„Hvaða kynfæri ertu með? Má ég sjá?“

Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir var ein þeirra sem hélt erindi …
Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir var ein þeirra sem hélt erindi á TEDxReykjavík 2016 í dag. ljósmynd/Ben Gruber

Tvíhyggjan sem er ráðandi í hvernig samfélagið hugsar um kyn er skaðleg, þrúgandi og óraunhæf fyrir fólk og henni verður að breyta. Í TEDx-erindi sínu sagði Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir engan geta skilgreint mann sjálfan nema maður sjálfur.

„Hvaða kynfæri ertu með? Má ég sjá þau? Í hvernig nærfötum ertu? Ertu strákur eða stelpa?“

Svona hóf Ugla, sem hefur verið ötul talskona réttinda transfólks, erindi sitt á TEDx-ráðstefnu sem haldin var í Austurbæ í dag. Spurningar af þessu tagi sagði hún frekar nærgöngular og bað hún áhlýðendur um að ímynda sér að vera spurðir þeirra nokkrum sinnum í viku í fleiri ár. Sá væri raunveruleiki hennar.

Kyn fólks væri ákveðið eftir líkamlegum einkennum, þar á meðal genum og kynfærum. Fólk skilgreindi einstaklinga sem karla eða konur eftir þessum einkennum. Ugla sagði málið hins vegar ekki svona einfalt. Þessi einkenni séu svo misjöfn eftir einstaklingum að fjörutíu mismunandi blæbrigði kyns hafi verið skilgreind. Læknar gerðu hins vegar oft aðgerðir á þessu intersex-fólki til að gera það „venjulegt“, jafnvel án samþykkis eða vitundar foreldra. Þetta væri mannréttindabrot að hennar mati.

Vendipunktur þegar heimarnir tveir mættust

Ugla var skilgreind sem strákur við fæðingu vegna kynfæra hennar. Þrátt fyrir það sagðist hún aldrei hafa verið karlmaður. Venjulega væri fólk úthlutað kyni eftir kynfærum og oftast passaði það. Stundum ekki.

„Ég er dæmi um það,“ sagði hún og rifjaði upp eigin sögu.

Á unglingsárum hafi hún spilað tölvuleikinn World of Warcraft og kynnst þar fólki víðs vegar að úr heiminum. Í þeim heimi hafi hún kynnt sig sem stelpu þrátt fyrir að á þessum tíma hafi hún ekki verið búin að viðurkenna fyrir sjálfri sér að hún væri ekki strákur.

Þegar kom að því að meðspilararnir vildu fara að hittast vandaðist málið. Ugla hafði ekki sagt sálu að hún væri transmanneskja. Hún trúði hins vegar vinkonu sinni fyrir því og sannfærði hana um að koma með sér að hitta fólkið erlendis. Vinkonan fór meðal annars með Uglu að kaupa ný föt í samræmi við nýtt kynhlutverk en það þurfti að gerast með leynd. Þóttust þær því vera að leita að fötum fyrir vinkonuna.

„Þið getið ímyndað ykkur upplitið á afgreiðslufólkinu þegar við komum með föt sem pössuðu greinilega ekki á vinkonu mína,“ sagði Ugla við hlátur áheyrenda.

Hugmyndir fólks um kyn var efni erindis Uglu á TEDx.
Hugmyndir fólks um kyn var efni erindis Uglu á TEDx. ljósmynd/Ben Gruber

Úr varð að vinkonan fór með og kom í veg fyrir að Ugla hætti við á síðustu stundu þegar þær voru í þann veginn að hitta hópinn. Ugla sagði vinafundinn ekki getað hafa farið betur og þarna hafi hún loksins verið farin að lifa lífinu.

Á leiðinni heim mættust hins vegar þessir tveir heimar, sá sem hún skildi eftir heima og sá sem hún hafði skapað sér í ferðinni, þegar flugfreyjur sem hún hafði hitt í kvenlegri fötum á flugvellinum tóku á móti henni í flugvélinni í „hlutlausari“ klæðnaði.

„Þetta var vendipunktur fyrir mig. Þegar ég var 18 ára kom ég út og sagði fólki að ég væri trans,“ sagði Ugla.

Reyndi að sanna að hún væri kona

Vegferðinni var hins vegar ekki lokið þarna. Lengi vel sagðist Ugla hafa gengist upp í þessu nýja kynjahlutverki hvað varðaði áhugamál, klæðaburð, snyrtivörur og fleira. Hún hafi leikið þetta hlutverk svo að hún hafi náð að sannfæra sjálfa sig.

„Mér fannst samt alltaf að ég væri að gangast upp í staðalímynd. Ég vildi sanna að ég væri stelpa,“ sagði hún. Það þurfti hún einnig að gera bókstaflega fyrir heilbrigðisstarfsfólk í tengslum við kynleiðréttingarmeðferð. Að sannfæra það um að hún væri það sem hún vissi að hún væri.

Þegar hún áttaði sig hins vegar á því að það sem hún væri að gera væri vegna samfélagins og þeirra skilaboða sem hún fékk frá fólki í kringum sig fór Ugla að lifa meira eftir eigin höfði.

„Ég leyfði mér að vera ég. Að gera hlutina sem ég naut,“ sagði hún.

Nú skilgreinir Ugla sig hvorki sem karl né konu. Sjálf skilgreiningin sé þrúgandi. Engu að síður sé tjáning hennar nokkuð kvenleg og henni finnist ekki of óþægilegt að vera álitin kona. 

Það er hins vegar þessi tvíhyggja í hugsun fólks um kynin sem hún telur vandamálið. Kyn sé eins mikið félagslegt fyrirbæri eins og líkamlegt. Fólk hafi skapað ímyndir kynjanna en ekki náttúran. Stundum segi fólk öðrum hvað það sé ekki.

„Enginn getur skilgreint ykkur nema þið sjálf,“ lagði Ugla áherslu á.

Ugla telur tvíhyggju í hugsun fólks um kyn skaðlega fyrir …
Ugla telur tvíhyggju í hugsun fólks um kyn skaðlega fyrir einstaklinga og samfélagið allt. AFP

Pride-göngur og fánar duga ekki til

Trans- og intersex-fólk verði sífellt fyrir því að allt sem það gerir og er sé dregið í efa. Þess utan sé veruleg ógn við heilbrigði þess. Því sé hættara við þunglyndi en öðrum, margir reyni sjálfsvíg og sumum takist það. Aðgangur þessara einstaklinga að heilbrigðisþjónustu sé takmarkaður víða um heim og oft séu þeir á botni samfélagsins án möguleika á að lifa lífinu til fullnustu.

Þetta sagði Ugla aðeins eina af þeim leiðum sem hugmyndir fólks um kyn hefðu skaðleg áhrif eftir.

„Hugsunarháttur okkar um kyn er skaðlegur, þrúgandi og óraunhæfur. Hann verður að breytast,“ sagði Ugla.

Hann sé ekki aðeins skaðlegur fyrir transfólk heldur samfélagið allt því allir finni fyrir afleiðingum hans á einhvern hátt.

„Þegar eitthvað er farið að skaða fólk fyrir að vera það sjálft þá þurfum við að hugsa um hvernig við getum breytt því. Það þarf meira til en eina Pride-göngu og að veifa fánum. Það verður að tala gegn fordómum og grípa til aðgerða,“ sagði Ugla sem endaði erindi sitt á að votta baráttufólki fyrir réttindum transfólks virðingu sína sem sumt hvert hafi glatað lífi sínu vegna fordóma, mismununar og ofbeldis sem kynjahugmyndir hafi skapað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert