sátt um rýmri heimildir til rafræns eftirlits á Alþingi og í pólitískri nefnd sem fjallaði um málið. Hann segist ekki halda annað en að menn velti nú fyrir sér að endurskoða reglur er lúta að afplánun undir rafrænu eftirliti og/eða á áfangaheimilum. „Mörgum finnst óeðlilegt að kerfið skipti sér af slíku,“ segir Helgi um að setja strangari reglur.

„Mér finnst ekki óeðlilegt að það sé gert, en þetta er álitamál,“ segir Helgi en hann telur að menn hafi ekki hugsað út í það að fólk færi að stunda þyrluflug þegar lögin voru samþykkt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert