Lánasjóður íslenskra námsmanna (LÍN) mun að hámarki veita námsaðstoð í formi námsláns í sjö ár, óháð námsferli, í stað átta ára í dag, verði nýtt frumvarp til laga um sjóðinn samþykkt óbreytt miðað við tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu. Einar Pétur Heiðarsson, sem situr í stjórn Félags doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands (FeDoN), segir í samtali við mbl.is að um sé að ræða óraunhæfa kröfu ef þetta eigi að vera tilraun til að stytta doktorsnám niður í tvö ár.
Einar bendir á að lengd grunnnáms við Háskóla sé almennt þrjú ár og við taki svo tveggja ára meistaranám. Þá séu aðeins eftir tvö ár samkvæmt núverandi tillögum. Segir hann að sé horft á tölfræði doktorsnáms í dag megi sjá að flestir klári námið á meira en fimm árum. „Ég held að stúdentar séu ekki að fara að klára doktorsnám á tveimur árum, hvort sem námslánin kalli á það eða ekki,“ segir Einar og bætir við: „Það er bara óraunhæf krafa.“
Meðaltími doktorsnáms hér á landi hefur verið að lengjast undanfarin ár, en árið 2014 var hlutfall þeirra sem eru meira en 6 ár að sinna náminu tæplega 40%. Hefur sá fjöldi aukist úr 13% árið 2009.
Einar segir að undirliggjandi sé margra ára umræða um hvernig byggja eigi upp doktorsnám og styrkjaumhverfi fyrir það hér á landi. Þannig hafi námið í raun ekki verið að þróast raunverulega nema í 10-20 ár. Undanfarin ár hafi fjármögnun á doktorsnámi og rannsóknarstarfi verið mikið í deiglunni og segir Einar að líklegast verði svo áfram. „Þetta frumvarp er ekki að fara að leysa það mál að einu eða neinu leyti.“ Vísar hann til orða rektors Háskóla Íslands um að þeirri stefnu sem hafi verið sett til framtíðar í menntamálum þjóðarinnar hafi ekki fylgt það fjármagn sem til þurfi.
Hann segir að doktorsnemar myndu fagna því ef námslánin til þeirra myndu falla út, en að þá þyrfti umgjörðin í heild að breytast með því, hvort sem um væri að ræða aukna styrkveitingu til námsins eða til ákveðinna verkefna t.d. í gegnum styrktarsjóði.
Segir Einar að þar sem ekki sé í spilunum sér að vitandi að leggja niður doktorsnám hér á landi hljóti eitthvað að eiga að koma í staðinn fyrir þessar fyrirhuguðu breytingar. Segir hann að æskilegt væri að doktorsnemum væri tryggð fjármögnun áður en þeir héldu í námið, hvort sem það væri í gegnum rannsóknarstöð eða stofnun sem myndi tryggja fjármagnið. Slíkt þekktist víða erlendis og þá væru ekki doktorsnemar teknir inn nema slík fjármögnun væri full frágengin.
Hann á von á því að FeDoN muni kalla eftir fundi með ráðherra þegar frumvarpið hefur verið birt, auk þess að fara yfir stöðuna með öðrum hagsmunasamtökum nemenda, svo sem Stúdentaráði Háskóla Íslands og Landssambandi stúdenta.
Árið 2014 voru 510 doktorsnemar við Háskóla Íslands, en þar stunda lang flestir doktorsnemar nám sitt hér á landi. Til viðbótar bætast við nokkrir nemendur við Háskólann í Reykjavík og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Um 25% nemendanna eru erlendir. Meðalaldur nemenda er 39 ár. Á árinu 2014 var meðalnámslengd brautskráðra doktora frá HÍ í 39% tilvika meira en 6 ár. 28% voru 5-6 ár og 33% undir 5 árum.