Hugsanlega ákærðar fyrir flugrán

Konurnar voru fjarlægðar úr flugvélinni eftir að þær reyndu að …
Konurnar voru fjarlægðar úr flugvélinni eftir að þær reyndu að koma í veg fyrir að Eze Henry Oka­for yrði vísað úr landi. mbl.is/Sigurður Bogi

Konunum tveimur, sem handteknar voru fyrir mótmæli á vegum samtakanna No Borders Iceland um borð í flugvél Icelandair í gærmorgun, voru kynnt möguleg ákæruefni við yfirheyrslur hjá lögreglu í gær sem lögregla sendir til saksóknara að lokinni rannsókn málsins.

Í samtali við mbl.is segja konurnar alvarlegasta ákæruefnið vera brot gegn 165. gr. almennra hegningarlaga um að beita ólögmætri aðferð til að ná valdi á stjórn loftfars eða grípa á annan hátt ólöglega inn í stjórn þess og flug. Varðar það fangelsi ekki skemur en tvö ár en refsing getur orðið lægri ef alveg sérstaklega stendur á.

Önnur atriði voru óhlýðni gagnvart fyrirmælum lögreglu, frelsun fanga úr almennu rými og brot gegn lofthelgis- eða loftvarnarlögum, segja konurnar tvær en þær fengu ekki að hafa hugsanleg ákæruefni með sér að yfirheyrslum loknum.

Frá Leifsstöð.
Frá Leifsstöð. mbl.is/Þorsteinn

Konurnar hafa farið yfir málið með lögfræðingi sínum og munu þær taka sér tíma yfir helgina til þess að fara yfir stöðu sína, en þær segjast hafa verið handteknar mjög harkalega. Sóttu þær áverkavottorð í gærkvöldi eftir að þær yfirgáfu lögreglustöðina.

Frétt mbl.is: Handteknar í Icelandair-vél

Konurnar reyndu að koma í veg fyrir að flóttamanninum Eze Henry Oka­for yrði vísað úr landi en hann hafði búið hér á landi í fjögur ár eftir að hafa flúið undan hryðjuverkasamtökunum Boko Haram í heimalandi sínu Nígeríu.

Frétt mbl.is: Flúði undan Boko Haram til Íslands

Málið enn til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurnesjum

Vilhjálmur Reyr Þórhallsson, forstöðumaður ákærusviðs lögreglunnar á Suðurnesjum, segir of snemmt að segja nokkuð til um hugsanlega ákæru enda sé málið enn til rannsóknar hjá lögreglu. „Það er verið að afla gagna, við eigum enn eftir að taka skýrslur af vitnum,“ segir Vilhjálmur.

Hann segir konurnar hafa verið fjarlægðar úr vélinni og fluttar í fangahúsið í lögreglustöðinni við Hringbraut í Keflavík. Þar hafi þær verið vistaðar þar til hægt var að taka af þeim skýrslu og þeim sleppt í kjölfarið. Konurnar eru báðar íslenskar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert