Hæstiréttur staðfesti þriggja ára fangelsisdóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir tveimur karlmönnum sem frömdu vopnað bankarán í útibúi Landsbankans í Borgartúni í Reykjavík í lok desember á síðast ári. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar og krafðist þess að refsing ákærðu yrði þyngd.
Mennirnir stukku yfir afgreiðsluborð þar sem fimm starfsmenn bankans voru og ógnaði Ólafur Ingi Gunnarsson, annar ræningjanna, gjaldkera bankans með eftirlíkingu af skammbyssu sem hann hélt að höfði gjaldkerans. Skipaði hann gjaldkeranum að opna þrjár sjóðsvélar sem hann tæmdi peningana úr á meðan Jóel Maron Hannesson, hinn ræninginn, tók peninga sem voru á afgreiðsluborði og setti í poka sem hann hafði meðferðis. Mennirnir höfðu 588 þúsund kr, 1.080 evrur, 10 þúsund japönsk jen, 500 danskar krónur og 20 pund með sér af vettvangi.
Bankaræningjunum var gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna fyrir Hæstarétti, eða um 700 þúsund krónur hvor um sig.