Eggert hættir sem ritstjóri DV

Eggert Skúlason, ritstjóri DV.
Eggert Skúlason, ritstjóri DV. Mynd/DV

Eggert Skúlason, ritstjóri DV, mun hætta sem ritstjóri blaðsins eftir útgáfu þess á morgun. Þetta staðfestir Eggert í samtali við mbl.is, en hann tilkynnti samstarfsfólki sínu um málið á fundi í dag. Hann segir um sameiginlega ákvörðun sína og eigenda Vefpressunnar, útgáfufélags DV, vera að ræða og að eftir sumarfrí muni hann koma til með að vinna að verkefnum fyrir útgáfuna.

Eggert segir ekki enn alveg ljóst hvað það verði sem hann muni koma að, en að ákvörðunin hafi verið tekin í góðri samvinnu við alla aðila.

„Blaðið á morgun verður síðasta blaðið undir minni stjórn,“ segir hann og bætir við að ekki sé komið á hreint hvað taki við hjá honum í framhaldinu. Hann segist munu sakna samstarfsfélaganna á DV sem hafi unnið frábært starf þrátt fyrir fámenni.

Aðspurður hvernig hann horfi yfir farinn veg á DV segist hann vera stoltur af vinnunni undanfarið. Segir hann að nýir stjórnendur hafi breytt blaðinu. „Sumum líkað það, öðrum ekki,“ segir hann og bætir við að alla tíð hafi verið unnið eftir bestu sannfæringu og að blaðið hafi á þessum tíma ekki fengið á sig málshöfðun. „Sumir kalla það slöpp vinnubrögð, en ég segi að við höfum vandað okkur,“ segir Eggert.

Kol­brún Bergþórs­dótt­ir og Hörður Ægis­son verða áfram rit­stjór­ar DV

Frétt mbl.is: Breytinga að vænta hjá Pressunni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert