Ungt fólk kallar ekki eftir ölmusu

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar

Ungt fólk kallar ekki eftir ölmusu, heldur tækifærum til þess að nýta hugvit sitt. Þetta sagði Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld.

Við þyrftum að sjá til þess að hér yrði frelsi til athafna, frelsi til að synda á móti straumnum og frelsi til að láta drauma sína rætast. 

Áköll unga fólksins sneri að því að við færum að þora að gera hlutina öðruvísi.

Vilhjálmur nefndi að í svari ráðuneyta við fyrirspurn sinni um aldursdreifingu stjórnenda hjá ráðuneytum og stofnunum hefði komið í ljós að við værum síst að nýta krafta ungs fólks. Þessu þyrftum við að breyta.

„Þó höfum við verið að stíga skref í rétta átt og haft hugrekki til að gera þó nokkrar breytingar þar sem ný hugsun er við lýði. Má þar fyrst nefna nýframkomið frumvarp um Lánasjóð íslenskra námsmanna, þar sem nemendur eru styrkir fyrir eðlilega námsframvindu,“ nefndi hann.

Í annan stað mætti nefna nýtt greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu. Með því væri verið að tryggja að þeir sem þurfa mest á þjónustunni að halda hefðu ekki fjárhagsáhyggjur ofan í alvarleg veikindi.

Í þriðja lagi mætti síðan nefna að fjölbreytt rekstrarform í heilsugæslunni leyfði okkur að nýta fjármuni mun betur. „Bestu fréttirnar eru hins vegar þær að við erum hætt að heyra fréttir af skorti á heimilislæknum eftir að áform um þrjár nýjar heilsugæslustöðvar voru kynnt. Með nýju fyrirkomulagi sjáum við endurvakinn áhuga unglækna til þess að starfa á Íslandi,“ sagði hann.

Þessi dæmi sýndu að aukið fjármagn væri ekki endilega forsenda árangurs.

Vilhjálmur sagði að til þess að Íslendingar kæmust áfram þyrftum við að taka samtalið um hugsjón, í stað þess að ausa skömmum yfir hvert annað.

„Slík umræða er einnig mikilvæg til að auka áhuga ungs fólks á stjórnmálum en það lítur ekki við umræðu þar sem allir eru að saka hver annan um dónaskap um spillingu og verkleysi.

Ég kalla því eftir að við í stjórnmálunum verjum meiri tíma til þess að ræða hvers konar aðstæður við viljum byggja upp hér á landi og hvers konar tækifæri. Því öflug framtíðarsýn er besta vopnið til þess að tryggja að ungt fólk vilji áfram byggja þetta land,“ sagði Vilhjálmur.

Frá Alþingi í kvöld.
Frá Alþingi í kvöld. mbl.is/Styrmir Kari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka