LÍN-frumvarpið í 15 lykilatriðum

Í frumvarpsdrögunum er heildarendurskoðun á lögum um LÍN.
Í frumvarpsdrögunum er heildarendurskoðun á lögum um LÍN. mbl.is/Hjörtur

Hámarkslánveitingar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) til einstakra námsmanna munu nema 15 milljónum. Hver námsmaður mun til viðbótar geta fengið tæplega þriggja milljóna styrk verði nýtt frumvarp menntamálaráðherra samþykkt. Samhliða því verður fallið frá kvöðum um hámarkslán á ákveðnu námsstigi.

Frumvarpið má lesa í heild á vef Alþingis.

Í frumvarpinu er lagt til að lánakjör verði hækkuð úr 1% verðtryggðum vöxtum í dag upp í 2,5% ásamt 0,5% álagi til að mæta væntum afföllum. Þá verður sett skilyrði um að ekki hafi þurft að afskrifa námslán hjá viðkomandi áður og munu afborganir námslána hefjast einu ári eftir að námi lýkur í stað tveggja. Á móti kemur að hægt verður að sækja um greiðslufrest upp á 60 mánuði til að auðvelda ungu fólki íbúðarkaup, en þá bætast reiknaðar endurgreiðslur við höfuðstólinn.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra.
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Með framfærsluláni og námsstyrk munu námsmenn geta fengið 100% af framfærsluviðmiði sjóðsins, en í dag er það 92%. Er styrkurinn 65 þúsund krónur á mánuði til viðbótar við 122 þúsund króna lán á mánuði, níu mánuði ársins. Verður því ráðstöfun námsmanns 187 þúsund samanlagt eftir breytinguna.

Einnig verður settur á hámarksaldur fyrir lánþega og að endurgreiðsla láns verði til að hámarki 40 ára.

Helstu efnisatriði og nýmæli frumvarpsins, eins og þau koma fram í athugasemdum við lagafrumvarpið:

Í fyrsta lagi ber að nefna að sú námsaðstoð sem sjóðurinn veitir mun ekki einungis verða í formi lána á hagstæðum kjörum heldur verður aðstoðinni skipt í beinar styrkgreiðslur og lán. Þá geta námsmenn ákveðið að taka eingöngu styrk eða styrk og lán eða jafnvel lán að hluta. Gert er ráð fyrir að aðstoð sjóðsins hækki úr 92% af framfærsluviðmiði sjóðsins í 100% í níu mánuði ársins. Námsstyrkurinn verður 65.000 kr. á mánuði í alls 45 mánuði sem svarar til fimm hefðbundinna skólaára. Heildarstyrkur getur því numið 2.925.000 kr. miðað við fulla námsframvindu. Hámarksstyrkur miðast við að lokið sé 30 ECTS-einingum á misseri eða FEIN-einingum eftir því sem við á. Fjárhæð námsstyrks tekur breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs. Fyrir sumarnám er greiddur styrkur í þrjá mánuði að því gefnu að lokið sé 20 ECTS-einingum.

Í öðru lagi er veitt námsaðstoð til að hámarki 420 ECTS-eininga eða í sjö ár óháð námsferli en í dag er í úthlutunarreglum miðað við 480 ECTS-einingar en settar eru girðingar varðandi einstök námsstig, t.d. er eingöngu lánað til 180 eininga í bakkalárnámi.

Í þriðja lagi hefur aldur áhrif á veitingu námsaðstoðar. Þannig verður ekki veitt námsaðstoð til einstaklinga sem orðnir eru 60 ára eða eldri. Þá verður námsaðstoð takmörkuð eftir 50 ára aldur, þannig að hún verður 90% af fullri aðstoð við 51 árs aldur og lækkar um 10% á ári og verður þannig við 59 ára aldur 10% af fullri aðstoð. Er þetta í samræmi við það sem gildir í Svíþjóð og Noregi. Í Svíþjóð takmarkast námslánamöguleikar frá 47 ára aldri og við 57 ára aldur hefur námsmaður engan rétt til námsaðstoðar. Í Noregi takmarkast námslánamöguleikar við 45 ára aldur á þann hátt að námsmaður verður að geta greitt námslánið til baka fyrir 65 ára aldur. Námsmenn í Noregi fá ekki námsstyrk eftir 65 ára aldur.

Í fjórða lagi er kveðið á um að hámark veittrar aðstoðar sjóðsins nemi að frádregnum námsstyrk 15 m.kr., þ.e. með námsstyrk tæplega 18 m.kr.

Í fimmta lagi er gert ráð fyrir að almennur endurgreiðslutími námslána verði 40 ár, en þó þannig að lántaki greiði lánið upp fyrir 67 ára aldur. Greiddar verða mánaðarlegar afborganir.

Í sjötta lagi er kveðið á um að vextir af lánum sjóðsins fyrir hvert skólaár skuli vera 2,5% að viðbættu álagi sem jafngildir væntum afföllum af endurgreiðslu námslána. Álag skal ákveðið í úthlutunarreglum hvers árs.

Í sjöunda lagi verður hægt að sækja um frestun á endurgreiðslu námslánanna vegna atvika sem valda tímabundnum fjárhagsörðugleikum í eitt ár í senn en að hámarki í þrjú ár samanlagt. Þá verður hægt að sækja um heimild til að fresta helmingi hverrar endurgreiðslu námslána vegna fyrstu kaupa á íbúðarhúsnæði í allt að 60 mánuði til að auðvelda ungu fólki íbúðarkaup. Við frestun endurgreiðslu er gerð skilmálabreyting og reiknuðum endurgreiðslum lánsins á freststímabilinu bætt við höfuðstól lánsins.

Í áttunda lagi er sett það skilyrði fyrir námsaðstoð að sjóðurinn hafi ekki áður þurft að afskrifa lán hjá viðkomandi einstaklingi.

Í níunda lagi er kveðið á um að aðfaranám eða svokallað frumgreinanám fyrir einstaklinga sem orðnir eru 23 ára verði aðstoðarhæft. Hins vegar verður nám sem skipulagt er með vinnu ekki aðstoðarhæft.

Í tíunda lagi er sjóðnum gert að leita umsagnar frá Eric/Naric Upplýsingaskrifstofu Íslands vegna náms erlendis ef vafi leikur á aðstoðarhæfi náms erlendis. Þá er veitt heimild til þess að leita umsagnar Menntamálastofnunar eða annars fagaðila ef ástæða þykir til við mat á aðstoðarhæfi náms hér á landi. Ákvörðun um aðstoðarhæfi náms verður áfram hjá stjórn sjóðsins.

Í ellefta lagi er skilgreindur réttur íslenskra og erlendra ríkisborgara til námsaðstoðar. Sérstaklega er kveðið á um rétt ríkisborgara EES-ríkja sem eru launþegar og/eða sjálfstætt starfandi hér á landi ásamt rétti aðstandenda þeirra til námsaðstoðar. Þá eru ákvæði um námsaðstoð til einstaklings sem er með dvalarleyfi sem flóttamaður eða búsetuleyfi hér á landi.

Í tólfta lagi er tiltekið að kröfur samkvæmt skuldabréfum sjóðsins fyrnist á tíu árum.

Í þrettánda lagi er lagt til að kröfur vegna námslána verði undanþegnar 2. og 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Með því þarf lánasjóðurinn ekki að höfða sérstök viðurkenningarmál til að leitast við að fá tveggja ára fyrningarfresti eftir gjaldþrot slitið.

Í fjórtánda lagi verður veitt tímabundin heimild fyrir lántaka eldri námslána til að fá viðbótarniðurfærslu af höfuðstól námsláns gegn greiðslu aukaafborgunar. Þannig verður fyrir hverja aukaafborgun að fjárhæð 100.000 kr. veitt 10.000 kr. viðbótarniðurfærsla eftirstöðva. Gildir þessi heimild til 31. desember 2021.

Í fimmtánda lagi er gert ráð fyrir að endurgreiðslur námslána hefjist einu ári eftir að námi lýkur í stað tveggja ára líkt og nú er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert