Í allt öðrum veruleika en venjulegt fólk

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Styrmir Kári

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í eldhúsdagsræðu sinni á Alþingi í kvöld Panamaskjölin hafa sýnt það svart á hvítu að tvær þjóðir búi í þessu landi. Ein legði mikið á sig til að ná endum saman en hin byggi í allt öðrum veruleikum.

„Hún hefur aðgang að fólki og fjármagni sem við hin höfum ekki. Tekur lán í erlendri mynt á mun lægri kjörum en aðrir geta nokkurn tíma látið sig dreyma um. Og sumir fara jafnvel með peningana sína í skjól frá íslenskum skattayfirvöldum,“ sagði hún.

En fæst okkar vildum hafa þetta svona.

„Ég held að við viljum flest að fólk geti haft það gott á Íslandi og jafnvel grætt dáldið af peninginum. Og það er ekkert að því að efnast vel.

En á sama tíma viljum við að tækifærin til þess séu jöfn, að það séu ekki til hópar sem fái sérmeðferð. Við viljum að þegar hlutabréf eru boðin út á okkar litla landi hafi allir sömu tækifæri til að fjárfesta, við viljum að þegar fyrirtæki eru seld út úr fjármálastofnunum sé söluferlið gagnsætt og allir eigi jafnan möguleika á að fjárfesta. Það verður ekki fyrr en stjórnvöld og atvinnulífið allt fara undir öllum kringumstæðum að vinna í anda gagnsæis og skýrleika í ferlum, að við getum búist við því að traust fari að skapast á ný í okkar samfélagi,“ nefndi Katrín í ræðu sinni.

Hún beindi sjónum að hópi í samfélaginu sem hún sagði samfylkingarfólk hafa miklar áhyggjur af: Unga fólkinu, sem réttara væri að kalla gleymdu kynslóðina.

Þetta væri fólkið sem stæði til að mynda frammi fyrir því að framhaldsskólinn væri fjársveltur og lokaður fyrir 25 ára og eldri.

Mikil þörf væri fyrir aukna fjármuni í háskólastigið. Þar væri mikið til keyrt á stundakennurum á „lúsarlaunum“. Framfærsla námslána væri of lág og nú ætlaði ríkisstjórnin að fara að hækka vextina og þyngja endurgreiðslubyrðina.

„Hvaða áhrif mun það hafa ef áætlanir ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga að afnema tengingu við tekjur fyrir til dæmis leikskólakennara með fimm ára nám á bakinu?“ spurði Katrín.

Næstu kosningar snúist um unga fólkið

Þá væru húsnæðismálin í ólestri. Húsaleigan himinhá, fasteignaverð himinhátt og vaxtabæturnar færu sílækkandi.

Eins hefðu hámarksgreiðslur fæðingarorlofs staðið í stað allt kjörtímabilið með þeim afleiðingum að færri karlar væru að taka orlof og fæðingum hefði fækkað. „Hverjir eiga að standa undir samfélaginu þegar okkar kynslóðir fara á eftirlaun með þessu áframhaldi?“

Jafnaðarmenn vildu fjárfesta í unga fólkinu og því þyrfti að snúa af þessari braut. Brýnt væri að opna framhaldsskólann aftur og tryggja þeim fjármuni, taka upp styrki til framfærslu á háskólastigi en gæta vel að endurgreiðslubyrðinni svo nám borgi sig. Þá þyrfti að grípa til víðtækra aðgerða á húsnæðismarkaði til að tryggja aðgengi að ódýrara leiguhúsnæði sem jafnframt væri öruggt ásamt öflugum stuðningi við leigu og kaup á húsnæði.

„Næstu kosningar verða að snúast um þessa gleymdu kynslóð og ég skora á okkur öll hér inni að taka málefni þeirra föstum tökum, koma okkur upp úr þessum bitru skotgröfum og fortíðarhjakki og fjárfesta í framtíðinni,“ sagði Katrín að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka