Leið Vilborgar Örnu Gissurardóttur að því að verða atvinnuævintýrakona hófst á sófanum hennar fyrir fjórtán árum og hefur síðan verið stráð sigrum en einnig tárum og þjáningu. Hún sagði gestum á TEDxReykjavík 2016 að hjartað sé besti áttavitinn og því ættu þeir að fylgja.
Vilborg Arna leit yfir farinn veg í erindi sínu og lagði áherslu á mikilvægi þess að setja sér markmið. Hennar einnig vegferð hafi hafist á sófanum heima þegar hún var að fletta bókum um ævintýraleiðangra. Tíu árum síðar hafi hún verið komið á Suðurskautslandið að hefja skíðaferð sína á suðurpólinn.
„Ég hvet ykkur til að dagdreyma. Ef þið látið ykkur dagdreyma nógu mikið gætuð þið komist þangað á endanum,“ sagði pólfarinn.
Markmiðin þyrftu hins vegar ekki að vera svo stór eins og að skíða eins síns liðs á suðurpólinn eða klífa sjö hæstu tinda jarðar á einu ári eins og hún ákvað undir lok leiðangurs síns á Suðurskautslandinu. Vilborg Arna sagði það mikilvæga vera að setja sér markmið og vinna að þeim skref fyrir skref.
Þrátt fyrir að hún hafi verið algerlega úrvinda þegar hillti undir pólinn ákvað hún þá og þar að reyna við tindana sjö. Þremur mánuðum síðar var hún kominn á Denali, hæsta tind Norður-Ameríku.
„Ég var farin að lifa drauminn, að lifa lífinu sem ég hafði lesið um fjórtán árum áður,“ sagði Vilborg Arna sem lýsti hvernig hún hafi eignast minningar á ferðum sínum um heiminn með fólki sem hún muni aldrei gleyma. Hún hafi komið til staða á jarðkringlunni sem ekki margir fái tækifæri til að sjá. Sérstaklega hafi dvöl hennar í þriðja heiminum breytt sýn hennar á lífið.
Vilborg Arna gerði tvær tilraunir til að leggja á Everest, hæsta fjall jarðar, en í bæði skipti gripu örlögin í taumana. Árið 2014 var hún í grunnbúðunum þegar snjóflóð olli mesta mannskaða sem orðið hefur í sögu fjallsins. Aðeins ári seinna kom jarðskjálftinn sem reið yfir Nepal í veg fyrir seinni tilraun hennar. Hún fór yfir reynsluna með gestum TEDx.
„Ég las um stóra slysið árið 1996 á Everest en aldrei hefði mig dreymt um að ég yrði vitni að næsta stóra slysi í sögu fjallsins. Nú hef ég gert það tvisvar,“ sagði Vilborg Arna.
Morguninn sem snjóflóðið skall á í apríl fyrir tveimur árum sagðist Vilborg Arna hafa vaknað við ógnvænlegustu drunur sem hún hafi nokkru sinni heyrt. Þá þegar hafi hún vitað að eitthvað stórt hafi gerst en ekki grunað hversu stórt. Í fyrstu hafi hún haldið að hljóðið hafi komið úr fjarska en hún hafi haft rangt fyrir sér.
Snjóflóðið lenti á hópi fjallgöngumanna og glötuðu sextán sjerpar lífinu, þar á meðal þrír úr leiðangri Vilborgar Örnu. Hún sagðist hafa boðið björgunarsveitum sem fóru að flóðinu aðstoð en hafi reynt að gera sitt besta í sjúkratjaldinu.
„Engin orð geta nálgast það að hugga einhvern sem hefur lent í harmleik eins og þessum,“ sagði Vilborg Arna sem brotnaði saman þegar hún kom aftur inn í tjaldið sitt um kvöldið.
„Ég reyndi að hringja í fjölskyldu mína en ég gat það ekki heldur grét og grét. Ég var yfirkomin af sorg.“
Leiðangrinum var aflýst í kjölfarið og segir Vilborg Arna að það hafi verið það rétta í stöðunni.
Þegar heim var komið reyndist lífsreynslan hafa tekið sinn toll af ævintýrakonunni. Hún segist hafa verið reið og þjáðst mikið. Hún hafi ekki einu sinni getað gengið á Esjuna á þessu tímabili. Sjúkraþjálfari og sálfræðingur hafi hins vegar hjálpað henni að komast yfir líkamleg og andleg sár en um leið setti hún sér nýtt markmið: að klífa Cho Oyu, sjötta hæsta tind jarðar sem einnig er í Himalajafjöllum.
„Það er svolítil klikkun þegar maður getur ekki einu sinni klifið Esjuna!“ sagði Vilborg Arna.
Vinur hennar heltist snemma úr lestinni vegna veikinda en Vilborg Arna ákvað að halda ótrauð áfram og án aðstoðar leiðsögumanna eða aukasúrefnis. Á leiðinni hafi hún mætt hópi þar sem einn göngumannanna var fárveikur og hinir örmagna. Eftir það hafi hún verið á báðum áttum um hvað hún vildi. Vinur hennar stappaði hins vegar í hana stálinu og nokkrum vikum síðar hafi hún verið tilbúin að leggja á lokahjallann.
Leiðin upp á topp var seinfarin. Hún gat aðeins tekið tíu skref í einu og þurfti þá að stoppa, anda og hvíla sig. Jafnvel þó að ferðin hafi unnist seint þá hafi hvert skref verið skref í átt að markmiðinu.
Í búðum á leiðinni hafi hún verið að niðurlotum komin og ekki viss um að hún vildi halda áfram. Í þeirri stöðu sagði Vilborg Arna mikilvægt að fólk tæki sér hlé og hvíldi sig, spyrði sig hvað það væri að gera og hvert markmiðið væri. Ef svarið fyndist ekki strax þyrfti fólk að grafa dýpra þar til það kæmi fram. Eftir þetta gat hún haldið för sinni áfram.
Augnablikið sem hún komst á tind fjallsins var stærra en hún hafði ímyndað sér. Þá varð hún fyrsta konan sem hafði farið ein á suðurpólinn og á einn af tindum heims sem teygja sig upp í meira en 8.000 metra hæð.
„Það gerðist bara vegna þess að ég horfðist í augu við ótta minn,“ sagði Vilborg Arna.
Á tindinum sá hún Everest-fjall og vissi þá að hún myndi reyna aftur við það. Jarðskjálftinn í fyrra gerði hins vegar út um þær vonir. Sagðist Vilborg Arna ekki viss um að hún myndi reyna gönguna aftur en hún myndi vissulega snúa aftur til Nepal.
„Ef þú átt þér draum eða vilt setja þér markmið er það alltaf þess virði, sama hvað aðrir halda vegna þess að hjartað er besti áttavitinn. Það er áttavitinn sem þið ættuð öll að fylgja,“ sagði Vilborg Arna.