„Ég varaði hann við“

Hrafnhildur Lúthersdóttir.
Hrafnhildur Lúthersdóttir. Ófeigur Lýðsson

„Þegar ég var nýfædd kom frændi minn, sem var sjálfur sundgarpur, í heimsókn, leit á mig og sagði; „Þetta verður sundkona mikil,“ segir Hrafnhildur Lúthersdóttir, sem um helgina náði besta árangri sem nokkur ófatlaður íslenskur sundmaður hefur náð. Hrafnhildur vann til tvennra silfurverðlauna og einna bronsverðlauna á Evrópumótinu í sundi í 50 metra laug í Lundúnum um síðustu helgi.

Þegar Hrafnhildur kom í fyrsta skipti að sundlaug pínulítil stakk hún sér óhrædd út í laugina eins og hún hefði aldrei gert neitt annað áður og það varð fjölskyldunni líka fljótlega ljóst að þarna fór ekki aðeins spriklandi ofursundkona heldur hafði hún keppnisskap upp á tíu plús. Í viðtali sem birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina segir Hrafnhildur frá lífi og störfum og hvað það var sem kom henni í flokk fremstu sundkvenna heims. 

Stakk fjölskylduna af

„Mamma þurfti ólétt að elta mig nokkurra ára gamla niður götuna í hverfinu því ég stakk hana af þar sem ég vildi fara í spretthlaup. Og bróðir minn hafði mikinn húmor fyrir því og gerði ofurlítið grín að mér því ég vildi gera keppni úr öllu. Við vorum kannski bara einhvers staðar að ganga saman fjölskyldan og ég fór að strunsa fremst; „Já, já, Hrafnhildur. Þú ert að vinna, til hamingju,“ kallaði hann á mig. Efst í huga mínum er gjarnan að drífa hlutina af. Og þótt það hafi ekki beinlínis verið haft fyrir mér að vera í einhverjum keppnisham voru og eru fyrirmyndir mínar, mamma og pabbi, alltaf mjög vinnusöm og dugleg í öllu því sem þau taka sér fyrir hendur. Ætli ég hafi samt ekki mesta keppnisskapið í fjölskyldunni.“

Hrafnhildur er Hafnfirðingur í húð og hár, fædd 1991, úr svokallaðri Auðunsætt í Hafnarfirði. Faðir hennar, Lúther Sigurðsson, er barnameltingarlæknir og er fjölskylda hans hafnfirsk aftur í ættir. Móðir hennar, Ingibjörg Ragnarsdóttir hjúkrunarfræðingur, er ættuð að vestan, úr Vatnsdalnum, og að austan, frá Jökuldalsheiði og Vopnafirði, en móðurafi hennar, Ragnar Björnsson, var mikill sundgarpur. Bróður Hrafnhildar kannast margir við, Auðun Lúthersson, en sem tónlistarmaður gengur hann undir listamannsnafninu Auður.

Kærastinn „venjulegur“

Ekki er langt síðan Hrafnhildur útskrifaðist úr Flórída-háskólanum þar sem hún lærði almannatengsl en hún hefur búið þar í fimm ár og að auki synt með afar öflugu sundliði skólans. Hún segist telja að hún sé nokkuð góð í almannatengslum en framtíðin er óráðin eftir Ólympíuleikana í Ríó í ágúst. Spurning sé hvort hún fari í frekara nám, á vinnumarkaðinn eða jafnvel að ferðast. Hún er þó enn búsett í Bandaríkjunum en hún á kærasta þar sem hún kynntist í háskólanum, en hann er frá Venesúela, er á viðskiptafræðilínunni og á sjálfur ár eftir í námi. Hún segir að hann sé það sem íþróttafólk kalli „normal“ og líf hans sé ekki undirlagt af íþróttaiðkun.

 „Ég varaði hann við áður en við fórum að vera saman – að ef hann vildi fara út í þetta væri sundið yfirgnæfandi þáttur í lífi mínu. Ég væri alltaf að ferðast, að keppa og æfa mikið og hann jánkaði bara og sagðist vera til. En vissulega var þetta svolítið erfitt fyrst og skrýtið meðan hann var að átta sig á því hvernig þetta virkaði svo í alvörunni. En hann er mjög mikill stuðningur fyrir mig og skilningsríkur. Alltaf fyrstur til að senda mér SMS og hamingjuóskir og fylgist vel með á netinu. Hann er búinn að venjast þessu að mestu.“

Í viðtalinu talar Hrafnhildur um stuðning foreldra sinna sem búa úti í Bandaríkjunum, eilitla hjátrú, hvernig hún pakkar kókómjólk og smjörstykkjum með sér frá Íslandi og hver galdurinn er á bak við það að ná á verðlaunapall.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka