Bernhöftsbakarí verði borið út

Bergstaðastræti 13.
Bergstaðastræti 13. mbl.is/Sigurgeir

Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að Bernhöftsbakarí skuli með beinni aðfarargerð borið út úr húsnæði eignarhaldsfélagsins B13 á jarðhæð fasteignarinnar að Bergstaðastræti 13 í miðbæ Reykjavíkur.

Hæstiréttur taldi að kaupsamningur aðila, þ.e. bakarísins og eignarhaldsfélagsins, um fasteignina hefði verið bundinn fyrirvörum sem ekki gengu eftir og hefði hann því fallið niður. 

Samkvæmt þessu hefði komist á ótímabundinn leigusamningur milli aðila sem B13 hefði verið rétt að segja upp með sex mánaða fyrirvara. Þá var fallist á með B13 að réttilega hefði verið staðið að uppsögn leigusamningsins.

Bakaríið fór ekki úr húsnæðinu þrátt fyrir dóm

Málið á sér nokkurn aðdraganda. B13 er þinglýstur eigandi fasteignarinnar að Bergstaðastræti 13. Upphaflega var gerður leigusamningur um húsnæðið 22. júní 1982 sem skyldi gilda til 1. júlí 1997. Gerður var nýr samningur um húsnæðið 10. september 1987 sem skyldi gilda frá 1. september 1987 til 1. júlí 1997. Enn var gerður samningur um húsnæðið við nýjan eiganda þess 30. maí 2001. Skyldi leigutími vera frá 1. júlí 2001 til 31. desember 2011. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 752/2012 var B13 heimilað að fá Bernhöftsbakarí borið út úr áðurnefndu húsnæði með beinni aðfarargerð og ekki fallist á þau rök bakarísins að síðastnefndur samningur hefði framlengst ótímabundið frá þeim tíma á grundvelli 59. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994.

Fram kemur í beiðni B13 um tilefni máls þessa að þrátt fyrir dóm Hæsta­réttar hafi bakaríið ekki farið úr húsnæðinu og hafi útburðarbeiðni þá verið send sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Við fyrstu fyrirtöku málsins hjá sýslu­manni hafi forsvarsmenn bakarísins óskað eftir að kaupa húsnæðið af B13. Var gerðinni þá frestað af þeim sökum í tvær vikur. Aftur hafi gerðinni verið frestað og 26. febrúar 2013 hafi aðilar skrifað undir kauptilboð sem háð var tilteknum fyrirvörum sem þar eru nánar tilgreindir. Málið var síðar fellt niður hjá sýslumanni.

Samkvæmt kauptilboðinu, sem dagsett er 26. febrúar 2013 og áritað um samþykki af hálfu sóknaraðila, skyldu eigendur bakarísins greiða 275.000 krónur á mánuði í leigu af húsnæðinu fram að afhendingu eignarinnar. Þá skyldu þeir einnig greiða hússjóðsgjöld af eigninni. Um afhendingu eignarinnar sagði að hún færi fram „við kaup­samning“. Kaupverðið var 40.500.000 krónur og skyldi greiðast við undirritun kaupsamnings gegn skilyrtu veðleyfi.

Í beiðni B13 kemur fram að þrátt fyrir að kaupin hafi ekki gengið eftir hafi eigendur bakarísins haldið áfram afnotum af eigninni og greitt 275.000 krónur á mánuði auk hússjóðsgjalda. Því hafi ótímabundinn leigusamningur stofnast milli aðila. Sendi B13 forsvarsrmönnum bakarísins bréf 29. maí 2015 þar sem leigusamningi var sagt upp með sex mánaða fyrirvara með vísan til 2. töluliðar 56. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Skyldi uppsagnarfrestur hefjast fyrsta dag næsta mánaðar og skyldi leigjandi hafa lokið rýmingu húsnæðisins 1. desember 2015.

B13 kveður varnaraðila ekki hafa orðið við kröfu hans um að rýma húsnæðið og hafi honum því verið nauðugur sá kostur að senda útburðarbeiðni til héraðsdóms.

Dómur Hæstaréttar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert