Flestar kvartanirnar sem berast bæjarstjóranum í Kópavogi snúa að hjólreiðafólki sem fer of hratt á göngustígum. Meðal annars er kvartað yfir hjólreiðafólki sem fer um stígana á allt að 60 km/klst. í hverfi þar sem aka má bílum eftir götunum á 30 km/klst.
Þetta sagði Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, þegar hann setti málþing um göngu- og hjólastíga í Salnum í Kópavogi í morgun.
Hóf hann reyndar ræðu sína á því að segja frá því þegar hann var stöðvaður fyrir of hraðan akstur í Norðurárdal. Á þeim tíma var hann aðstoðarmaður þáverandi sjávarútvegsráðherra og voru þeir á leið suður þar sem ráðherra ætlaði að sækja fund. Ármann var aðstoðarmaður sjávarútvegsráðherra árin 1999 til 2005.
Þegar lögregla gaf merki um að Ármann ætti að stöðva bílinn var farartækið á 130 km/klst. Sagðist hann hafa reynt að afsaka sig á margvíslegan hátt og sagði meðal annars að hann þyrfti að koma ráðherra á fund sem fyrst fyrir sunnan.
Daginn eftir fór hann að velta fyrir sér hvort hann myndi hugsanlega missa prófið þar sem hann hafði ekið mun hraðar en umferðarreglur segja til um. Svo reyndist ekki raunin, heldur sagði Ármann að í ljós hefði komið að væri maður aðstoðarmaður ráðherra á bíl ráðherra í Norðurárdalnum missi maður ekki endilega prófið.
Í ræðu sinni sagði hann að setja þyrfti reglur um göngu- og hjólareiðastíga í bænum. Finna þyrfti leið til þess að þeir sem nota ólíka ferðamáta geti farið í gegnum samgöngukerfið án þess að það liggi við slagsmálum.
Sagði hann að hlutirnir væru orðnir öfugsnúnir þegar búið væri að koma upp göngustígakerfi og smá saman komi hjól inn á stígana sem verða smá saman betri og komist mjög hratt.
Ármann sagði einnig að það væri oft þannig að hjólreiðafólki taki ekki tillit til gangandi vegfaranda og kallist jafnvel á við þá. Bætti hann við að þær kvartanir sem hann fái snúi oftast að hjólreiðafólki sem fer of hratt á stígunum. Sagði hann að gera þyrfti átak í því að gera fjölþættara stígakerfi í Kópavogi og koma þurfi skilaboðum til löggjafans.