Fjárkúgunarmál systranna Hlínar Einarsdóttur og Malínar Brand sem tengist fyrrverandi forsætisráðherra, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, og þar sem fyrrverandi samstarfsmaður Hlínar kærði hana fyrir að hafa haft af sér 700 þúsund krónur, eru komin í ákæruferli hjá embætti héraðssaksóknara. Þetta staðfestir saksóknari málsins, Kolbrún Benediktsdóttir, við mbl.is.
Tæplega hálft ár er síðan rannsókn á málinu sem tengdist Sigmundi lauk hjá lögreglu, en beðið hefur verið eftir lokavinnslu á hinu málinu í nokkurn tíma. Er rannsókn á því nú lokið. Þar sem málin eru eðlislík eiga sakborningar rétt á því að málin séu tekin saman þegar ákvörðun um ákæru er tekin og því var beðið eftir seinna málinu.
Saksóknari mun nú yfirfara málið og verður ákvörðun um hvort ákæra eigi í málinu eða ekki tekin í framhaldinu.
Systurnar Hlín Einarsdóttir og Malín Brand voru handteknar í lok maí á síðasta ári grunaðar um að hafa sent bréf í pósti til forsætisráðherra og krafist þess að hann greiddi þeim tiltekna fjárhæð. Fjármunina átti að skilja eftir á ákveðnum stað sunnan Vallahverfisins í Hafnarfirði. Þar handtók lögregla konurnar.
Nokkrum dögum síðar voru systurnar kærðar fyrir aðra fjárkúgun. Karlmaður kærði þær fyrir að hafa haft af sér 700 þúsund krónur. Systurnar sögðu þá peninga vera miskabætur vegna nauðgunar en maðurinn á að hafa nauðgað Hlín. Eftir að maðurinn kærði fjárkúgunina kærði Hlín hann fyrir nauðgun.