Bjartsýnni í dag en í gær

Tinni er lítill og kátur boston terrier-hundur að sögn Hilmars.
Tinni er lítill og kátur boston terrier-hundur að sögn Hilmars. ljósmynd/Hilmar Birgir Ólafsson

„Ég er búinn að fá ótrúlega mikið af góðum viðbrögðum; mörg skilaboð á Facebook og tölvupósta frá fullt af fólki sem vill sýna stuðning,“ segir Hilm­ar Birg­ir Ólafs­son, hunda­eig­andi og íbúi í Stakk­holti 2–4.

Eins og mbl.is fjallaði um í gær verður kosið um það á húsfundi 2. júní nk. hvort Hilm­ar og tveir aðrir aðilar í hús­inu fái leyfi fyr­ir hund­um sín­um, en að sögn Hilmars hafa nokkr­ir ná­grann­ar hans ákveðið að berj­ast með kjafti og klóm fyr­ir því að bera hann og fjöl­skyldu hans út vegna hunds­ins Tinna. Þau muni neyðast til að selja íbúðina ef hundurinn fái ekki að vera, þar sem ekki komi til greina að hann fari.

„Heyrist eins og margir ætli að styðja okkur“

Hilmar segir að vel hafi gengið að sannfæra fólk í húsinu um að kjósa með hundahaldinu á húsfundinum og þá hafi nokkrir aðilar sem ekki komast á fundinn veitt Hilmari umboð til að kjósa um þetta einstaka mál. „Manni heyrist eins og það séu margir sem ætli að styðja okkur,“ segir hann.

Auk Hilm­ars og kær­ustu hans eru tvö önn­ur pör í sama stiga­gangi með hunda, en að sögn Hilm­ars hafa þau öll lagt sig fram við að sem minnst trufl­un sé af hund­um þeirra. Eng­inn óþrifnaður hafi verið af þeim, lítið hafi heyrst í þeim auk þess sem þeir komi sára­lítið inn í sam­eign húss­ins.

Biðja fólk um að sýna umburðarlyndi gagnvart hundunum

Eins og fram kom í frétt mbl.is í gær býr Hilmar ásamt kærustu sinni og hundinum Tinna í íbúð á jarðhæð og fer Tinni alltaf inn og út um svaladyr. Hann kemur því aldrei inn í séreign hússins. Hilmar segist hafa fengið fjöldann allan af ábendingum frá fólki, m.a. um það að samkvæmt lögum um fjöleignarhús þurfi ekki samþykki fyrir hundahaldi þegar um sérinngang sé að ræða. Hilmar segir þó að þar sem um sé að ræða svalahurð sé inngangurinn ekki sérinngangur í skilningi laganna.

Í fyrri frétt mbl.is sagði Hilmar einnig að um erfiða kosningu væri að ræða þar sem fáir aðilar ættu margar íbúðir í húsinu og leigðu þær út í gegnum Airbnb. Segist Hilmar í dag hafa fengið ábendingar um dómsmál sem féll í héraðsdómi í apríl þar sem íbúðaeigendum var skylt að leita samþykkis vegna útleigu íbúða sinna í gegnum Airbnb. Hann segir þó að íbúar hússins hafi sýnt umburðarlyndi gagnvart útleigu þessara íbúða, „og því biðjum við um að fólk sýni umburðarlyndi gagnvart hundunum líka.“

Hunda­eig­end­urn­ir hafa boðað til hunda­hitt­ings síðar í dag og hvetja þeir íbúa í hús­inu til að koma og kynn­ast hund­un­um.

Frétt mbl.is: Selja íbúðina ef hundurinn fær ekki að vera

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert