Menningarsetur múslima fær ekki fjögurra daga frest til að yfirgefa Ýmishúsið eins og það hafði óskað eftir við fulltrúa sýslumanns. Héraðsdómur úrskurðaði í maí að trúfélagið skyldi borið út.
Það þarf að yfirgefa húsnæðið seinna í dag eftir að fulltrúi sýslumanns hefur farið yfir eignir Menningarsetursins til að ákvarða hvað er í eigu þess og hvað er í eigu Stofnunar múslima sem á húsið.
Félagar í Menningarsetrinu meinuðu lásasmiði inngöngu í húsið í morgun en samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur átti að bera setrið þaðan út klukkan 10. Um tíu manna hópur, nær eingöngu skipaður karlmönnum, hafði staðið utan við húsið frá því nokkuð fyrir klukkan 10.
Þungt var yfir hópnum, sem hafði sig þó ekki mikið í frammi í fyrstu. Skömmu eftir að Karim Askari, formaður Stofnunar múslima og fyrrum formaður Menningarsetursins kom á staðinn ásamt lögmanni sínum hóf þó einn karlmannanna upp raust sína og hélt langa tölu á arabísku sem virtist beinast að Karim. Þá sýndu félagarnir vanþóknun sína með tákrænum hætti með því að stappa fast og ítrekað á skilti með mynd af Hussein Al Daoudi, framkvæmdastjóra Alrisalah Skandinavia sem rekur Stofnun múslima á Íslandi og sambærilegar stofnanir í Svíþjóð, Noregi og Danmörku.
Frétt mbl.is: Vörnuðu lásasmiði inngöngu
Fulltrúi sýslumanns og lögreglan fóru síðar inn í Ýmishúsið ásamt forsvarsmanni Menningarsetursins, ímaminum Ahmad Seddeeq, án þess að til átaka kæmi. Hann hafið áður óskað eftir fjögurra daga fresti til að yfirgefa húsnæðið. Karim og lögmaður hans héldu sig í nokkurri fjarlægð frá hópnum á meðan blaðamaður mbl.is var á staðnum og reyndu ekki að fara inn í húsnæðið, jafnvel eftir að lögregla og og sýslumaður gengu þar inn.
Karim sagði í samtali við mbl.is að hann yrði þó áfram á staðnum og myndi fylgjast með því þegar húsið væri tæmt.