Neyðast til að flytja vegna hundsins

Tinni er lítill og kátur boston terrier-hundur að sögn Hilmars.
Tinni er lítill og kátur boston terrier-hundur að sögn Hilmars. ljósmynd/Hilmar Birgir Ólafsson

Ungt par neyðist til að selja íbúð sína í Stakkholti eftir að ákveðið var á húsfundi í gær að hundur þeirra fengi ekki að vera í húsinu. Kosið var gegn hundahaldinu með miklum meirihluta, en alls eru þrjú pör í húsinu með hunda. Munu þau öll flytja út á næstu dögum. 

„Við fengum ótal ábendingar um hvernig við gætum reynt að snúa upp á lögin sem var frábært en við höfum ákveðið að gefast upp og flytja. Okkur finnst Stakkholtið ekki lengur vera heimilið okkar,“ segir Hilmar Birgir Ólafsson, eigandi hundsins Tinna.

„Gætum alveg eins formlega bannað hundahald fyrir alla sem geta ekki keypt sér einbýlishús“

Eins og mbl.is sagði frá í síðustu viku viku býr Hilm­ar ásamt kær­ustu sinni og hund­in­um Tinna í íbúð á jarðhæð og fer Tinni alltaf inn og út um svala­dyr. Hann kem­ur því aldrei inn í sameign húss­ins. Hilm­ar seg­ist hafa fengið fjöld­ann all­an af ábend­ing­um frá fólki, m.a. um það að sam­kvæmt lög­um um fjöleign­ar­hús þurfi ekki samþykki fyr­ir hunda­haldi þegar um sér­inn­gang sé að ræða. Þar sem um sé að ræða svala­h­urð sé inn­gang­ur­inn hins vegar ekki sér­inn­gang­ur í skiln­ingi lag­anna.

Hilmar segir þó brýnt að endurskoða lög um fjöleignarhús. „Lögin sem gilda núna eru bæði óskýr og mjög ströng og ef við ætlum að hafa þau svona þá gætum við alveg eins formlega bannað hundahald fyrir alla sem geta ekki keypt sér einbýlishús,“ segir hann og bætir við að hundar séu leyfðir í fjölbýlishúsum í mörgum borgum og ekki hafi hann heyrt að það sé til mikilla vandræða. 

Hilmar og Herdís, kærasta hans, búa í Stakkholti með hundinn …
Hilmar og Herdís, kærasta hans, búa í Stakkholti með hundinn Tinna. Þau neyðast til að selja íbúð sína vegna hundsins. ljósmynd/Hilmar Birgir Ólafsson

Kosið gegn hundunum með miklum meirihluta

Hilmar segir alla hundaeigendurna hafa lagt sig fram við það að sem minnst trufl­un sé af hund­um þeirra. Eng­inn óþrifnaður hafi verið af þeim, lítið hafi heyrst í þeim auk þess sem þeir komi sára­lítið inn í sam­eign húss­ins.

Nokkrir íbúar hússins höfðu veitt Hilmari umboð til að kjósa um þetta einstaka mál, en til að hundarnir fengju að vera í húsinu hefði hunda­haldið þurft að vera samþykkt með tveim­ur þriðju hlut­um at­kvæða. „Fyrir utan atkvæðin sem við fengum umboð til að nýta sjálf var einn sem kaus með honum í stigaganginum okkar í leynilegri kosningu. Hundur sem er svo gott sem ósýnilegur fékk eitt af tuttugu og tveimur atkvæðum.“

„Það mun alltaf vera eitthvert áreiti af því að búa í fjölbýli

Rökin fyrir því að hundarnir fengu ekki leyfi í húsinu voru á þá leið að annars vegar ætti fólk vini og ættingja með ofnæmi og hins vegar að húsið myndi fljótt fyllast af hundum ef Tinna og hinum hundunum tveimur yrði leyft að vera í húsinu. „Ofnæmisrökin finnast okkur hæpin. Við eigum erfitt með að trúa því að fólk finni fyrir ofnæmi af því að fara um sameign þar sem hundar fara um einu sinni eða tvisvar á dag. Enda var enginn með ofnæmi, einungis
var um möguleg ofnæmi að ræða,“ segir Hilmar og heldur áfram:

Rökin um að hér fyllist allt af hundum um leið eru einnig hæpin. Það mun alltaf vera eitthvað áreiti af því að búa í fjölbýli. Við sjáum ekki hvernig það er öðruvísi að heyra háa tónlist eða finna lykt ógeðslegum mat en að heyra smá gelt af og til.

Brýnt að lögin séu endurskoðuð

Þá segist hann telja að stórar blokkir eins og Stakkholtið séu framtíðin í byggð í Reykjavík og því þarfnist lögin endurskoðunar. „Við erum algjörlega á því að það þurfa að vera til úrræði ef hundar eru til vandræða en eins og lögin eru núna þá er eiginlega ómögulegt að búa löglega með hund í fjölbýlishúsi,“ segir hann. 

Að lokum segir hann að miðað við allan stuðninginn sem þau fundu fyrir í aðdraganda húsfundarins geti verið að viðhorf í samfélaginu séu að breytast. Því miður dugi það hins vegar skammt að þessu sinni. 

Frétt mbl.is: Bjartsýnni í dag en í gær

Frétt mbl.is: Selja íbúðina ef hund­ur­inn fær ekki að vera

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert