Ósanngjarnt er að gefa börnum ekki tækifæri til að læra tölvunarfræði og forritun sem er lykilhluti af læsi á 21. öldinni. Þetta sagði Vignir Örn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Radiant Games, á TEDxReykjavík 2016 um helgina. Það sé nauðsynlegt svo fólk skilji heiminn í kringum sig.
Vignir Örn lýsti hrifningu sinni af tölum og stærðfræði þegar hann var barn. Hann hafi meðal annars lesið veðurspár og símaskrána því þar var svo margar tölur að finna. Snemma bað hann móður sína um að leggja fyrir sig stærðfræðidæmi frekar en að syngja hann í svefn. Það hafi hjálpað honum að slaka á.
Þegar hann kom upp í háskóla þar sem hann hugðist læra stærðfræði kom honum spánskt fyrir sjónir að á fyrsta ári var skylduáfangi í forritun. Hann hafi hins vegar fljótt komist að því að rökrétt ástæða væri fyrir því og fljótt. Tölvur séu alltumlykjandi og móti líf okkar á margvíslegan hátt.
„Samt sem áður skilur flest fólk ekki hvernig á að láta tölvur gera nýja og frumlega hluti,“ sagði Vignir Örn.
Heill heimur hafi opnast fyrir honum og samnemendum hans þegar þeir hafi lært forritun í háskólanum. Hann hafi í raun verið vonskinn að hafa ekki kynnst tölvunarfræði fyrr á lífsleiðinni.
„Trú mín er að forritun sé lykilhluti af læsi á 21. öldinni. Við þurfum að kynna börn snemma fyrir forritun. Mér finnst í raun ósanngjarnt gagnvart börnunum að gefa þeim ekki tækifæri til að læra tölvunarfræði frá unga aldri,“ sagði Vignir Örn sem líkti forritun tölva við það að raða upp nótum fyrir hljóðfæri.
Vísaði hann til rannsókna sem sýndu að eftir tuttugu ár verði tæpur helmingur starfa í Bandaríkjunum unninn með sjálfvikrum hætti. Þau störf sem eftir verði krefjist þekkingar á tölvum. Vignir Örn sagði málið þó ekki aðeins snúast um efnahagslegar breytingar eða störf heldur að fólk geti skilið heiminn í kringum sig.
Sem dæmi um þetta nefndi hann kannanir um að fólk sem sagðist hafa notað Facebook á tilteknu tímabili hafi þrátt fyrir það sagst ekki hafa farið neitt á netið á sama tímabili.
„Hættan er sú að næsta kynslóð hafi ekki grænan grun um hvernig þessi hlutir virka,“ sagði Vignir Örn.
Vignir Örn fór yfir þá framþróun sem hefur orðið í tölvutækni frá því um miðja síðustu öld. Árið 1965 hafi MIT-háskóli í Bandaríkjunum verið með öfluga móðurtölvu sem hafi tekið upp heilt herbergi. Núna séu snjalltækin sem fólk gengur um með í vasanum þúsund sinnum öflugri en þessi tölva. Margt bendi til þess að veldisvöxtur í tölvunarfræði haldi áfram í framtíðinni.
Börn yrðu hins vegar ekki forritarar sjálfkrafa við það eitt að keyptar væru spjaldtölvur. Ein leið væri að tala við þá sem stýri menntamálum; skólana, kennara, stjórnmálamenn og fleiri. Vignir Örn sagði einnig að foreldrar gætu kennt börnum sínum með því að spila með þeim forritunarleiki eða lesa með þeim bækur. Nóg væri til af heimildum á netinu um hvernig sé best að byrja.
Fyrirtæki hans, Radiant Games, hefur þróað tölvuleikinn Box Island sem á að kynna börn fyrir grundvallaratriðum í tölvunarfræði með aðgengilegum hætti. Sagði Vignir Örn að þeir hafi reynt að búa til eins skemmtilega forritunarreynslu og hægt væri. Þeir hafi þegar kynnt leikinn fyrir fjölda barna.
„Það skemmtilegasta er þegar börnin koma og segja hversu mikil áskorun en skemmtilegur leikurinn er. Það þýðir að leikurinn hvetur þau til að taka næsta skref og að þau séu spennt fyrir því,“ sagði Vignir Örn.
Frétt mbl.is: Tölvuleikur sem kynnir forritun fyrir krökkum
Það sé ekki bara ósanngjarnt heldur óásættanlegt að kynna börn ekki fyrir forritun snemma á lífsleiðinni. Sum börn vilji helst teikna, önnur spila á hljóðfæri og forritun geti verið einn þessara hluta.
„Við verðum að taka ábyrgð. Við verðum að segja að börnin okkar eigi skilið að læra tölvunarfræði,“ sagði Vignir Örn.