Stjórn Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík (SFHR) skorar á Alþingi að ljúka fyrstu umræðu um frumvarp Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra, um heildarendurskoðun á Lánasjóði íslenskra námsmanna. Brýnt sé að stúdentar geti komið sjónarmiðum sínum á framfæri við þingið yfir sumarið.
Eins og kunnugt er var frumvarp Illuga tekið af dagskrá þingsins í dag að kröfu stjórnarandstöðunnar. Þingið fer í sumarfrí á föstudag og kemur ekki saman aftur fyrr en um miðjan ágústmánuð.
Í tilkynningu frá SFHR segir að í framhaldi af 1. umræðu færi málið til þingnefndar og í umsagnarferli og yrði tekið aftur fyrir um miðjan ágúst þegar þing kemur saman að nýju. Önnur umræða um málið færi væntanlega fram þá og í framhaldi sú þriðja eftir frekari umfjöllun í þingnefnd.
Ljóst sé að frumvarpið kann að hafa veruleg áhrif á hagsmuni allra stúdenta.
„Því er brýnt að stúdentum sé gefið tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við Alþingi með formlegum hætti yfir sumarið. Frumvarpið er að mörgu leyti stórt skref í rétta átt, þó að það séu ýmis atriði sem má bæta, og SFHR telur sumarið vera tímann til þess að ræða þá vankanta sem á því eru,“ segir í tilkynningunni.