„Við verðum ekki sögulaus flokkur“

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í kvöld.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í kvöld. mbl.is/Styrmir Kari

„Við verðum ekki sögulaus flokkur. Við erum stolt af afrekum við stjórn landsins á örlagatímum og Samfylkingin ein hefur staðið að öllum þeim ákvörðunum sem þurft hefur að taka til að koma Íslandi á réttan kjöl,  hvort sem við vorum í stjórn eða stjórnarandstöðu.“

Þetta sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í eldhúsdagsræðu sinni á Alþingi í kvöld.

„Við sveiflumst ekki eftir gusti tíðarandans og segjum ekki eitt í dag og annað á morgun. Við þekkjum líka þau mistök sem við höfum gert, höfum gengist við þeim og erum fyrir vikið ólíklegri en aðrir til að gera þau á nýjan leik,“ bætti hann við.

Það væri ekki nóg að meina vel ef leiðarvísinn skorti. Jafnaðarstefnan væri sú rót sem Samfylkingin sótti til næringu og styrk.

Markmið jafnaðarstefnunar væri að beita ríkisvaldinu í almannaþágu. Gefa öllum tækifæri, auka vald fólks yfir eigin lífi, styðja þá sem minna hafa til sjálfstæðis og tryggja frelsi fólks undan kúgun feðraveldis, auðs eða ríkisvalds.

Jafnaðarstefnan ógnaði kyrrstöðu og hún ógnaði sérhagsmunum, því hún krefðist almennra leikreglna. „Hún ógnar möguleikum ráðandi afla að skammta sér aðstöðu, hygla vildarvinum og deila með sér völdum. Þess vegna hefur það alltaf verið og er enn örþrifaráð valdamanna að spyrða alla þá sem ógna óbreyttu ástandi við Samfylkinguna. Við tökum því sem hrósi,“ sagði Árni Páll.

Grundvallarbreyting á íslensku samfélagi

Hann sagði það skipta máli, óháð því hverjir stjórna, að þjóðin afsalaði ekki valdinu til stjórnvalda og lúti þögul óstjórn og röngum ákvörðunum.

Að því leyti hefði orðið grundvallarbreyting á íslensku samfélagi. Þjóðin gæti veitt ríkisstjórnum aðhald og knúið fram aðgerðir og svör.

„Hún gerði það með fjöldamótmælum í apríl og þess vegna verður kosið í haust. Þess vegna sagði líka forsætisráðherra Íslands af sér, í fyrsta sinn í lýðveldissögunni. Og þjóðin setti ríkisstjórninni líka stólinn fyrir dyrnar fyrir tveimur árum þegar hún vildi draga umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu til baka og svíkja loforð um að leggja slíka ákvörðun fyrir þjóðina. Þess vegna gafst ríkisstjórnin upp á að draga umsóknina til baka, þess vegna er aðildarumsóknin enn í gildi og þess vegna mun nýr þingmeirihluti geta lagt til við þjóðina að þráðurinn í aðildarviðræðum verði tekinn upp að nýju.

Þetta er nýr veruleiki. Umboð næsta þings og næstu ríkisstjórnar verður takmarkaðra en var á árum áður. Fram undan er að breyta stjórnmálunum til samræmis og finna fleiri farvegi fyrir þjóðina til að hafa úrslitaáhrif í stórum málum,“ sagði hann.

Vinnum saman að góðum málum

Okkur hafi flest tekist vel í glímunni við hrunið og eftirleik þess. Efnahagslífið væri í blóma og allar forsendur til að Ísland eigi bjarta framtíð.

„En stjórnmálin og þjóðmálaumræðan utan þessa húss hafa markast af harðvítugum átökum og óvægnari orðræðu en dæmi eru um. Samt er það svo að um mikilvægustu ákvarðanirnar frá hruni hefur verið víðtæk samstaða á vettvangi stjórnmálanna og enn erum við saman að vinna að góðum málum.

Nýjasta dæmið eru ný frumvörp um húsnæðismál, sem vonandi verða að lögum á næstu dögum. Við í Samfylkingunni höfum lengi kallað eftir aðgerðum til úrlausnar þessa brýna vanda og teljum svo sem ekki nógu langt gengið að öllu leyti. En við munum standa með verkalýðshreyfingunni og ríkisstjórnarflokkunum að þessum framfaraskrefum. Þetta fordæmi á að verða okkur öllum hvatning um að finna nýjan takt í því hvernig við tölum saman, því þrátt fyrir allt getum við náð saman um svo margt okkur öllum til heilla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka