Með hælisumsókn í kappi við tímann

Jórunn Edda Helgadóttir, félagi í samtökunum No Borders Iceland, á …
Jórunn Edda Helgadóttir, félagi í samtökunum No Borders Iceland, á mótmælunum í anddyri innanríkisráðuneytisins í gær. mbl.is/Andri Steinn

Nú þegar Eze Okafor er farinn frá landinu ætti ekki að vera neitt því til fyrirstöðu að taka mál hans til meðferðar og samþykkja umsókn hans um dvalarleyfi af mannúðarsjónarmiðum. Þetta segir Jórunn Edda Helgadóttir, félagi í samtökunum No Borders Iceland.

Eze var vísað úr landi til Svíþjóðar í síðustu viku en honum hefur verið gert að fara þaðan eftir daginn í dag.

„Lögfræðingur hans hafði lagt umsóknina fram áður en honum var vísað úr landi. Eitthvað sem væri yfirvöldum í lófa lagið er að vinna hratt og örugglega áður en hann verður kominn í lífshættu,” segir Jórunn en Eze er eftirlýstur af samtökunum Boko Haram í Nígeríu sem hann flúði undan til Íslands.

Frá mótmælum No Borders í innanríkisráðuneytinu í gær.
Frá mótmælum No Borders í innanríkisráðuneytinu í gær. mbl.is/Andri Steinn

Jórunn segir að þegar sótt sé um dvalarleyfi eigi umsækjandi ekki að vera á landinu en hverfa megi frá þeirri reglu á grundvelli sanngirnisástæðna. Yfirvöld hérlendis kusu að gera það ekki en „nú þegar hann er kominn úr landi hljóta þau að hefja meðferðina og ef þau myndu kjósa svo, þá er ekkert því til fyrirstöðu að þetta verði samþykkt,“ segir Jórunn og bætir við að öll gögn og upplýsingar varðandi umsókn Eze séu til staðar til þess að Útlendingastofnun geti komist að niðurstöðu varðandi mál Eze.

Ber að taka umsóknina fyrir en Eze er í kappi við tímann

„Þeim ber að taka þessa umsókn fyrir, það er engin spurning. En spurningin er hvort þeir velja að gera það á dögum eða mánuðum,” segir Jórunn og bætir við að umsókn Eze hafi verið á grundvelli mannúðarsjónarmiða en kærunefnd útlendingamála hafi eins sett fordæmi fyrir veitingu dvalarleyfa á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sem Eze hafi enda hafi hann búið á Íslandi í tæp fjögur ár.

mbl.is/Andri Steinn

Að sögn Jórunnar er það krafa No Borders að brottvísunin verði dregin til baka því það snýst ekki bara um Eze og hans mál. „Svona vinnubrögð verða ekki samþykkt. Það gengur þvert á lög og stjórnskipan að kærunefnd sé búin að úrskurða að brottvísun geti ekki farið fram á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar en Útlendingastofnun grípur fram fyrir hendurnar á þeim. Það er þvert á alla ferla og engu hægt að treysta í kerfinu ef ekki er farið eftir reglum,” segir Jórunn.

Eze er með lögfræðing í Svíþjóð sem hefur sótt um frestun á brottvísun fyrir hann. Hefur Jórunn eftir lögfræðingnum að ólíklega verði frestunin samþykkt en samtökin vonast eftir því að frestunin kaupi þeim tíma. „Það gefur þá stjórnvöldum hér frekara tækifæri til að bregðast hratt og örugglega við og samþykkja dvalarleyfisumsókn hans á allra næstu dögum – áður en það verður þessi mögulega óafturkræfi skaði að hann lendi í höndum Boko Haram eða verði myrtur af þeim,” segir Jórunn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert