Köttunum fjölgar í Kattholti á sumrin

Þessi átta vikna kettlingsgrey fundust í kassa uppi við Rauðavatn …
Þessi átta vikna kettlingsgrey fundust í kassa uppi við Rauðavatn í vikunni og leita nú að nýju heimili.

Síðustu daga hefur óskilaköttum fjölgað í Kattholti, en þó nokkuð er um að fólk fái sér kött á haustin en losi sig svo við hann á ný áður en það fer í sumarfrí.  Halldóra Snorradóttir, starfsmaður í Kattholti, segir fleiri ketti hafa komið í Kattholt undanfarna daga, en vikurnar á undan.  

„Sumar kisurnar eru bara heimiliskettir sem eru að týnast af því að þær hafa farið lengra frá heimaslóðum í góða veðrinu. Þeim köttum sem eru merktir komum við fljótt heim aftur, en svo eru aðrir sem enginn spyr eftir og því miður líka kettir sem hafa verið yfirgefnir,“ segir Halldóra. „Við fengum t.d. þrjá átta vikna gamla kettlinga sl. þriðjudag sem höfðu verið skildir eftir í kassa uppi við Rauðavatn,“ segir hún og tekur fram að kettlingarnir séu greinilega ekki undan villiketti.

Algengast er að læður gjóti á vorin og sumrin og þá geta þeir sem ekki hafa látið taka köttinn úr sambandi lent í vandræðum. „Það eru alltaf einhverjir sem finna ekki eða nenna ekki að finna heimili fyrir kettlingana. Sumum hugkvæmist þá sú lausn að skilja kettlingana eftir í kassa úti á víðavangi eða fyrir framan dyrnar hjá okkur,“ segir Halldóra og segir þetta vissulega vera vandamál því færri séu að taka að sér kött í kringum sumarleyfistímann.

Frá einum og upp í tíu ketti á dag

Núna eru í kringum 45 kettir í Kattholti sem ýmist eru týndir, yfirgefnir eða í heimilisleit.  „Svo búumst við við meiri fjölgun í sumar og þá getum við verið að fá frá einum og upp í tíu ketti á dag. Þannig að Kattholt getur verið mjög fljótt að fyllast.“ Hún segir þó oft ganga ágætlega að finna ný heimili fyrir kettina, enda komi fólk nánast daglega í Kattholt til að skoða. „Kettlingarnir eru vinsælli, en svo kemur hingað líka fólk sem óskar sérstaklega eftir því að taka að sér fullorðinn kött.“

Kattahótelið í Kattholti er vinsæll kostur hjá mörgum kattaeigendum. „Við erum að fá inn mikið af nýjum köttum sem ekki hafa komið hingað áður í bland við fastagesti,“ segir Halldóra og bætir við að gistingin sé ekki dýr.

„Þetta er góður kostur fyrir kattaeigendur, því kettir eiga það til að stinga af þegar þeir eru skildir eftir einir heima og það kemur eingöngu einhver til að að gefa þeim. Þeir sakna þá eigendanna og láta sig hverfa. Þetta eru líka kettir sem við erum að fá til okkar á sumrin þannig að við mælum sterklega með því að koma þeim fyrir á öruggum stað áður en farið er í fríið.“

Fólk duglegra að örmerkja

Mikið  úrval af kattasíðum á Facebook hefur haft áhrif á starfsemi Kattholts og dregið úr álaginu. Í dag komist margir týndir kettir heim til sín án þess að hafa komið í Kattholt.

„Í dag er það fyrsta sem fólk gerir þegar það týnir eða finnur kött það er að leita á þessar kattasíður. Þar setur það inn mynd og upplýsingar og athugar hvort einhver kannist við kisa,“ segir Halldóra. „Næsta skref er síðan að hafa samband við okkur og við auglýsum köttinn þá á okkar síðu. Síðan er það oft það síðasta sem fólk gerir ef þetta skilar ekki árangri, það að koma með kettina hingað í Kattholt.“

Ný dýravelferðarlög sem fyrirskipa örmerkingu katta hafa líka haft sín áhrif. „Það lítur út fyrir að fólk sé núna duglegra að örmerkja kettina sína og það auðveldar okkur líka að koma þeim heim á ný.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert