Hálendið betra heilt en vel gróið

Hálendi Íslands er sláandi hjarta þess að mati Tómasar.
Hálendi Íslands er sláandi hjarta þess að mati Tómasar. mbl.is/RAX

Fáir Íslendingar hafa komið á hálendið þrátt fyrir að það sé raunverulegt hjarta landsins. Erfitt er að þekkja slíkan fjársjóð og taka ákvarðanir um verndun hans þegar fólk hefur ekki séð hann. Tómas Guðbjartsson hjartalæknir segir bestu leiðina til umhverfisverndar að fara með fólk á staðinn.

Hálendið sem hjarta Íslands var megininntak erindis Tómasar á TEDxReykjavík 2016 sem fór fram um helgina. Þar lýsti hann sérstökum tengslum sínum við hálendið sem hann sagðist alinn upp á að hluta því foreldrar hans hafi ferðast um það í æsku hans.

„Þau útskýrðu fyrir okkur þennan magnaða heim og við lærðum að virða náttúruna. Ég hef reynt að skila því áfram til barnanna minna,“ sagði Tómas sem hefur í gegnum tíðina unnið sem fjallaleiðsögumaður og farið með þúsundir ferðamanna um hálendið undanfarin þrjátíu ár. Það standi því hjarta hans nærri.

Skilur eftir sig ör á hálendinu

Fá lönd sagði Tómas státa af eins fjölbreyttu landslagi og jarðfræði og Ísland. Samspil elds og íss sem enn sé í gangi geri það svo sérstætt. Óbyggðir Íslands séu djásnið í krúnu þess. Þær séu gersemi sem nauðsynlegt sé að vernda fyrir komandi kynslóðir, og heimbyggðina alla, þar sem þeim sé ógnað af skammsýnum verkefnum.

„Íslendingar hafa miklum skyldum að gegna við að vernda þær. Náttúruvernd ætti að vera eitt helsta verkefni okkar og ég tel að það verði það í nánustu framtíð,“ sagði Tómas.

Virkjanaframkvæmdir, fjöldatúrismi og utanvegaakstur voru á meðal þess sem Tómas sagði ógna óbyggðum Íslands um þessar mundir. Dýrt væri að framleiða raforku sem færi að langmestu leyti í stóriðju. Það kostaði ör í náttúrunni, sérstaklega í óbyggðunum sem væru brotnar upp með uppistöðulónum og háspennulínum.

„Það samræmist ekki hugmyndum um sjálfbæra ferðamennsku eða óspjallaða náttúru,“ sagði Tómas og benti á að langflestir erlendir ferðamenn nefndu náttúruna sem ástæðu fyrir komu sinni til landsins.

Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlæknir á TEDxReykjavík 2016.
Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlæknir á TEDxReykjavík 2016. ljósmynd/Ben Gruber

Fái að sjá sláandi hjartað með eigin augum

Næsta mikilvæga skrefið við verndun hálendisins sagði Tómas að stofna þjóðgarð utan um það. Fjöldi skoðanakannana hafi sýnt stuðning meirihluta landsmanna og kjósenda allra flokka við þá hugmynd. Reynsla af þjóðgörðum væri góð á Íslandi. Stefnt væri að því að koma Vatnajökulsþjóðgarði á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna og enginn iðrist þess í dag að hafa verndað Hornstrandir á sínum tíma.

„Stjórnmálamenn verða að hafa kjark til að taka ákvarðanir sem voru teknar á 8. og 9. áratuginum,“ sagði Tómas og lagði áherslu á að þetta þyrfti að gerast strax, ekki eftir tíu ár.

Bæta þurfi innviði landsins til að taka við vaxandi fjölda ferðamanna, til dæmis með göngustígum og salernum. Þá sagðist Tómas trúa sterklega á menntun og fræðslu. Mikilvægt sé að fræða almenning um svæðin og gildi þeirra og kenna skólabörnum að virða þau.

„Vandamálið er að fáir Íslendingar hafa komið á hálendið. Það er erfitt að þekkja fjársjóðinn ef þú hefur ekki komið þangað og enn erfiðara þegar á að ákveða hvort það eigi að vernda hann. Reynsla mín er sú að besta leiðin til umhverfisverndar sé að fara með fólkið á svæðið. Leyfa því að sjá sláandi hjartað,“ segir læknirinn.

Sama er satt fyrir mannshjartað og hálendið

Tómas sagðist bjartsýnn að eðlisfari en staðreyndirnar geri hann áhyggjufullan nú. Ríkisstjórnin verði að breyta um stefnu og vernda þurfi náttúruna. Ekki sé þörf á fleiri stíflum, uppistöðulónum, háspennulínum eða hraðbrautum.

Íslendingar verði að segja stopp og gera sér grein fyrir því að hálendið er meira virði óspjallað en markað af iðnaði. Nefndi Tómas orðatiltækið: „Betra er heilt en vel gróið“.

„Það er afar satt fyrir mannshjartað en það er einnig satt um íslenska hálendið,“ sagði Tómas.

Hálendið er Tómasi hjartans mál.
Hálendið er Tómasi hjartans mál. ljósmynd/Ben Gruber
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert