Maðurinn sem var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar eftir bílslys í Reynisfjalli við Vík í Mýrdal eftir hádegi í dag er á gjörgæslu Landspítalans. Líðan hans er stöðug, samkvæmt upplýsingum frá spítalanum.
Maðurinn var ökumaður í bíl sem ekið var eftir vegslóða í Reynisfjalli við Vík í Mýrdal. Bíllinn fór fram af brún í fjallinu og fór nokkrar veltur áður en hann hafnaði ofan í skurði.
Þegar bíllinn valt var maðurinn einn í bílnum en áður höfðu verið nokkrir farþegar í bílnum. Um erlendan ferðamann er að ræða. Ekki er vitað hversu margir urðu vitni að slysinu en vitni gerðu Neyðarlínu strax viðvart.
Töluverður viðbúnaður var vegna slyssins.
Frétt mbl.is: Ók eftir vegslóða í Reynisfjalli
Frétt mbl.is: Þyrlan flutti ökumann eftir bílslys